Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Dodda Maggý og Gjörningaklúbburinn

Spurt og svarað: Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Dodda Maggý og Gjörningaklúbburinn
Fimmtudag 23. febrúar kl. 20.00 í Hafnarhúsi

Boðið er upp á samtal við listamenn sem eiga verk í sýningaröðinni Hrinu. Rætt verður um tilurð verkanna, inntak þeirra og útfærslu, auk þess sem horft er til samhengis þeirra við önnur verk á ferli listamannanna sem og þróun vídeólistar almennt. Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, leiða samtalið og er gestum velkomið að taka þátt.

Ásdís Sif Gunnarsdóttir (1976) Skipbrot úr framtíðinni / sjónvarp úr fortíðinni (2014)
Verk Ásdísar var upprunalega hluti af innsetningu í A-sal Hafnarhúss en það má aðlaga ólíkum aðstæðum hverju sinni sem það er sýnt. Ásdís endurnýtir eldra efni og skeytir því við nýtt þannig að myndheimur hennar verður að einni órofa heild. Undirstaðan er gjörningur og texti sem síðan fara í gegnum úrvinnslu í upptöku. Efni og rými bætist þar ofan á sem mismunandi lög þangað til hinni línulegu framvindu vídeós og texta er kollvarpað. Ásdís bregður sér í ýmis gervi og styrkja þau enn afbygginguna sem á sér stað í verki hennar.

Dodda Maggý (1981) Lucy (2009)
Dodda Maggý vinnur í verkum sínum ýmist með hljóð eða mynd, enda hefur hún í námi sínu ástundað bæði myndlist og tónlist. Hér tengir hún hvort tveggja saman í innsetningu með því að margfalda eigin söngrödd, sem magnast og dvín í samspili við mynd af listamanninum sem birtist og hverfur. Í myrkvuðu rýminu skynjar sýningargesturinn að röddin sé aðskilin frá hinum eiginlega flytjanda og finnst hún berast hvaðanæva þótt hún sé alltaf úr sama barka. Hljóðið virðist stjórna myndinni frekar en öfugt, að hljóð sé sjálfsagður fylgifiskur myndar.

Gjörningaklúbburinn (1996) Girnilegar konur (1996)
Verkið er frá því snemma á ferli Gjörningaklúbbsins. Vídeóið er skrásetning gjörnings þar sem unnið var með lifandi skúlptúr og að auki koma fjórar ljósmyndir af skúlptúrunum fullgerðum. Nakinn kvenlíkami er undirstaða fjögurra fagurskreyttra veislurétta, súkkulaðiköku, rjómatertu, glassúrköku og brauðtertu. Margendurtekin hlutgerving kvenlíkamans í þágu listarinnar er hér til umfjöllunar á gamansaman en gagnrýninn hátt. Um leið er dregið fram annað minni úr listasögunni, áminningin um dauðleika mannsins.

Eirún Sigurðardóttir, ein þriggja listamanna í Gjörningaklúbbnum, talar fyrir hönd hópsins.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.