Reykjanes

Einstakt náttúrufyrirbæri á heimsvísu

12174183253_ba9e4525a3_o„Það er af nógu að taka á Reykjanesi sem er í rauninni einstakt náttúrufyrirbæri á heimsvísu,“ segir Þuríður Halldóra Aradóttir, verkefnastjóri Markaðsstofu Reykjaness. „Atlantshafshryggurinn kemur á land á Reykjanesi en áhrif flekaskilanna eru sýnileg hvort sem það er á sjó eða landi.“ Nefna má Brú á milli heimsálfa sem er táknræn göngubrú yfir gjá sem myndast hefur vegna hreyfingar meginlandsflekanna, Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna.

reykjanes hellir og folk

„Svo get ég líka nefnt hraun og jarðhita. Svæðið er kjörið fyrir útivistarfólk sem hefur gaman af því að uppgötva nýja og fallega staði. Vinsælustu staðirnir eru Gunnuhver, Garðskagi, Reykjanes og einmitt Brú á milli heimsálfa. Svo get ég nefnt Brimketil í Grindavík, sem er laug í sjávarborðinu, og ýmsa staði sem fuglaáhugamenn eru spenntir fyrir eins og Krísuvíkurbjarg og tjarnirnar við Sandgerði.“
Þuríður Halldóra segir að hvert sveitarfélag á svæðinu hafi skapað sér ákveðinn sess hvað varðar ferðaþjónustu.

 

vikingaheimarÍ Víkingaheimum í Reykjanesbæ má sjá víkingaskipið Íslending sem er þar til sýnis en fyrirmyndin er víkingaskip frá 9. öld. Ferðamenn geta svo kynnt sér tónlistararf Íslendinga í Rokksafni Íslands í Hljómahöllinni.

Tröllskessa ein stór og mikil situr í hellinum sínum í Reykjanesbæ og er vinsælt á meðal barna að koma þangað með snuðið sem þau eru hætt að nota.„

keilir

Það er öflugt útgerðarfyrirtæki í Grindavík og þar er hægt að fylgjast með hvernig fiskurinn er unninn. Þá eru flottar sýningar í Kvikunni hvað varðar söguna, vinnslu á saltfisknum og eins náttúruna. Þess má geta að veitingastaðir á svæðinu eru farnir að sérhæfa sig í sjávarafurðum.“ Nokkrar sýningar eru í auðlinda- og menningarhúsinu Kvikunni svo sem sýningar með áherslu á saltfisk og jarðorku auk þess sem Guðbergsstofa er þar til húsa en hún er tileinkuð lífi og störfum Guðbergs Bergssonar, rithöfundar og heiðursborgara Grindavíkur.

 

Gunnuhver..
Gunnukver
Austurengjahver
Austurengjahver
Hraunstrita vid Selatanga
Hraunstrita vid Selatanga

Í Þekkingarsetrinu í Sandgerði er náttúrugripasýning sem og sýning á rannsóknum sem hefur verið unnið þar að síðustu 30 árin hvað varðar t.d. líffræði sjávar.
Ferðamenn geta víða upplifað kyrrð og fallegt útsýni á svæðinu svo sem á Garðskaga og Vatnsleysuströnd – hægt er í björtu veðri að sjá Snæfellsjökul og fjallgarðinn á Vesturlandi. „Það þarf ekki að leita langt til að komast í einstaka kyrrð.“
Þuríður leggur áherslu á að tilvalið sé fyrir fjölskyldufólk að ferðast um Reykjanesið og nýta sér það sem þar er í boði. „Það er t.d. búið að útbúa sérstakt barnakort af Reykjanesbæ þar sem fram kemur hvað börn geta gert á svæðinu. Þekkingarsetrið í Sandgerði er t.d. með ratleik fyrir fjölskylduna.“

www.reykjanes.is

-S.J.
Callout box: Tröllskessa ein stór og mikil situr í hellinum sínum í Reykjanesbæ og er vinsælt á meðal barna að koma þangað með snuðið sem þau eru hætt að nota.