Fjölsótt Barnamenningarhátíð

Fjölsótt Barnamenningarhátíð
Barnamenningarhátíð lauk á sunnudaginn og hefur hún sjaldan tekist eins vel.

Alls voru sendir 20.000 bæklingar til grunn- og leikskólabarna í Reykjavík með dagskrá hátíðarinnar og sóttu þau og fjölskyldur þeirra afar vel þá yfir 150 viðburði sem voru í boði meðan á hátíðinni stóð.

Alls mættu yfir 4.000 manns á opnunarhátíðina í Hörpu þriðjudaginn 25. apríl og eftir það tóku við viðburðir um alla borg. Fjölmargir mættu á reiðsýninguna Æskan og hesturinn í Víðdal þar sem þúsund börn og unglingar voru með sýningu.

Mikil dagskrá var á flestum menningarstofnunum í borginni og þá var Ævintýrahöll var sett upp í Ráðhúsinu síðustu helgi þar sem boðið var uppá 25 viðburði, eins og fjölskyldujóga, nýja barnaóperu, sögustundir með skáldum, listsmiðjur, sirkussýningar og krakkajazz. Barnamenningarhátíð lauk síðan í Ráðhúsinu á sunnudaginn með allsherjar dansveislu þar sem um 600 börn og fjölskyldur þeirra fögnuðu hátíðarlokum með glæsibrag. Alls mættu allt að 4.000 manns á viðburðina í Ráðhúsinu um helgina.

Þetta er í sjöunda skipti sem hátíðin fer fram í borginni og greinilegt að hún er búin að festa sig í sessi í hugum og hjörtum borgarbúa.
Nánari upplýsingar veitir: Berghildur Erla Bernharðsdóttir kynningarstjóri Höfuðborgarstofu í síma 694-5149.