NÝR ÞJÓÐARLEIKVANGUR Í VATNSMÝRINNI

Eitt öflugasta fasteignafélag landsins bað Zeppelin arkitekta að vinna tillögu að nýjum þjóðarleikvangi og skyldi horft til Snæfellsjökuls sem fyrirmynd. „Byggingin rís upp úr landinu eins og jökull/eldfjall. Ytra byrði hennar minnir á hlíðar jökulsins, gljáandi og sprunginn, en innra byrði, gígurinn, ber þess merki að einu sinni hafi jökullinn verið virkt eldfjall og er kannski enn. Ofan í gígnum verður gróðurvin (grænn fótboltavöllur). Leikið er með andstæðurnar eld og ís og náttúru í klakaböndum og gróðurvin í ískaldri umgjörð, eins og t.d. í Hvannalindium þar sem Eyvindur og Halla dvöldu við ágætt atlæti, jafnvel yfir hörðustu vetrarmánuðina.

Íslenski fáninn gægist fram, í samspili byggingar og áhorfendapalla. Gígurinn er fóðraður að innan með íslenska fánanum. Til gamans má heimfæra hugmyndina um sköpun heimsins upp á leikvanginn, jökulinn/eldfjallið. Leikvangurinn táknar ísinn í Ginnungargapinu, hrímsteinana sem héldu íslenska landsliðinu í heljargreipum, en sem með réttu atlæti hefur verið leyst úr ísnum og hefur nú styrk til að sigra ofur öflugan andstæðinginn Ými. Hér táknar Ýmir andstæðinga landsliðsins (yfirleitt landslið miklu stærri þjóða). Sennilegast hefðu menn gaman af slíkri tengingu eins og merkja má á hyllingu okkar á landsliðinu með víkingaklappi og kannski myndi þetta vekja áhuga á goðafræðinni og fornsögu okkar.“

https://www.youtube.com/watch?v=fGJfLnAxJvo