Ráðstefna Arctic Circle í Edinborg

Ráðstefna Arctic Circle í Edinborg
Skotland og Norðurslóðir: Ný samvinna

Í morgun, mánudaginn 20. nóvember 2017, hófst í Edinborg ráðstefna um þátttöku Skotlands í þróun Norðurslóða. Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle heldur ráðstefnuna í samvinnu við ríkisstjórn Skotlands. Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skotlands, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands og Paul Michelsen utanríkisráðherra Færeyja fluttu ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni formanni Arctic Circle ræður við opnun ráðstefnunnar.
 Markmið ráðstefnunnar er að ræða aukna samvinnu Skotlands og vestnorrænu ríkjanna Íslands, Færeyja og Grænlands með sérstöku tilliti til vaxandi mikilvægis Norðurslóða á heimsvísu. Sérstakar umræður verða um þróun slíkrar samvinnu.
 Á ráðstefnunni sem á ensku ber heitið “Scotland and the New North” verður m.a. fjallað um flugsamgöngur og vöruflutninga á sjó, sjávarauðlindir og nýtingu hafsins, vöxt ferðaþjónustu, loftslagsbreytingar, orkumál, vísindarannsóknir og málefni ungs fólks.
 Meðal ræðumanna í Skotlandi eru Íslendingarnir Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskips, Helgi Már Björgvinsson frá Icelandair Group, Björn Óli Hauksson forstjóri ISAVIA, Gísli Hauksson stjórnarformaður og forstjóri Gamma London, Hafsteinn Helgason framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Eflu verkfræðistofu, Dr. Guðmundur J. Óskarson frá Hafrannsóknarstofnun, Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og Höskuldur Þórhallsson formaður vinnuhóps Norrænnu ráðherranefndarinnar um vestnorræna þróun.
Ráðstefnuna, sem stendur í dag og á morgun, sækja um 300 þátttakendur og er hún haldin í beinu framhaldi af þingi Arctic Circle sem haldið var í Reykjavík í síðasta mánuði. Ráðstefnan er sú sjötta í röð sérhæfðra ráðstefna, svonefndra Arctic Circle Forums sem Hringborð Norðurslóða hefur efnt til í öðrum löndum. Fyrri ráðstefnur voru í Alaska, Singapúr, Grænlandi, Quebec og Washington DC.

 Dagskrá ráðstefnunnar í Skotlandi má nálgast á vefsíðu Arctic Circle, www.ArcticCircle.org

See video here
 Nánari upplýsingar veitir Dagfinnur Sveinbjörnsson forstjóri Arctic Circle; [email protected] s. 896 0465

Scotland and the New North