Icelandic Times nemur land í Kína

 

_DSC3120

Kínverski sendiherrann heimsótti nýverið ritstjórnarskrifstofur Icelandic Times og lýsti yfir ánægju með kínversku útgáfu Icelandic Times.

ragnar Finnborgason3cdc2d2
Ragnar Finnbogason

Icelandic Times hefur um árabil gefið út ferðatímaritið Icelandic Times á ensku en franskar og þýskar útgáfur ritsins, sem eru heilsársútgáfur, verða nú gefnar út fjórða árið í röð. Nýjasta afurðin innan tímaritaflokksins er kínversk útgáfa sem óhætt er að segja að hafi vakið talsverða athygli, bæði á Íslandi og í Kína.

Fyrsta útgáfan kom út í nóvember á síðasta ári og varð að umfjöllunarefni einnar stærstu fréttaveitu Kína, Xinhua News Agency. Umfjöllunin rataði á alla helstu miðla samsteypunnar en fréttastofan, sem er í ríkiseigu og er ein af þremur stærstu fréttastöðvum Kína, rekur meðal annars sjónvarpsstöðvarnar CNC China og CNC World sem sjónvarpa á ensku og kínversku í yfir 120 löndum. Sömuleiðis rekur fréttastofan margar af öflugustu veffréttaveitum þar í landi.

sendiherrann_kina_icelancictimesZhang Widong, kínverski sendiherrann á Íslandi

Samstarf við kínverskar fréttaveitur

Icelandic Times hyggst gefa út annað tölublað kínverska tímaritsins í mars næst komandi. Efni þess er alfarið unnið hér á landi en svo þýtt og staðfært af kínverskumælandi sérfræðingum innan vébanda Icelandic Times. Tímaritið er skrifað á mandarin kínversku sem er opinbert mál í Kína.

,,Ljóst er að mikill áhugi er fyrir útgáfunni í Kína. Þar er auðvitað um gríðarlega stóran markað að ræða og miklir möguleikar sem þar fyrirfinnast. Þá er samstarfið við kínverskar fréttaveitur spennandi og býður upp á ótrúleg tækifæri. Við höfum eiginlega verið mjög undrandi, en að sama skapi ánægð með að sjá hve mikla útbreiðslu þetta efni okkar frá Íslandi hefur fengið. Það eru ekki bara kínverskir sjónvarpsáhorfendur sem sjá þetta heldur hafa komið mikil viðbrögð frá Bandaríkjunum, Afríku og víðar að úr heiminum.

Sjónvarpsstöðin CNC World sendir út fréttir á ensku til yfir 120 landa þannig að efnið er aðgengilegt fyrir gríðarlegan fjölda fólks um allan heim,” segir Ragnar Finnbogason, sviðsstjóri erlendra samskipta hjá Icelandic Times, en hann bjó í tæpan áratug í Kína og þekkir vel til lands og þjóðar.
icelandictimes_sendiradid Han Li, Kínverska viðskiptaskrifstofan. Svava Jónsdóttir, blaðamaður. Edda Snorradóttir, Icelandic Times og Xiaonan Huang frá CNC sjónvarpstöðinni

Vefútgáfa Icelandic Times vinsæl

Næsta útgáfa Icelandic Times á kínversku verður prentuð í Kína og eingöngu dreift þar í landi, m.a. til ferðaskrifstofa, á ferða- og viðskiptaráðstefnum og til fjölda aðila innan kínverska viðskiptalífsins. Tímaritinu verður einnig dreift til kínverskra fyrirtækja í orkuiðnaði, á verkfræðistofur auk þess sem það fer á iðnaðartengdar ráðstefnur.
Samhliða prentútgáfunni var kínversk útgáfa vefmiðilsins jafnframt sett á lénið www.icelandictimes.cn. Kínverska vefútgáfan er nú þegar önnur mest sótta vefsíða Icelandic Times á eftir þeirri ensku.
Markmiðið með útgáfunni er að auka vitund Kínverja um Ísland og  styrkja ímynd landsins gagnvart ferðaþjónustunni sem og viðskiptalífinu. Lögð er áhersla á viðskipti og nýsköpun í blaðinu til að liðka enn frekar fyrir viðskiptum á milli þjóðanna í kjölfar nýlegs fríverslunarsamnings á milli þjóðanna. Samningurinn er fyrsti fríverslunarsamningurinn sem Kína gerir við Evrópuríki. Útgáfa Icelandic Times stuðlar að aukinni landkynningu á Íslandi og færir íslenskum fyrirtækjum, bæði innan ferðaþjónustgeirans sem og víðar í viðskiptalífinu, aukin tækifæri til að vekja athygli á sér og þeirri þjónustu sem þau hafa upp á að bjóða.

Mikill áhugi meðal Kínverja á Íslandi

Mikill áhugi er meðal Kínverja á Íslandi og norðurslóðum, að sögn Zhang Widong, kínverska sendiherrans á Íslandi.
Þess má geta að um helmings aukning var á komum kínverskra ferðamanna til Íslands á síðasta ári miðað við árið á undan og allt bendir til þess að ferðalögum Kínverja hingað til lands muni halda áfram að fjölga. Kínverskir fjárfestar hafa einnig sýnt Íslandi aukinn áhuga að undanförnu og virðist sá áhugi gagnkvæmur þar sem íslensk fyrirtæki hafa í auknum mæli lagt út í markaðssetningu í Kína.

Í frétt Xinhua News Agency, þar sem fjallað var um útgáfu Icelandic Times, var rætt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um vináttu Kína og Íslands og þá möguleika sem felast í samvinnu þjóðanna. „Kína er á margan hátt land framtíðarinnar. Land í vexti á mörgum sviðum. Kínverjar hafa sýnt Íslandi áhuga og við erum svo sannarlega áhugasöm um Kína. Allt sem eykur samvinnu milli landanna er af hinu góða,“ segir Sigmundur Davíð í viðtalinu.
Þá er haft eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, ráðherra ferðamála, að hún sé ánægð með fjölgun ferðamanna frá Kína og hún vilji sjá þeim fjölga enn frekar. Íslensk ferðamálasamtök hafi staðið fyrir markaðskynningum í nokkrum borgum Kína. Þá sé íslensk ferðaþjónusta að búa sig undir mikla fjölgun ferðmanna með styrkingu innviða ferðaþjónustunnar á Íslandi.

Íslensk sérviska vekur athygli í Kína

„Það er alveg ljóst að hið góða samstarf á milli Icelandic Times og kínverskra fjölmiðla er af hinu góða fyrir íslensk fyrirtæki og almenning,“ segir Ragnar. Hann bendir á að ýmislegt rati í brennidepil hið ytra og nefnir sem dæmi að hið séríslenska Þorrablót hafi nýlega verið tekið til umfjöllunar á öllum miðlum Xinhua. „Við Íslendingar höfum mikið að bjóða hvort sem um ræðir menningu okkar, náttúru eða hugvit íslenskra fyrirtækja. Það er alveg ljóst að við eigum fullt erindi í samvinnu við erlenda aðila innan landssteinanna sem utan,“ bætir Ragnar við.
iceland kina icelandic times

Einstakt tækifæri á stórum markaðssvæðum

Icelandic Times er með fjölda spennandi verkefna í farvatninu og meðal annars stendur til að gera fréttaþætti um orkumál, ferðamál og menningu í samvinnu við kínversku fréttaveituna.
,,Við getum þjónað mjög fjölbreyttum markaði með markaðs- og kynningarefni frá Íslandi á prentmiðlum, netmiðlum og í sjónvarpi. Við bjóðum upp á vettvang fyrir íslensk fyrirtæki til að kynna sig og þjónustu þeirra, í Kína og um allan heim.  Þetta er í raun einstakt tækifæri á evrópskan mælikvarða.
Með því að bjóða upp á reglulegan fréttaflutning í nánu samstarfi við kínversku fréttaveiturnar erum við að ná áhorfi hundruða milljóna manna um allan heim. Það er varla hægt að hugsa sér sterkara markaðstæki á þessum stóru markaðssvæðum og það er um að gera fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir að nýta sér það,” segir Ragnar ennfremur.