Ágúst Elvar Bjarnason

Ágúst Elvar Bjarnason ráðinn í starf verkefnastjóra ferðamála á Höfuðborgarstofu

Ágúst Elvar Bjarnason hefur verið ráðinn sem verkefnastjóri ferðamála á Höfuðborgarstofu. Um er að ræða nýtt starf á stofnuninni og felst það í að efla samkeppnisstöðu og fjölbreytileika Reykjavíkur sem áfangastaðar, leiða vinnu við stefnumarkandi stjórnunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið (DMP) og taka þátt í að fylgja eftir framkvæmd aðgerðaáætlunar Ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar. Verkefnastjóri ber ábyrgð á að bæta upplýsingaöflun um stöðu og þróun ferðamála í Reykjavík, framkvæma vandaðar greiningar og efla samstarf og samráð við lykilaðila innan og utan Reykjavíkurborgar.

Ágúst Elvar er með BSc í tölvunarfræði og MA í ferðamálafræði frá háskólanum í Álaborg. Hann hefur áralanga starfs- og stjórnunarreynslu á sviði ferðamála.

Ágúst var eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic DK í Kaupmannahöfn, svæðisstjóri Hadler DMC í sömu borg og sölustjóri hjá Arctic Adventures. Stór hluti af starfi hans hjá Artic Adventures í Reykjavík var greiningarvinna, verkefnastjórnun, ferlagerð, stefnumörkun og samskipti við aðila í ferðaþjónustu innanlands og erlendis.

Þekking og reynsla Ágústs á sviði ferðamála er yfirgripsmikil og hefur hann víðtækt tengslanet á sviði ferðamála. Hann hefur fylgst með og tekið þátt í vexti og uppbyggingu ferðaþjónustu hér á landi og reynslu af því að stofna og reka eigið fyriræki í ferðaþjónustu. Ágúst Elvar hefur tekið þátt í stefnumörkun á sviði ferðamála, sinnt ráðgjöf og samstarfi, greiningarvinnu, þróun ferla, starfsmannahaldi, umsjón með daglegum rekstri, samskiptum við birgja sem og innlenda og erlenda endursöluaðila, markaðssetningu, vöruþróun og verkefnastjórnun, allt á sviði ferðamála.

Alls bárust 19 umsóknir um starfið. Tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar síðar til baka.
Forstöðumaður Höfuðborgarstofu Áshildur Bragadóttir og Baldur Örn Arnarson mannauðsráðgjafi á Menningar- og ferðamálasviði unnu úr öllum aðsendum umsóknum og höfðu umsjón með viðtölum við þá umsækjendur sem best uppfylltu kröfur starfsauglýsingarinnar.

Nánari upplýsingar veitir: Berghildur Erla Bernharðsdóttir kynningarstjóri Höfuðborgarstofu í síma 694-5149.