Frá miðnætursól til norðurljósa

Frá miðnætursól til norðurljósa
Við þjóðveginn, miðja vegu milli Reykjavíkur og Húsavíkur, eru Glaðheimar, sumarhús og tjaldstæði á Blönduósi. Nítján hús sem eru leigð út allan ársins hring, vegna þess að Blönduós og nærsveitir hafa upp á endalausa möguleika að bjóða fyrir þá sem hafa gaman af að ferðast. Húsin eru misstór og í þeim geta dvalið allt frá þremur og upp í níu gestir. Heitir pottar eru við allflest húsin og við sum þeirra saunaklefar. Húsin eru leigð út eins og svefnpokagisting, en hægt er að fá rúmföt og sængurver fyrir aukagjald. Einnig er ætlast til að gestir þrífi húsin sjálfir að dvöl lokinni, en það er auðvitað hægt að kaupa sig frá því. Öll efni til þrifa eru þó í húsunum.
Þótt Glaðheimar standi við þjóðveginn er svæðið niðri í kvos á bökkum Blöndu og þar ríkir alltaf kyrrð. „En þú getur varla verið meira miðsvæðis,“ segir Lárus….. sem rekur svæðið og bætir við: „Það er stutt í allt, hvort sem það er verslun, söfn, sund eða veitingastaðir og hér á Blönduósi er mikið af áhugaverðum söfnum.“
IMG_2673Það er nokkuð um að fólk taki hús á leigu hjá okkur í viku og keyri síðan út frá staðnum. Það er alltaf hægt að skoða eitthvað nýtt. Einn daginn er hægt að taka Ólafsfjarðar-Siglufjarðarhringinn, næsta dag fyrir Skagann og út í Drangey. Síðan hægt að fara fyrir Vatnsnesið og skoða seli, inn í Víðidal og Kolugljúfur. Það er líka vinsælt að taka hringinn í Vatnsdalnum. Þar er ákaflega fallegt og  hægt að skoða marga fossa.  Héðan er líka stutt inn á Hveravelli. Síðan er hægt að eyða degi hér á Blönduósi, skoða söfn og fara í sund. Hér við Glaðheima erum við með mikla perlu sem er Hrútey. Þar er mikið fullalíf og geysigaman að ganga þar um. Út frá Blönduósi er mikið um flottar gönguleiðir, þannig að við höfum eitthvað fyrir alla. Svo eru það síðast en ekki síst laxveiðiárnar og silungavötn sem eru mikil afþreying en það hefur færst töluvert í aukana að laxveiðimenn sem vilja vera út af fyrir sig, dvelji hjá okkur.
Á haustin kemur mikið af fólki hingað til að vera í kinda- og hestaréttum og til að taka þátt í hestasmölun sem er að verða afar vinsælt haustsport. Við byrjum líka að sjá norðurljósin hér í ágúst/september og þá flykkist mikið af útlendingum hingað til okkar. Á svipuðum tíma mæta gæsaveiðimennirnir og eru hjá okkur fram eftir hausti. Í seinni hluta október taka rjúpnaveiðar við og eftir það er kominn  vetur. Fólk sækir mikið í skíðasvæðið í Tindastóli og nýtir sér gistinguna hjá okkur mjög mikið. Einnig er fjölbreytnin í fjallaferðum mikil hér, hvort sem er á jeppum eða snjósleðum – hreinræktaðar ævintýraferðir. Enn eitt vetrarsportið sem er að færast í aukana er að menn fara í skothús að skjóta tófur með leiðsögn. Þannig að það er alltaf nóg að vera hér allan ársins hring og þá er kostur að geta gist í hlýju smáhýsi þar sem hægt er að láta líða úr sér í heitum potti eða gufu.“
[email protected]