Listasafn Reykjavíkur

Listasafn Reykjavíkur

Verk meistara og samtímalistamanna

Listasafn Reykjavíkur er staðsett í þremur húsum; í Hafnarhúsinu, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni.
„Í Hafnarhúsinu eru alltaf sýnd verk eftir Erró,“ segir Áslaug Guðrúnardóttir, kynningar- og markaðsstjóri Listasafns Reykjavíkur, og bætir við að Hafnarhúsið sé tileinkað samtímalist. „Erró gaf safninu mörg verk á sínum tíma og er hægt að ganga að því vísu að sýnd séu verk eftir hann.“ erro_battleofkyoto_hq
Sex sýningarsalir eru í húsinu og eru alltaf í gangi sýningar eftir aðra listamenn, bæði innlenda og erlenda. Í Hafnarhúsinu er t.d. lítill salur, D-salur, þar sem haldnar eru sýningar á verkum upprennandi listamanna. „Þetta er yfirleitt ungt fólk sem hefur ekki áður sýnt verk sín í opinberu safni.“hafnarhus-026
Búið er að opna þrjár nýjar sýningar í Hafnarhúsinu þar sem áhersla er lögð á stríð og frið. Sýningin á verkum Errós sem nú stendur yfir kallast Stríð og friður og var safnað saman málverkum eftir hann með þær áherslur.
„Við opnuðum í lok september sýningu eftir írska listamanninn Richard Mosse, The Enclave, sem hefur fengið íslenska nafnið Hólmlendan og er um að ræða myndbandsverk og ljósmyndir teknar í Austur-Kongó. Mosse og samstarfsmenn hans tóku myndbönd af fólki á stríðshrjáðum svæðum með sérstakri linsu sem breytir grænum lit í bleikan.“ Verkið var fyrst sýnt á Feneyjatvíæringnum árið 2013.
Þá stendur einnig yfir í Hafnarhúsinu sýning á verkum Yoko Ono sem þykir vera leiðandi myndlistarmaður á sviði tilrauna og framúrstefnu. Sýningunni, sem kallast Ein saga enn…, er ætlað að varpa ljósi á grunnþætti í yfirgripsmiklum og fjölbreyttum listaferli listakonunnar sem að sögn Áslaugar hefur mikið fjallað um stríð, frið og ástina. listasaf-reykjavikur-icelandic-timesclickkjarvak-listasafn-reukjavikurclick

Vistkerfi lita
Kjarvalsstaðir er fyrsta byggingin á Íslandi sérstaklega hönnuð undir myndlistarsýningar. Þar er lögð áhersla á sýningar á verkum Jóhannesar S. Kjarvals en einnig eru sýnd þar verk eftir aðra listamenn. Tveir sýningarsalir eru í safninu. Í öðrum þeirra má sjá klassísk verk eftir Kjarval en í hinum stendur yfir sýning á verkum Hildar Bjarnadóttur textíllistamanns, Vistkerfi lita. „Segja má að á sýningunni sé náttúran eiginlega komin upp á vegg eða hangi úr loftinu. Hildur litar efnivið sinn með náttúrulitum – verkin á sýningunni eru náttúran í striga eða á silkiklútum.“asmundarsafn_hq
Ásmundarsafn var heimili og vinnustofa Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara og teiknaði hann og byggði húsið að mestu leyti sjálfur. „Þar eru alltaf verk eftir hann til sýnis, bæði inni í húsinu og í garðinum fyrir utan, og undanfarin ár hefur verkum hans verið teflt á móti verkum annarra listamanna.“ Nú stendur yfir sýning á verkum Ásmundar og Þorvaldar Skúlasonar og er um að ræða samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Háskóla Íslands.