Ævintýrin í Grímsnes- og Grafningshreppi

Ævintýrin í Grímsnes- og Grafningshreppi
Grímsnes- og Grafningshreppur tilheyra Uppsveitum Árnessýslu sem er eitt fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins og hvergi er fleiri sumarhús að finna. Mikil uppbygging hefur verið á svæðinu og gestum og íbúum fjölgar ár frá ári. Ástæðurnar eru margar m.a. rómaðar náttúruperlur og sögustaðir, gott aðgengi og nálægð við höfuðborgarsvæðið. Það kemur mörgum skemmtilega á óvart hve stutt er að skreppa í algera kyrrð og sveitasælu.

Kerid INáttúran er helsta aðdráttaraflið, en á undanförnum árum hefur áhugi ferðamanna á sögu og menningu farið vaxandi. Gestir vilja gjarnan sjá og heyra hvað heimamenn eru að fást við. Til að mæta þessum áhuga er m.a. boðið upp á ýmsa menningarviðburði og uppákomur.

Gistmöguleikar eru fjölbreyttir: tjaldsvæði, bændagisting, sumarhús, hótel og fjallaskálar. Og flestir hafa heita potta. Veitingastaðir bjóða gestum upp á matvæli úr heimabyggð eftir því sem við verður komið enda er svæðið mikil matarkista.

Fjölbreytt afþreying er í boði jafnt fyrir þá sem stoppa stutt og þá sem kjósa að dvelja lengur. Sundlaugar og golfvellir, hestaleiga, fallegar reiðleiðir, veiði, fjórhjól, bátaleiga, gönguleiðir, adrenalíngarður, litboltavöllur og sýningar. Fjallganga á Mosfell er fyrir alla fjölskylduna, en þar uppi er gestabók í sumar, liður í verkefninu „fjölskyldan á fjallið“ og merktar gönguleiðir eru á Hengilssvæðinu.

Gestir og gangandi velja svo hvort þeir vilja hvíld í kyrrð og ró, fróðleik, spennu eða sitt lítið af hverju. Hver árstíð hefur sinn sjarma, snjór, myrkur og norðurljós eru ekki síðri upplifun en bjartar nætur, fuglar og ilmandi gróður á sumrin eða haustlitaferð. 
 
Fjölbreytt menningardagskrá og þjónusta er í boði á Sólheimum, sem er skemmtilegur vistvænn byggðakjarni www.solheimar.is. Nesjavallavirkun og Ljósafossstöð eru opnar gestum. Grímsævintýri á Borg er fastur liður annan laugardag í ágúst, með fjölbreytta dagskrá og Hollvinir Grímsness standa fyrir menningarviðburðum í Grímsnesi. Við Úlfljótsvatn er fjölbreytt starfsemi og þjónusta við ferðamenn og einnig á Nesjavöllum. Borg er ört vaxandi byggðakjarni, þar er glæsileg sundlaug sem nýtur mikilla vinsælda og öflug ferðaþjónusta er á Minni-Borgum þar sem leigð eru út sumarhús og boðið upp á afþreyingu. Gamla-Borg er hús með sál og sögu, þar eru ýmsar uppákomur. 
 
Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu brydda gjarnan upp á ýmsum menningarviðburðum, bjóða upp á lifandi tónlist, myndlistarsýningar, skemmtikvöld af ýmsum toga, óvissuferðir og afþreyingu fyrir fjölskyldur og hópa.

Upplýsingar um ferðaþjónustu og viðburði má finna á www.sveitir.is og í Uppsveitakortinu sem liggur frammi á þjónustustöðum. Ferðalangar eru hvattir til að gefa sér tíma og kynnast Grímsnesi og Grafningi nánar.