Hannes Kr. Davíðsson – Fyrirlestur um arkitekt

Fyrirlestur um arkitekt Kjarvalsstaða
Laugardag 11. febrúar kl. 14.00 á Kjarvalsstöðum

Hús fyrir list – byggingarlist Kjarvalsstaða

Pétur H. Ármannsson arkitekt flytur fyrirlestur um höfund byggingarinnar, arkitektinn Hannes Kr. Davíðsson (1916-1995).

Á næstu vikum beinum við athyglinni að byggingarlist Kjarvalsstaða, húsi sem hefur hýst myndlist frá árinu 1973. Í fyrirlestrum og leiðsögnum er sjónum beint að byggingunni, sögu hennar og forsendum.

Kjarvalsstaðir eru eitt fyrsta húsið sem hannað var sérstaklega fyrir myndlist hér á landi. Húsið er byggingarlistarlegt undur sem ástæða er til að gefa gaum. Ekki hefur alltaf ríkt friður um hönnun þess og hafa viðhorf manna mótast af tíðaranda hverju sinni. Ýmsar spurningar vakna um það hvernig samband listaverka og umgjarðar mótast bæði rýmislegar kröfur og ekki síður hugmyndalegt samband. Hvað þarf til að gera verkum hvers tíma skil? Hvernig er samband rýmis og verka?

Til að byggingarlist Kjarvalsstaða fá notið sín er vestursalur hússins nánast tómur og aðeins byggingarlistin sýnd. Undur rýmisins verða afhjúpuð bæði með myndum sem sýna hulin rými en einnig með módelum af húsinu.

Hannes Kr. Davíðsson fæddist í Reykjavík árið 1916. Að loknu sveinsprófi í múrsmíði árið 1938 nam hann byggingariðnfræði í Álaborg og arkitektúr í Kaupmannahöfn. Eftir lokapróf frá Kunstakademiets Arkitektskole árið 1945 fluttist Hannes til Reykjavíkur og starfaði um skeið á teiknistofu Húsameistara ríkisins. Árið 1951 stofnaði hann eigin teiknistofu sem hann rak til dánardags árið 1995. Meðal helstu verka má nefna Kjarvalsstaði, hús tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum, hús Gunnars Gunnarssonar rithöfundar á Dyngjuvegi 8, Bjarnarneskirkju í Nesjum og verslunarhús við Laugaveg 18B og 26. Hannes var forseti Bandalags íslenskra listamanna frá 1967-75, formaður Arkitektafélags Íslands 1952-54 og einn stofnenda Ljóstæknifélags Íslands.

Hannes var í orði og verki brautryðjandi nýrra viðhorfa í íslenskri byggingarlist á eftirstríðsárunum og kom fyrstur fram með hugmyndir og áherslur sem höfðu mótandi áhrif á þróun húsagerðar á 6. og 7. áratug 20. aldar. Hann beitti sér mjög í faglegum málefnum arkitekta og tók alla tíð virkan þátt í opinberri umræðu um skipulags- og byggingarmál.

Kjarvalsstaðir eru á Klambratúni þar sem mætast Hlíðar, Rauðará og Norðurmýri – þrjú þéttbyggð, lágreist og heilsteypt íbúðarhverfi frá miðbiki 20.aldarinnar þegar Reykjavík var í örum vexti. Staðsetning Kjarvalsstaða yst til norðurs á túninu tekur mið af heildarmynd garðs og byggingar, þar sem byggingin ber yfirbragð fínlegs listaskála. Skálinn er byggður upp af tveimur álmum sem tengjast um húsagarð með grannri miðálmu. Hann er tiltölulega lokaður til norðurs að götunni en opnast mót suðri að sólarbirtu og gróðursælum garðinum.

Hannes Kr. Davíðsson arkitekt hússins var við hönnun þess undir áhrifum af japönskum innblæstri í norrænan módernisma, þar sem áhersla var lögð á ómeðhöndluð náttúruefni bygginga ásamt léttleika og einföldun allra drátta. Léttleika Kjarvalsstaða má lesa af burðarvirki hússins þar sem grannar súlur bera uppi lárétt, koparklætt þakið. Þetta gefur svigrúm til frelsis í útfærslu veggja þar sem þeir gegna engu hlutverki í burði þaksins

Margvísleg smáatriði og frágangur undirstrika fínleika hússins, eins og láréttir gluggaborðar sem ber undir brún þaks efst á útveggjunum eða súlur sem standa skáhallt í gegnum loftglugga úr gleri inni í húsinu. Hannes Kr. vann gjarnan með nýjungar í notkun byggingarefna og á Kjarvalsstöðum má meðal annars sjá veggi úr ómeðhöndlaðri steypu, öðru nafni sjónsteypu, þar sem æðateikning mótatimbursins verður sýnileg í áferð veggjanna, ásamt útveggjaklæðningu í corten-stáli, þykkum stálplötum sem hafa verið látnar ryðga upp að ákveðnu marki. Þessi efnisnotkun ljáir steypunni efniskennda áferð og hlýleika, og gróft yfirborð ryðstálsins bregst við sterku sólarljósi eins og með sterkri glóð.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.