,,Verðum að fá láglendisveg sem er fær allan ársins hring til að flytja afurðirnar suður“

arnarlax a gilseyri (2)
Seiðaeldisstöð Arnarlax á Gileyri í Tálknafirði.

,,Verðum að fá láglendisveg sem er fær allan ársins hring til að flytja afurðirnar suður“
–    segir Matthías Garðarsson hjá Arnarlaxi á Bíldudal

Laxeldisfyrirtækið Arnarlax hefur sett um 250 þúsund laxaseiði í þrjár sjókvíar í Arnarfirði, fyrstu kynslóð. Seiðin voru flutt frá seiðaseldisstöð fyrirtækisins á Gileyri í Tálknafirði, þar sem Arnarlax hefur byggt upp góða klak- og seiðaeldisstöð, yfir í sjókvíarnar sem eru við Otradal í Arnarfirði. Í næsta mánuði er áformað að setja út 300 þúsund seiði til viðbótar. Afkastageta seiðaeldisstöðvarinnar á Gileyri er um ein milljón seiða. Reiknað er með að byrjað verði að slátra laxi upp úr kvíunum á síðari hluta árs 2015, alls um 2000 tonnum og síðan mun það aukast.
Matthías Garðarsson hjá Arnarlaxi segir að sótt hafi verið um leyfi fyrir 3400 tonna eldi samtals á fjórum stöðum í Arnarfirði. Að félaginu standa fyrirtæki í Noregi og Danmörku, ásamt heimamönnum á Bíldudal, m.a. Matthíasi og hans fjölskyldu. Markmið fyrirtækisins er að setja upp vinnslu á Bíldudal og fullvinna hráefnið úr eldinu í neytendapakkningar til útflutnings. Sótt hefur verið um lóð fyrir vinnslu á Bíldudal og er málið í vinnslu hjá bæjarstjórn Vesturbyggðar. Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi er gert ráð fyrir því að byggt verði á landfyllingu við Banahlein sem er utan við þorpið á Bíldudal. Áætlað er að þar geti einnig tengd fyrirtæki byggt upp starfsemi sína.

matthias gardarsson (2)
Matthías Garðarsson.

Matthías segir að því fari fjarri að það sé einhver framtíðarlausn að flytja allar afurðir Arnarlax með ferjunni yfir til Stykkishólms og þaðan áfram. ,,Við þurfum að fá láglendisveg héðan sem er fær allan ársins hring til að flytja ferskan lax með bílum til Reykjavíkur. Frystar afurðir geta farið í gám og með skipum sem þurfa þá að koma hingað til Bíldudals og flytja þá á markað í Evrópu.“

Stefnt að 30.000 tonna framleiðslu á ári

,,Í framtíðinni er áætlað að upp úr Arnarfirði verði tekin um 30.000 tonn af laxi á ári af þremur laxeldisfyrirtækjum og ef öll þessi framleiðsla fer fersk með bílum til Reykjavíkur þýðir það að um 10 – 15 trailera fara á hverjum degi suður og núverandi vegakerfi héðan suður í Gilsfjörð annar því alls ekki. Það er alveg ljóst. Hér verða sköpuð mikil verðmæti í eldislaxi á næstu árum og samgöngukerfið þarf að vera tilbúið til að þjóna þeirri atvinnugrein og þeim aukna fjölda fólks sem flytur vestur til að starfa við atvinnugreinina. Það geta verið um 300 störf sem þýðir um 1.000 íbúa, í bland langskólagengið- fólk, og þá þarf stærri skóla og íbúðabyggingar og þetta skapar öflugra og fjölbreyttara mannlíf. Í sumar hafa um 30 manns flutt til Bíldudals. Ástæðan fyrir því að við búum ekki við betra vegakerfi er kannski fyrst og fremst sú að Vestfirðingar hafa ekki talað nægilega einróma.. Slæmar samgöngur hafa m.a. valdið því að hér hefur orðið fólksfækkun og svo hafa atvinnutækifæri horfið héðan. Rækjan hvarf og svo hafa fiskvinnslufyrirtæki lagt upp laupana, m.a. vegna þess að þau hafa misst kvóta. Möguleikar Vestfjarða í dag er laxinn, firðirnir eru ónýttar auðlindir, allt frá Ísafjarðardjúpi suður til Patreksfjarðar, þó Súgundafjörður og Önundarfjörður séu kannski helst til litlir. Við bestu aðstæður getum við kannski framleitt um 200.000 þúsund tonn af laxi á ári á öllu svæðinu. Breiðafjörður er kannski besti kosturinn, en honum er lokað vegna einhverrar lækjarsprænu inni við Búðardal!,” segir Matthías.

-GG
www.arnarlax.is

Í framtíðinni er áætlað að upp úr Arnarfirði verði tekin um 30.000 tonn af laxi á ári af þremur laxeldisfyrirtækjum og ef öll þessi framleiðsla fer fersk með bílum til Reykjavíkur þýðir það að um 10 – 15 trailera fara á hverjum degi suður og núverandi vegakerfi héðan suður í Gilsfjörð annar því alls ekki.“ – Matthías Garðarsson hjá Arnarlaxi á Bíldudal