Breiðdalur brosir við þér

Breiðdalur brosir við þér
-Breiðdalshreppur og Breiðdalsvík er lítið og vinalegt samfélag en með ótal ferðamöguleikum.
Breiðdalsvík er vel staðsett fyrir ferðalanga og ýmis afþreying er í boði í nágrenninu. Hægt er að koma í hina fullkomnu afslöppun, fara í veiði, skoða náttúruna, fara á hestbak og í göngur og svo mætti lengi telja.

Íbúar í Breiðdalshreppi er u.þ.b. 200. Fiskvinnsla og landbúnaður er aðal atvinnugreinin í byggðarlaginu en á síðustu árum hefur ferðaþjónusta farið mjög vaxandi. Þrátt fyrir smæðina er allt til alls á Breiðdalsvík, hótel, sveitagisting, sumarhús til leigu, veitingahús, kaffihús, sundlaug, íþróttamiðstöð, útimarkaður, verslun, bensínstöð, bifreiðaverkstæði, banki og póstafgreiðsla.

Athyglisverðir staðir
Meleyri er falleg strönd fyrir innan Breiðdalsvík og þangað er skemmtileg gönguferð fyrir fjölskylduna. Ríkulegt fuglalíf er á Meleyri og í nágrenni hennar. Þá er athylisvert að heimsækja Heydali sem voru löngum taldir eitt af betri brauðum landsins. Þekktastur Heydalaprestur er sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson sem uppi var á árunum 1538-1626 og orti jólasálminn, Nóttin var sú ágæt ein. Frá Hótel Staðarborg í Breiðdalsvík er góð gönguleið að Heydölum. Við minni Norðurdals er stutt og falleg merkt gönguleið í gegnum Aldarmótaskóg, meðfram Tinnudalsá.

blafellÁ Breiðdalsheiði er lítið og fallegt stöðuvatn. Þarna má búast við að koma auga á hreindýr eins og víða á Austfjörðum. Það er tilvalið fyrir ferðamenn að stoppa þarna, ganga í kringum vatnið og setjast niður og borða nestið sitt á þessum fallega stað. Yfir Stafsheiði frá Norðurdal í Breiðdal og yfir í Skriðdal er góð rudd gönguleið. Á Streitishvarfið er Streitisviti og þaðan er gott útsýni yfir hafið og skemmtileg og merkt gönguleið fyrir Streitishvarf.

Lifandi þekkingarsetur
Gamla kaupfélagið er elsta húsið á Breiðdalsvík, reist árið 1906, og hefur það verið í endurbyggingu síðast liðin ár. Húsinu er ætlað að vera miðstöð menningar, sögu og þekkingar í víðum skilningi. Húsið á að vera lifandi þekkingarsetur þar sem boðið verður upp á sýningar, fræðslu og aðrar uppákomur. Upplýsingar um það sem er að gerast í Kaupfélagshúsinu er að finna á www.breiddalssetur.is

Í Ási Handverkshúsi er handverksmarkaður. Þar er að finna fjölbreytt handverk unnið af handverksfólki á Breiðdalsvík. Við Kleifarvatn eru sumarhús, fín silungsveiði og bátaleiga. Þar er ferðaþjónustan Kleif.

Hægt er að fara í skotveiði í Breiðdalshreppi, fuglaskoðun, í veiði, á hestbak, í gönguferðir og í sund. Á Breiðdalsvík er falleg og merkt gönguleið í gegnum þorpið og upp að sundlauginni. Sundlaugin er útilaug með heitum potti og er hún opin yfir sumartímann. Hestaleiga er rekin við Hótel Staðarborg og á sumrin er boðið upp á 1 til 2 klukkutíma reiðtúra í fylgd með leiðsögumanni. Í gömlu símstöðinnni á Breiðdalsvík er Steinasafn Breiðdals sem er mjög fjölbreytt steinasafn. Tveir vitar eru í Breiðdalshreppi og er annar staðsettur við höfnina á Breiðdalsvík og hinn á Streitishvarfi.

Sveitasæla
Breiðdalurinn er tilvalinn fyrir ráðstefnur, árshátíðir, vinnufundi, ættarmót, heilsuhelgar, veiðiferðir o.fl. Boðið er upp á sveitasælu eins og hún gerist best, mikla náttúrufegurð, bæði til sjávar, inn í dali og upp til fjalla. Fjögur heilsárs hótel eru á svæðinu, sveitagisting, sumarhúsagisting og tjaldstæði. Hótelin á staðnum heita Hótel Bláfell, sem er lítið rómantískt hótel á Breiðdalsvík þar sem boðið er upp á alíslenskan mat í hádeginu, Hótel Staðarborg, þaðan liggja fallegar gönguleiðir og þar er hestaleiga, Veiðihúsið Eyjar, sem er fyrsta flokks heilsárshótel og veiðirétthafi fyrir Breiðdalsá og Café Margret sem er fallegt lítið heilsárhótel með fyrsta flokks gistingu og veitingum. Ferðaþjónustan Skarði leigir 4 sumarhús og er með bændagistingu. Sumarhúsin standa á fögrum stað í Gilsársbrekkuskógi í Norðurdal.

Nánari upplýsingar um Breiðdalshrepp er að finna á www.breiddalur.is