Beint flug til Kína? Kínverskum ferðamönnum fjölgar um 50% milli ára

Fjöldi tækifæra á Kínamarkaði

Fjöldi ferðamanna frá Kína til Íslands og víðar í Evrópu fer ört fjölgandi og með gildistöku fríverslunarsamnings við Kína er talið að enn fleiri tækifæri muni skapast fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi.

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 hefur fjöldi kínverskra ferðamanna til Íslands aukist um helming frá árinu áður og er mikil aukning kínverskra ferðamanna raunar fyrirséð í Evrópu allri. Fríverslunarsamingurinn hefur í sjálfu sér ekki bein áhrif á ferðaþjónustuna, en talið er að aukin viðskipti og samskipti við Kína muni stuðla að landkynningu þar ytra.

20141001_191702Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segist fagna samningnum og að hann muni meðal annars styðja vel við það markaðsstarf sem þegar er í gangi í Kína . „Við höfum í sjálfu sér ekki lagt sérstakt mat á kosti samningsins hvað varðar ferðaþjónustu, en ég held að þessi samningur sé af hinu góða hvernig sem á það er litið. Aukin verslun við Kína mun þannig stuðla að auknum áhuga á Íslandi og helst þetta því allt í hendur með jákvæðum formerkjum,“ segir Grímur. Eins nefnir Grímur að ferðaþjónustuiðnaðurinn á Íslandi afli sér ýmissa rekstraraðfanga sem framleidd séu í Kína og sé samningurinn einnig hagstæður hvað það varðar.

Grímur telur ekki að gildistaka samningsins muni leiða til sérstakrar aukningar ferðamanna frá Kína og ekki þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana þess vegna.“ Það hefur verið hér stöðug aukning ferðamanna frá Kína undanfarin ár en fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja hefur eflt markaðsstarf sitt í Kína síðustu misseri. Það er vinna og kostnaður sem er þar að baki og ég tel að þessi samningur muni einfaldlega styrkja það starf,“ segir Grímur.

couple (2)Ólíkur markaður

Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Iceland Excursions Gray Line, segir að þó fríverslunarsamningurinn snúist að mestu um viðskipti með vörur, muni hann hafa í för með sér góð kynningaráhrif í Kína. „Ég þekki þessa Asíumarkaði ágætlega og veit að umræðan um landið vinnur alltaf með okkur. Samhliða aukinni verslun og viðskiptum mun fólk þekkja landið betur og það skilar sér í aukningu ferðamanna til landsins.“

Þórir segir þó að kínverski markaðurinn sé um margt ólíkur mörgum öðrum mörkuðum og að fólk verði að skilja menningarmuninn sem þar er á milli. „Þarna eru mörg spennandi tækifæri á ört vaxandi markaði, en það þarf að nálgast allt kynningarstarf og þjónustu öðruvísi. Mín reynsla er til dæmis sú að kínverskir ferðamenn þurfa gjarnan meira aðhald í ferðaþjónustu og þarf því að haga þjónustunni við þá á annan hátt en ferðamenn frá t.d. sumum nágrannalanda þeirra,“ segir Þórir.

girlwmap_3Ferðamenn sem skilja meira eftir sig

Hin nýstofnaða ferðaskrifstofa Iceland Europe Travel Partnership sækir mikið á Asíumarkað og hefur nú opnað skrifstofu í Kína. Framkvæmdastjóri IETP, Jónína Bjartmarz, segist finna fyrir miklum áhuga á Íslandi þar ytra og þar séu mörg tækifæri í ferðaþjónustu, án þess þó að fríverslunarsamningur við Kína hafi þar áhrif á.

Fyrirtækið hefur unnið náið með kínverskum ferðaþjónustufyrirtækjum um kynningu á Íslandi og segir Jónína að þá sé horft sérstaklega til betur megandi ferðamanna. „Við hjá Iceland Europe Travel Partners viljum ekki endilega þessa miklu fjölgun ferðamanna, sem jafnvel er kostur á, heldur viljum við ferðamenn sem skilja meira eftir sig og skapa þannig aukna arðsemi. Við sóttum nýverið eina stærstu ferðakaupstefnu í Asíu sem einblínir á ferðaþjónustu í háum gæðaflokki og sáum þar mörg tækifæri.“

Jónína segir þó að ferðaþjónustufyrirtæki þurfi þó að ganga í takt ef halda á sérstöðu Íslands og skapa aukinn arð á sama tíma. „Það kæmi sér þannig illa ef ferðaþjónustufyrirtæki hér færu að selja kínverskum ferðaskrifstofum ódýrar ferðir, án þess að huga að gæðum. Þessir betur megandi ferðamenn vilja ekki endilega koma og sjá fleiri tugi rúta við áfangastaðina, þeir vilja frekar upplifa náttúruna. Það eru ekki endilega fimm stjörnu hótel sem við þurfum, jafnvel þó einhverjir ferðamenn setji það fyrir sig, en við þurfum að huga að fjölda ferðamanna sem þessir staðir þola og standa vörð um náttúruna,“ segir Jónína.

Beint flug til Kína?

Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra, sem undirritaði saminginn fyrir hönd Íslands, segir samninginn fela í sér tækifæri í ferðaþjónustu, en með því að koma á beinu flugi til Kína sé hægt að gera Ísland að miðstöð fyrir ferðalög kínverskra túrista og kaupsýslumanna til Evrópu og Ameríku. Þess vegna sé mikilvægt að Icelandair vinni að beinu flugi til Kína í samvinnu við íslensk stjórnvöld.

Þórir segir að þó það hafi verið lengi í umræðunni að koma á beinu flugi til Asíu, sé það aðeins tímaspursmál hvenær það gerist. „Staðreyndin er sú að flugleiðin frá Peking til Keflavíkur er styttri en Peking til London. Ísland er því í mjög góðri stöðu, það er bara spurning um hvenær menn sjá markaðinn hérna nógu öflugan til að sjá fyrir sér Asíuflug með Ísland sem höfn milli Evrópu og Bandaríkjanna. Ég tel það aðeins vera tímaspursmál og ekki margir áratugir í að það verði að veruleika,“ segir Þórir.

 

-VAG

Quote1: „Það hefur verið hér stöðug aukning ferðamanna frá Kína undanfarin ár en fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja hefur eflt markaðsstarf sitt í Kína síðustu misseri. Það er vinna og kostnaður sem er þar að baki og ég tel að þessi samningur muni einfaldlega styrkja það starf“ – Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Quote2: „Við sóttum nýverið eina stærstu ferðakaupstefnu í Asíu sem einblínir á ferðaþjónustu í háum gæðaflokki og sáum þar mörg tækifæri.“ – Jónína Bjartmarz, framkvæmdastjóri IETP

 Quote3: „Samhliða aukinni verslun og viðskiptum mun fólk þekkja landið betur og það skilar sér í aukningu ferðamanna til landsins.“ – Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Iceland Excursions Gray Line

Quote4: „Staðreyndin er sú að flugleiðin frá Peking til Keflavíkur er styttri en Peking til London. Ísland er því í mjög góðri stöðu, það er bara spurning um hvenær menn sjá markaðinn hérna nógu öflugan til að sjá fyrir sér Asíuflug með Ísland sem höfn milli Evrópu og Bandaríkjanna.“ – Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra