Mynd: Gabríela Friðriksdóttir, Lyklapétur, 2018. Akrýlmálning og blek á striga. 50x70 cm Ljósmynd: Gabríela Friðriksdóttir / Pierre-Alain Giraud
Mynd: Gabríela Friðriksdóttir, Lyklapétur, 2018. Akrýlmálning og blek á striga. 50x70 cm Ljósmynd: Gabríela Friðriksdóttir / Pierre-Alain Giraud

Gabríela Friðriksdóttir

Opnun einkasýningar Gabríelu Friðriksdóttur

„Gabríela Friðriksdóttir hefur í hartnær tvo áratugi unnið með fjölbreytta miðla – allt frá teikningum, málverkum og skúlptúrum til gjörninga, tilraunakenndra myndbanda og myndbandsinnsetninga – í list sinni sem byggir á einstakri fagurfræðilegri sýn. Listheimur hennar er í ætt við súrrealisma, hann byggja blendingar og kynferðislegar verur sem hægt er að túlka sem myndlíkingar fyrir fornar grunnkenndir mannskepnunnar á borð við depurð, sársauka og vanhæfni til að rjúfa eigin einangrun.

Nýjustu verk Gabríelu, yfir fimmtíu málverk á striga, virðast kannski í fyrstu vera einhvers konar frávik frá þessari fagurfræðilegu heimspeki, vegna þess hve „venjuleg“ og kunnugleg þau eru. Líkt og í teikningum sínum, þar sem hún notar aldrei annað en svart blek, skapar Gabríela heim tákna, forma og fígúra sem virðast einangruð og afmörkuð á lituðum striganum en á mótsagnarkenndan hátt eru þau á sama tíma líkt og greypt í tómið í fullkomnum samhljómi.

Lýsa má málverkum hennar sem „andlegu landslagi“ sem leitast í sífellu við að draga fram úr djúpi undirmeðvitundarinnar ástand þar sem eilíf óvissa ríkir. Í mörgum verkanna kallast tveir þættir á: Gabríela notar pastelliti og skæra liti sem geta vakið upp umræðu um smekk en minna einnig á hið „barnalega“, í öðru lagi byggir hún á grunnþáttum táknmynda sem eiga uppruna sinn í næfum málverkum á borð við verk Henris Rousseau.

Að mínu viti er ekki rétt að skilgreina slíka fagurfræðilega sýn einfaldlega sem verið sé að tæla áhorfandann. Gabríela nýtir sér þætti úr hinu „venjulega heimilislífi“ sem détournement, þeim er ætlað að endurvirkja umræðuna um hið „heimilislega“ og hið „kynlega“. Í grundvallarriti sínu útskýrir Sigmund Freud sambandið milli hins „heimlich“ (kunnuglega) og tvíbura þess í andstæðri merkingu, hins „unheimlich“ (ókennilega). Hjá honum er forskeytið „un“ merki um bælingu. Upprunaleg merking „heimlich“ á þýsku gefur til kynna hið heimilislega, kunnuglega, þekkta en orðið hefur einnig tekið á sig merkingu hins falda, dulda, leynda – þess sem er bælt eða falið í notalegu heimilislífinu. Hið ókennilega verður þá formið sem hið bælda leyndarmál fær á sig þegar aðstæðurnar kalla það fram úr djúpum undirmeðvitundarinnar.

Í hinum áhrifaríka texta Compulsive Beauty (1993), býður listasagnfræðingurinn Hal Foster upp á annars konar túlkun súrrealismans, víðs fjarri viðtekinni sýn André Bretons um ást og frelsi. Foster rannsakar dökkar hliðar listastefnunnar með gleraugum sálgreiningar Freuds: Hið ókennilega, hið áráttukennda, dauðahyggju, sókn tækninnar og neysluhyggjunnar í mannlegu samfélagi, „poupée“ eða vélgervingu mannsins.

Gabríela vísar til margra þessara þátta í verkum sínum, til dæmis í minninu um grímuna eða um reðurtákn sem rjúfa yfirborð. Titlar verka hennar – Snákasambandið, Perlukafararnir eða Ljósaskiptin svo nokkur séu nefnd – eiga einnig uppruna sinn í þjóðsagnakenndum sögum og ævintýrum og ýja að frásögninni sem finna má í málverkunum. Þessi tenging við sögur sem foreldrar okkar eða afar og ömmur hafa sagt okkur auðgar enn merkinguna og tvinnar saman þræði á samskeytunum milli sakleysis bernskunnar og eðlislægu ofbeldi sögunnar, kynferðisins og hins torkennilega. Þessar andstæður gera boð á undan sér í léttleika formlegs tungumálsins. Á þennan hátt má einnig lýsa málverkunum sem nokkurs konar yfirskilvitlegum lykli handa áhorfandanum. Verk Gabríelu leitast við að bera boð á milli raunveruleikans og drauma, milli reglu og óreiðu, milli völundarhússins hið innra og áferðarfallegs yfirborðsins, milli ákafrar ástríðu og gleði og hyldjúprar depurðar.“

Raphael Gygax, listfræðingur og sýningarstjóri. Þýðing: Ingunn Snædal.

Gabríela Friðriksdóttir (f. 1971) útskrifaðist af skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1997 og stundaði nám í AVU í Prag. Hún hefur haldið fjölda sýninga um allan heim, bæði ein og með öðrum og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2005. Verk hennar hafa m.a. verið sýnd í Migros Museum, Zürich; Prospectif Cinema, Pompidou-miðstöðinni í París; Museum of Contemporary Art, Tókýó; Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur; Museum of Modern Art, Ósló; Kunsthaus, Graz; Schirn Kunsthalle, Frankfurt og á Lyon Tvíæringnum árið 2014.

RELATED LOCAL SERVICES