Reykjanes er hluti af einstöku netverki UNESCO jarðvanga

„Það er búið að ganga vel í sumar. Bæði gististaðir og afþreyingarfyrirtæki láta vel af sér. Það hefur verið aukning á flestum stöðum og fólk sem starfar innan greinarinnar hér fer inn í veturinn með jákvæðum huga,“ segir Þuríður Halldóra Aradóttir. Hún veitir Markaðsstofu Reykjaness forstöðu. Starfssvæði Markaðsstofu Reykjaness nær yfir Reykjanesskagann. „Það er nú svo að þrátt fyrir að bæði Keflavíkurflugvöllur og Bláa lónið séu á Reykjanesskaga þá erum við að vissu leyti frekar nýr áfangastaður fyrir ferðamenn sem koma hingað til lands. Reykjanes hefur þó upp á margt einstakt að bjóða.“

arnavatn_oa-reykjanes
Arnarvatn á Reykjanes Ljósmynd: OA

Jarðvangsvottun UNESCO
Markviss vinna við að byggja upp ímynd Reykjaness sem ferðamannaperlu er farin að skila góðum árangri. „Fólk er nú farið að stoppa hér lengur og skoða sig um. Samhliða því hefur orðið uppbygging á áfangastöðum í tengslum við það að Reykjanes hlaut í nóvember á síðasta ári vottun UNESCO – Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem alþjóðlegur jarðvangur eða svonefndur Global Geopark,“ segir Þuríður. Þetta þýðir að Reykjanes jarðvangur er nú aðili að UNESCO jarðvangsáætluninni UNESCO Global Geoparks. Þetta felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að Reykjanes búi yfir einstökum jarðminjum, landslagi og menningu.
Jarðvangar UNESCO eru samstarfsverkefni íbúa og sveitarfélaganna, fræðasamfélagsins og náttúrutengdra fyrirtækja sem vinna sameiginlega að því að byggja sterkara samfélag á gildum menntunar, verndar og nýtingar merkra jarðminja, menningarminja og náttúru. Aðild að UNESCO áætluninni færir mikil tækifæri í markaðssetningu fyrir svæðin enda gerðar strangar kröfur til aðildarfélaga. Í dag eru alls 120 slíkir jarðvangar sem tilheyra UNESCO víða um heim. Aðeins tveir þeirra eru á Íslandi, Reykjanes jarðvangur og svo Katla jarðvangur á Suðurlandi.

djupavatn_oa-reykjanes
Djúpavatn á Reykjanesi mynd:OA
kalfatjarnakirkja_oa-reykjanes
Kálfatjarnarkirkja á Reykjanesi. Ljósmynd:OA

Einstök jarðfræðisaga
Reykjanes jarðvangur nær yfir land fimm sveitarfélaga; Grindavíkurbæ, Reykjanesbæ, Sandgerðisbæ, Garð og Voga. „Við höfum skilgreint 55 staði á Reykjanesi sem eru merkilegir út frá jarðsögulegu tilliti. Það eru jarðminjar sem sýna hluta af jarðsögunni. Hér er eini staðurinn í heiminum þar sem Mið-Atlantshafshryggurinn kemur upp úr hafi og á mjög afmörkuðu svæði getum við sýnt virkni jarðflekaskilanna sem mynda hrygginn. Hérna sjást þau mjög vel. Afleiðingar þeirra eru síðan hraunið og jarðhitinn. Við getum vísað til staða eins og Gunnuhvers sem er afleiðing flekaskilanna og jarðhræringa sem tengjast þeim. Hugmyndafræði jarðvanga UNESCO snýr líka að því að segja frá því hvernig mannlegt samfélag lifir við þessar aðstæður. Þar má nefna sögur og sagnir frá fyrri tímum,“ útskýrir Þuríður. Með því síðastnefnda er þannig dregið fram hvernig jarðsagan hefur haft áhrif á þróunarsögu mannlífs og annars lífríkis á svæðinu.

 

reykjanesta_-the-tip-of-reykjanes_oa-reykjanes
Reykjanestá á Reykjanesi. Mynd:OA

Strangar kröfur
Markmið jarðvanga er að bæta þekkingu, viðhorf og verndarstöðu jarðminja á svæðunum. Heimamenn eru hvattir til nýta arfleifðina á sjálfbæran hátt til fræðandi ferðaþjónustu sem byggir á náttúru og menningu svæðisins. Þá hvetja jarðvangar til nýjunga í náttúrutengdri sköpun og til að draga fram og viðhalda menningararfleifð svæðanna. Heildrænt skipulag jarðvangs þarf að taka tillit til sjálfbærrar nýtingar og vinna að bestu aðferðum til uppbyggingar í sátt við náttúruna. Þetta gerir miklar kröfur varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. „Við byggjum upp innviðina. Jarðvangsvottunin sætir stöðugu eftirliti af hálfu UNESCO þar sem uppfylla verður ýmis skilyrði. Það verður að fylgja ákveðnum ferlum og standast gæðakröfur.“

Þuríður segir að undanfarið hafi til dæmis verið unnið að því innan jarðvangsins að lagfæra bílastæði, bæta aðgengi og byggja upp ný við nýja og áhugaverða áfangastaði svo sem við Brimketil. „Nýir og spennandi afþreyingamöguleikar og veitingastaðir eru síðan að koma inn svo sem á Garðskaga. Þar er búið að endurbyggja gamla vitann að innan, verið er að stækka veitingastaðinn í byggðasafninu og endurnýja sýningar þar. Með þessari stefnu er Garðskagi orðinn að áfangastað ferðamanna. Það er líka verið að ljúka byggingu hótels í Garði sem opnar í vetur. Það er mikil gróska og gott hjóð í fólki.“

 

krisuvikurbjarg_ozzo_0059-reykjanes
Krísuvikurbjarg á Reykjanesi. Mynd: Ozzo.

Víðtæk samvinna
Stefnan er skýr. Það er að byggja upp ferðaþjónustu á Reykjanesi með jákvæðum hætti í anda jarðvangastefnu UNESCO. „Það sem við viljum gera öðrum þræði er að hægja aðeins á fólki svo það stoppi lengur við hjá okkur. Til að gera þetta þarf að byggja upp hluti á borð við salernisaðstöðu. Við sjáum vel þar sem þetta skortir svo sem við Reykjanesvita að fólk stoppar stutt þar einmitt vegna þessa. Umferðin er þó í sjálfu sér ágæt. Við erum að fá að meðaltali yfir sumartímann um 1.300 manns daglega út á Garðskaga og um 700 manns að Reykjanesvita. Þetta eru bæði Íslendingar og útlendingar. Dreifingin yfir dagnn er síðan það mikil og góð að maður verður ekki mikið var við þessa umferð.“
Ferðaþjónustuaðilar á Reykjanesi taka virkan þátt í því að viðhalda og bæta Reykjanes sem UNESCO-jarðvang. „Bláa lónið er hluti af jarðfangsverkefninu. Fyrirtækið hefur styrkt uppbyggingu á öðrum ferðamannastöðum á Reykjanesi, svo sem á bílastæðum. Bláa lónið er einnig með hótelrekstur og auðvitað sér fyrirtækið sér hag í því að byggja upp innviði kringum áfangastaði ferðamanna á Reykjanesi svo hægt sé að sýna þeim slíka staði. Það eykur líkur á að fólk dvelji lengur á hótelinu. Fyrirtæki á Reykjanesi hafa sýnt góðan vilja til að taka þátt í uppbyggingu með þessum hætti.“vatnsleysustrond-nothern-lights-in-vogar_oa

turidur-markadstofa-reykjanes
Þuríður Halldóra Aradóttir

Þau hjá Markaðsstofu Reykjaness sinna einnig fleiri verkefnum. „Eitt af því sem við bjóðum upp á er að veita yfirsýn yfir staði á svæðinu sem bjóða upp á aðstöðu fyrir fundi og ráðstefnur. Það er spurt eftir slíkri þjónustu einmitt vegna þess að Reykjanes hefur nálægð bæði við alþjóðaflugvöllinn og höfuðborgarsvæðið. Hér eru margir möguleikar,“ segir Þuríður Halldóra Aradóttir.

Markaðsstofa Reykjaness
Þuríður Aradóttir Braun, framkvæmdastjóri
Grænásbraut 506
235 Reykjanesbær
Sími: 420-3294
[email protected]
www.visitreykjanes.is