LÚXUSHÓTEL OG BAÐLÓN

LÚXUSHÓTEL OG BAÐLÓN

Arkitektar hjá Zeppelin eru að vinna að frumhönnun lúxushótels á Efri-Reykjum í Biskupstungum en nokkrir aðilar stofnuðu þróunarfélag á sínum tíma vegna þessa. Skipulagsferlinu er að ljúka og unnið er að fjármögnun verkefnisins.
„Svæðið er á Gullna hringnum, við Brúará sem er ein af fallegustu bergvatnsám landsins.“ segir Orri. „Þar er meiningin að byggja allt að 200 herbergja hótel og baðlón sem snúa munu út að Brúará til vesturs.“


Orri bendir á að landið í kring einkennist af flatlendi sem upp af rísi fjöll og eyjar. „Það sem við sáum fyrir okkur að gæti verið skemmtilegt væri að hanna hótel sem minnti á hæð sem risi upp úr landinu og myndaði skjól fyrir vindum. Baðlónin yrðu þá í skjóli hlíðarinnar, eins og tjarnir undir fjallshlíð. Þak byggingarinnar yrði grætt með þeim gróðri sem fyrir er á svæðinu og útveggir yrðu viðarklæddir og þannig má sjá vísan í gömlu torfbæina þótt með öðru og nútímalegra sniði sé.


Hótelið yrði á viðkvæmu svæði – svæðið er á náttúruminjaskrá og það þarf að fara mildum höndum um landið. Sá jarðvegur sem yrði tekinn upp vegna framkvæmda yrði meðal annars nýttur í að endurgera árbakkann sem búið er að eyðileggja meðal annars með námugreftri. Þá myndi jarðvegurinn að hluta til vera settur á þak byggingarinnar.“