,,Ekki sæmandi að fólk lifi við einangrun á árinu 2014“

bjorn samuelsson
Björn samúelsson.

segir Björn Samúelsson á Reykhólum, sem vill ákvörðun strax um láglendisveg vestur á Suðurfirði Vestfjarða Björn Samúelsson býr á Reykhólum og starfar sem vélstjóri á skipinu Gretti sem er í eigu Þörungaverksmiðjunnar. Hann rak einnig um tíma farþegabát sem hann notaði m.a. til skoðunarferða fyrir ferðamenn, s.s. út í Skáleyjar, Hvallátur og Flatey og hefur siglt um Þorskafjörð margoft síðustu ár. Hann segir að það samgönguleysi sem íbúar á þessu svæði allt vestur á Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal búi við sé alveg óþolandi og ekki ásættanlegt að fyrirtækin á Suðurfjörðunum skuli gjalda fyrir það að ekki sé hægt að fara þessa leið sómasamlega með afurðirnar, hvort sem afurðirnar séu að fara í flug eða skip til kaupenda erlendis. Björn segir þetta líka snúast um aðdrætti að svæðinu og þungaflutninga sem þurfa að komast fljótt til viðtakenda á Suðurfjörðum Vestfjarða og ekki má gleyma fólkinu sem býr fyrir vestan það þarf að komast leiðar sinnar. Það er búið að bíða nógu lengi eftir betri samgöngum milli staða.

teitskogur 3
Teigsskógur, umdeilt svæði.

–    Staðan mundi væntanlega breytast mikið ef Þorskafjörður, Djúpifjörður og Gufufjörður yrðu þveraðir þannig að ekið yrði frá Þorskafirði í Skálanes og þannig hægt að losna við að aka yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls? ,,Hreinn Haraldsson vegamálastjóri talar nú fyrir leið sem kölluð er leið 1, um austanverðan Þorskafjörð út að Laugarlandshrauni og þar þvert yfir á Grenitrésnes á Hallsteinsnesi þar sem dýpið er 17 metrar yfir fjörðinn sem er gríðar mikil fylling í þeim eina firði og fara þaðan yfir á Grónes með því að þvera Djúpafjörð og yfir Gufufjörð. Þannig fengjum við að vísu láglendisveg og losnuðum við veg yfir hálsanna. Það er ekki hægt að una því nema við fáum láglendisveg alla þessa leið. Það er ekki sæmandi að fólk þurfi að lifa í einangrun á þessu svæði árið 2014. Fólk sem býr í Gufudalssveitinni sækir í vaxandi mæli vinnu frá heimilum sínum til Reykhóla og skólabörnin eru keyrð tvisvar á dag yfir vetrarmánuðina til Reykhóla, en það eru um 10 manns. Það munaði miklu fyrir þetta fólk að komast á nokkrum mínútum yfir Þorskafjörðinn í stað þess að í dag tekur það um klukkutíma, jafnvel mun lengur þegar eitthvað er að veðri á veturna. Síðasti vetur var mjög erfiður, hörð veður og mikil ísing og stundum var mikill snjór á stöðum sem ekki voru þekktir fyrir það áður.“

hjallahals
Horft af Hjallahálsi yfir Djúpafjörð og Gufufjörð að Skálanesi. Þverun mundi spara akstur fyrir þessa firði báða.

–    Getur hluti af skýringunni á því að þið búið við svo slæmt vegaástand verið að heimamenn eru ekki nægjanlega sammála um leiðir, hvaða leiðir eigi að fara, hvar eigi að leggja vegi og brýr? ,,Vissulega. Það er alltaf verið að hamra á þessari Teigsskógarleið þó svo að það sé fallinn hæstaréttardómur í því máli og dómurinn hafi hafnað þeirri leið, en það eru ýmsir aðrir ásættanlegir möguleikar með vegalagningu, jafnvel miklu betri kostir eins og vegur út  austanverðan Þorskafjörð og þaðan yfir í mynni Þorskafjarðar yfir á Melanes, þar fengist hringtenging til Reykhóla og aðeins þyrfti að leggja eina brú í staðinn fyrir þrjár, samanber Teigsskógarleiðina; Þorskafjörður, Djúpifjörður, Gufufjörður.“

Skoðunarferð með sveitarstjórnarfólk

Björn segir að þann 10. ágúst nk. ætli hann og Örn Sveinsson, sem er skipstjóri á Gretti og er frá Tálknafirði, að að bjóða sveitarstjórnarfólki og hagsmunaaðilum af Suðurfjörðum og vegamálstjóra í siglingu frá Reykhólum að haftinu í mynni Þorskafjarðar og einnig að öðrum stöðum þar sem veglína er hugsuð yfir fjörðinn. Þá er sjávarstaða hagstæð, stórstraumsfjara. ,,Það er örugglega hægt að gera brú í mynni Þorskafjarðar yfir álinn þar sem hann er 180 til 200 metra breiður og þar þyrfti ekki mikla landfyllingu vegna þess að beggja vegna er mjög aðgrunnt, 2,7 til 3,1 meter. Sannarlega er þverun þessara þriggja fjarða með einni brú besta lausnin en hún virðist ekki í boði af hálfu Vegagerðarinnar. Okkur tókst að fá brú yfir Gilsfjörð sem er gríðarleg samgöngubót, en það tók 14 ár, en það var barátta sem við sjáum ekki eftir. Nú snýst baráttan um veg eða brú um Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð sem mundi breyta gríðarlega öllu mannlífi á svæðinu, félagslega sem atvinnulega.Vegurinn um Þröskulda til Hólmavíkur breytti mannlífinu hér mikið, nú erum við að sækja þjónustu til Hólmavíkur sem ekki var möguleiki á áður. Láglendisvegur vestur úr á Barðaströnd mundi einnig hafa umtalsverð áhrif á samskipti fólks og félagslega þjónustu á svæðinu.“

Raforkuskortur og sjávarfallavirkjun

,,Það er raforkuskortur á Vestfjörðum sem er háalvarlegt mál. Það varð m.a. að loka í vetur sundlaugunum á Hólmavík og Þingeyri vegna þess að það var ekki til umframorka hjá Landsvirkjun sem táknar einfaldlega það að skerða verður þjónustuna við fólkið hérna. Í mynni Þorskafjarðar hefur verið rætt um að reisa sjávarfallavirkjun sem skapaði allt að 9-12 störf og ég skil ekki af hverju er ekki hægt að vinna saman að þessari hugmynd með Vegagerðinni í samstarfi við Orkubú Vestfjarða, þ.e. hanna mannvirki sem væri bæði brú yfir Þorskafjörð yfir í Skálanes og um leið orkuver sem framleiddi allt að 80 megawött eins og forkönnun á aflinu í firðinum gefur til kynna. Þetta fyrirkomulag er þekkt í Frakklandi. Það er víða rætt um sjávarfallavirkjanir, m.a. í Hvammsfirði en þar er komið rannsóknarleyfi,“ segir Björn. -GG Quote1: Það er ekki sæmandi að fólk þurfi að lifa í einangrun á þessu svæði árið 2014. Fólk sem býr í Gufudalssveitinni sækir í vaxandi mæli vinnu frá heimilum sínum til Reykhóla og skólabörnin eru keyrð tvisvar á dag yfir vetrarmánuðina til Reykhóla.“ – Björn Samúelsson, vélstjóri Quote2: Það er raforkuskortur á Vestfjörðum sem er háalvarlegt mál. Það varð m.a. að loka í vetur sundlaugunum á Hólmavík og Þingeyri vegna þess að það var ekki til umframorka hjá Landsvirkjun sem táknar einfaldlega það að skerða verður þjónustuna við fólkið hérna.“ – Björn Samúelsson, vélstjóri