Icelandic Times – Íslandskynning á alþjóðavísu

Icelandic Times – Íslandskynning á alþjóðavísu

Í dag fjallaði ein stærsta fréttaveita Kína, Xinhua News Agency, um kínverska útgáfu íslenska ferðaritsins Icelandic Times á öllum helstu miðlum samsteypunnar. Fréttastofan, sem er í ríkiseigu og er ein af þremur stærstu fréttastöðvum Kína, rekur meðal annars sjónvaprsstöðvarnar CNC China og CNC World sem varpa á ensku og kínversku í yfir 120 löndum. Sömuleiðis rekur fréttastofan marga af öflugustu veffréttaveitum þar í landi:

Enska sjónvarpsfréttin

IMG_8469Í fréttinni, þar sem fjallað var um útgáfuna, var rætt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um vináttu Kína og Íslands og þá möguleika sem felast í samvinnu þjóðanna. Sigmundur vísaði til Kína sem lands framtíðarinnar og ítrekaði áhuga Íslendinga fyrir Kínverjum. Hann sagði Íslendinga álíta Kínverja sem ákjósanlega gesti og að Íslendingar fögnuðu heimsóknum Kínverja til landsins. Áhugi Kínverja fyrir Íslandi væri af hinu góða og að hann væri sannarlega gagnkvæmur. Hann sagðist telja að allt sem myndi auka enn frekar á samvinnu þjóðanna væri af hinu góða. Þá var rætt við iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur um áhuga íslenskra einkafyrirtækja fyrir markaðssvæðinu og að mörg þeirra miðuðu markaðsstaf sitt sérstaklega að Kína.

Um 49% fjölgun var á komum kínverskra ferðamanna til Íslands á tímabilinu janúar til nóvember 2014 miðað við sama tímabil í fyrra. Gera má ráð fyrir að að ríflega 35.000 kínverskum gestum á næsta ári ef þróunin helst óbreytt.

IMG_8444Ferðaritið Icelandic Times fjallar um ferðamál, menningu og viðskipti og hefur verið starfrækt frá árinu 2009. Ritið er aðgengilegt í hefðbundinni prentútgáfu en vefútgáfu miðilsins má nálgast á www.icelandictimes.com . Útgáfan miðar að upplýsingagjöf til erlendra ferðamanna um það markverðasta sem í boði er innan ferðaþjónustunnar hverju sinni. Ensk útgáfa blaðsins hefur verið starfandi frá árinu 2009 en franskar og þýskar útgáfur blaðsins hafa verið gefnar út frá 2012. Í nóvember síðastliðnum leit fyrsta kínverska útgáfa ritsins dagsins ljós og hefur útgáfan vakið umtalsverða athygli hið ytra. Samhliða prentútgáfunni var kínverskri útgáfu vefmiðilsins jafnramt ýtt úr vör á léninu www.icelandictimes.cn. Edda Snorradóttir, verkefnastjóri Icelandic Times, segir aukinn áhuga Kínverja fyrir Íslandi kalla á að þjónustuframboð hér á landi verði aðlagað að fjölbreyttum hópi ferðamanna þannig hægt sé að mæta þörfum ólíkra hópa ferðamanna.

IMG_8460Icelandic Times hyggst gefa út annað tölublað kínverska ritsins í febrúar n.k. sem verður eingöngu dreift úti í Kína, m.a. til ferðaskrifstofa sem hafa leyfi þarlendra stjórnvalda til að senda hópa úr landi, á ferðaráðstefnum og til ýmissa aðila innan viðskiptalífsins. Markmiðið er að auka vitund um Ísland og stuðla að því að styrkja ímynd landsins sem áhugverðs áfangastaðar fyrir kínverska ferðamenn. Einnig er lögð áhersla á viðskipti og nýsköpun í blaðinu til að liðka enn frekar fyrir viðskiptum á milli þjóðanna í kjölfar nýlegs fríverslunarsamnings á milli þjóðanna.

Í lok fréttarinnar ávarpaði Sigmundur kínverska ferðamenn og sagðist einkar ánægður með komur þeirra til landsins og að hann væri áhugasamur um að fá sem flesta þeirra til landsins.