Fyrsti landnemi Íslands

Fyrsti landnemi Íslands

Heimskautarefurinn er heillandi skepna. Í lok síðustu ísaldar ferðaðist hann yfr frosið hafið og fann sér griðarstað hér á þessari hrjóstrugu eyju á hjara veraldar. Heimskautarefurinn er eina infædda íslenska landspendýrið og fyrir þær sakir hefur hann verið löngum verið rannsóknar- og áhugaefni leikra jafnt sem lærðra. Árið 2010 opnaði sérstakt rannsóknarsetur á Súðavík tileinkað refnum. Staðsetningin er vel við hæfi enda er refurinn einkennisdýr svæðisins.

9 (2)Einstök sýning á friðsælum stað.
    Melrakkasetur er til húsa í 120 ára gömlu býli, elsta húsi Súðavíkur, sem bæjaryfirvöld ákváðu að gera upp til að styrkja verkefnið. Húsið er ákaflega fallega staðsett á milli þess sem bæjarbúar kalla „gamla“ bæinn og vísar til byggðarinnar sem varð undir í flóðinu 1995 og „nýja“ bæjarins sem reis í kjölfarið. Setrið er bæði fræða- og menningarsetur og heldur úti umfangsmikilli sýningu tileinkaðri heimskautarefnum en sýnir jafnframt list og handverk eftir listamenn frá svæðinu. Meginhlutverk Setursins er að safna og varðveita hvaðeina markvert tengt refnum og aldagömlu sambandi hans við manninn en jafn ótrúlega og það hljómar eru refaveiðar elsta launaða starf á Íslandi.
   23 Sýningin skiptist í þrjá hluta; líffræði refsins, refaveiðar fyrr og nú og veiðimenn, þar sem má meðal annars lesa persónulegar frásagnir veiðimanna og líta ýmsan búnað tengdan veiðunum. Öðru efni er miðlað í gegnum texta og myndskeið en auk þess er töluvert af uppstoppuðum dýrum til sýnis. Gestir fá leiðsögn um sýninguna sem er sú eina sinnar tegundar á Íslandi og er opin allan ársins hring. Setrið er fyrst og fremst vettvangur rannsókna og fræða og hefur sem slíkt til að mynda eftirlit með stærð refastofnsins en býður auk þess uppá sérstakar refaskoðunarferðir í samvinnu við ákveðnar ferðaskrifstofur. Auk þess starfar setrið í anda umhverfisvænnrar ferðamennsku og fylgist með áhrifum ferðamanna á refastofninn og umhverfi hans.
10 (2)    Setrið rekur lítið notalegt kaffihús, Rebbakaffi, þar sem boðið er uppá heimabakað bakkelsi og létta rétti. Á góðum degi er tilvalið að fá sér sæti úti á verönd með kaffibolla og njóta útsýnisins til fjalla og sjávar. Rebbakaffi býður gestum ókeypis internetaðgang og á föstudagskvöldum myndast gjarnan skemmtileg stemming á efri hæðinni þar sem lifandi tónlist er leikin. Á laugardögum í sumar verður svo brúðuleikhús fyrir yngstu gestina þar sem þekktir refir troða upp og skemmta og fræða.
13 (2)
Melrakkasetur

Eyrardalsbæ
420 Súðavík
melrakki.is
[email protected]
Sími: 8628219/4564922

Text: Hrafnhildur Þórhallsdóttir