Elsta veiðistöð landsins

Elsta veiðistöð landsins

Bolungarvík er falinn fjársjóður

Bolungarvík er vík nyrst við sunnanvert Ísafjarðardjúp. Þar er mikið útræði og er Víkin með elstu veiðstöðvum landsins. Hún er umkringd háum fjöllum og bröttum fjallshlíðum og segja má að greiðfærasta leiðin hafi verið sjórinn en með tilkomu Bolungarvíkurgangna hefur orðið mikil breyting þar á. Byggðin byggir að mestu leyti á fiskveiðum, fiskvinnslu og tengdri þjónustu.

bolungavik oddur jonssonDSC_000901bFyrstu helgina í júní halda Bolvíkingar upp á sjómannadaginn með hefðbundnum hátíðarhöldum eins og kappróðri, koddaslag og Þuríðarsundi sem er sérstök útfærsla á stakkasundi. Þá klæða sjómennirnir konur sínar í sjóföt og þær keppa í sundi. Einnig halda Bolvíkingar upp á 17. júní með hefðbundnum hætti þar sem fjallkonan fer með ljóð og nýstúdent flytur hátíðarræðu. Fyrstu helgina í júlí er komið að markaðshelginni sem er einstök fjölskylduhátíð með markaðstorgi, tónlistaratriðum og leiktækjum fyrir krakka á öllum aldri. Þá er bænum skipt upp í rauð og blá hverfi og íbúarnir etja kappi saman í skreytingum og uppákomum sem endar með sameiginlegri skrúðgöngu og brekkusöng við varðeld. Daginn eftir er svo haldin hin eiginlega hátíð með markaði og skemmtun. Ástarvikan í Bolungarvík  var haldin í fyrsta sinn árið 2004. Meginmarkmið ástarviku er að unnendur og elskendur njóti samverunnar samfélaginu til heilla.

Sundlaug Bolungarvíkur er afar vinsæl meðal íbúanna og ekki síður nágranna þeirra. Sjálf sundlaugin er innilaug, 8 x 16,66 metrar, en í sundlaugargarðinum eru tveir heitir pottar, annar 41°C heitur og hinn 39°C heitur með vatnsnuddi, auk þess er í garðinum lítil upphituð vaðlaug og vatnsrennibraut. Við sundlaugina er einnig íþróttasalur og vel búinn þreksalur. Á virkum dögum opnar laugin kl. 06:15 yfir sumartímann.

Við sundlaugina, á bökkum Hólsár, er tjaldsvæði með fyrirmyndar salernis- og snyrtiaðstöðu, þvotta- og þurrkaðstöðu. Gestir tjaldsvæðisins geta einnig nýtt salerni og snyrtingu sundlaugarinnar á opnunartímum auk þess að boðið er upp á rafmagn og aðra þjónustu á tjaldsvæði.

Syðridalsvöllur er 18 holu golfvöllur sem laðar stöðugt fleiri golf-áhugamenn að vegna fjölbreytts landslags vallarins. Í vallarhúsi hittast golfarar, spjalla og drekka kaffi milli hringja. Margir Bolvíkingar eru mættir í golf fimm mínútum eftir að vinnu lýkur.

Félagsheimili Bolungarvíkur er helsti samkomustaður Bolvíkinga. Félagsheimilið var vígt árið 1952 og hefur upp á að bjóða Steinway flygil, einn sá besta á landinu. Þar eru hin landsfrægu þorrablót bolvískra kvenna haldin, en bolvískar konur bjóða körlum sínum til veislu með alíslenskum mat úr trogum og flytja kabarett um bæjarlífið sem beðið er í ofvæni á hverju ári, sveitaböll, tónleikar, bingó og fleira fer fram í félagsheimilinu. Nýlega var það endurnýjað og stækkað og er í dag eitt glæsilegasta hús á Vestfjörðum og tilvalið fyrir ráðstefnur og fundi.

Hólskirkja stendur á fallegum stað þar sem sést til hennar allsstaðar að úr bænum. Núverandi kirkja er teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni og var vígð árið 1908. Kirkjan er í gamla stílnum og er afar falleg. Hólskirkja er sérstök að því leyti að predikunarstóllinn er yfir altarinu.

Í Náttúrugripasafni Bolungarvíkur gefur að líta mikið safn af uppstoppuðum fuglum, minka, tófur, fiska og blöðrusel. Auk þess er þar merkt steinastafn Steins Emilssonar. Þá er á safninu víðfrægur ísbjörn.

Sjóminjasafnið Ósvör er gamalt endurbyggt útræði. Þar er minjasafn um árábátatímabilið er stóð frá landnámi rétt fram yfir aldamótin. Safnið samanstendur af þremur húsum byggðum á gömlum tóftarbrotum, verbúð, salthúsi, fiskreit og hjalli. Í Ósvör er sexæringur sem Ölver heitir, gangspil og opinn hjallur. Stór steinn er framarlega í vörinni er Vararkollur heitir. Á fyrri tíð var Ósvör þrautarlending, þegar ekki var lendandi á Bolungarvíkurmölum.

Grasagarðar Vestfjarða í Bolungarvík varðveita íslenskar plöntutegundir og þá sérstaklega vestfirskar. Lífríki er breytilegt á Vestfjörðum vegna veðurfræðilegra aðstæðna og erfðafræðilegur breytileiki getur verið mikill. Þess vegna er ástæða til að varðaveita mismunandi kvæmi af sömu plöntunum frá ýmsum stöðum. Sett er upp sýning sem miðlar þekkingu á sérstöðu vestfirsks gróðurfars og auðveldar fólki að kynna sér þær plöntur sem eru á Vestfjörðum.

Náttúran er stórbrotin í Víkinni, rétt eins og fólkið, og yfir byggðinni gnæfir Bolafjall sem er 600 metra hátt. Þangað liggur brattur akvegur sem er opinn bílum í júlí og ágúst. Ofan á Bolafjalli er rennislétt hrjóstrug háslétta og er þar útsýni til allra átta.