ÝMISSA KVIKINDA LÍKI

ÝMISSA KVIKINDA LÍKI – ÍSLENSK GRAFÍK

sýningatími:11.5.2018 – 23.9.2018, Listasafn Íslands

Föstudaginn 11. maí verður opnuð sýning íslenskra samtímalistamanna á grafíkverkum í Listasafni Íslands. Á sýningunni má sjá hvernig listamennirnir hafa beitt margbreytilegri skapandi færni og ýmiss konar tækni. Sýningarstjórarnir Ingibjörg Jóhannsdóttir og Pari Stave hafa valið verk á sýninguna eftir listamenn sem vinna jafnhliða í grafík og aðra miðla. Meðal sýnenda eru rithöfundar og tónskáld en einnig myndlistarmenn sem eru síður þekktir fyrir grafíkverk sín, frekar fyrir málverk, þrívíð verk, innsetningar, gjörninga, ljósmyndaverk eða vídeólist.

Mynd: Helgi Þorgils Friðjónsson, Samferðarmenn (Fellow Travelers), 1986

 

Á sýningunni Ýmissa kvikinda líki – Íslensk grafík eru yfir 100 þrykk og fjölfeldi eftir 27 listamenn. Þau elstu eru frá árinu 1957 og þau yngstu verða til á sýningunni. Verkin eru unnin með margs konar tækni, allt frá klassískum grafíkmiðlum eins og ætingu og silkiþrykki, til innsetningar sem gerð er með einþrykki og þrívíðu prenti.

Á sýningunni kemur berlega í ljós að grafíkmiðillinn er engin hliðarafurð í listsköpun. Með miðlinum opnast einstakar leiðir til fjölföldunar og endurtekningar og til að skapa raðir verka þar sem ólíkir þættir eru kallaðir fram í einhverju sem mætti líkja við fjölbreytilegan spuna. Undirliggjandi er spurningin: Af hverju velja listamenn að nota þennan miðil til sköpunar, á þennan hátt?

Meðal listamanna sem eiga verk á sýningunni er söngvaskáldið Megas – Magnús Þór Jónsson – með sjálfsmyndaröð frá árinu 1985 sem unnin er með koparætingu. Einnig má sjá bókverk frá 1984 eftir Björk Guðmundsdóttur þar sem lesa má ævintýri af handlituðum fjölfölduðum síðum.

Megas segir um myndir sínar: „Atvinna mín felst í því að semja söngva og syngja þá. Myndlistarlöngunin hefur engu breytt um það. En þegar þörf krefur þá teikna ég.“

Og rithöfundurinn og myndlistarmaðurinn Hallgrímur Helgason segir: „Ég hef alltaf haft áhuga á prentverki, það liggur svo nálægt því að gefa út bók. Ég er líka rithöfundur svo A4 hefur alltaf verið mér eðlilegur leikvöllur. Penninn þarf bara að ákveða hvort hann vill skrifa eða teikna.”

Aðrir þekktir myndlistarmenn sem eiga grafíkverk á sýningunni, en eru hvað þekktastir fyrir málverk, eru þeir Arnar Herbertsson, Helgi Þorgils Friðjónsson og Sigurður Árni Sigurðsson. Guðjón Ketilsson er þekktur fyrir teikningar sínar og Sara Riel fyrir stór veggverk, Rúrí fyrir innsetningar og gjörninga, Sigurður Guðmundsson fyrir sköpun innan ramma konseptlistarinnar auk bókaskrifa og Sólveig Aðalsteinsdóttir og Valgerður Guðlaugsdóttir fyrir skúlptúra. Þá eru á sýningunni verk eftir tvo íslenska listamenn sem búa erlendis, Hrafnhildi Arnardóttur og Katrínu Sigurðardóttur sem báðar eru þekktar fyrir margbrotnar innsetningar. Ennfremur eru verk á sýningunni eftir kunna erlenda listamenn sem tengst hafa Íslandi sterkum böndum og unnið verk í tengslum við dvöl sína hér. Þeir eru bandaríski skúlptúristinn/myndhöggvarinn Richard Serra, danski listamaðurinn Per Kirkeby og hin bandaríska Roni Horn, sem vinnur jafnhliða í ýmsa miðla.

Þýsk-svissneski listamaðurinn Dieter Roth flutti til Íslands árið 1957 og hafði mikil áhrif á íslenskt myndlistarlíf. Hann beitti grafíkmiðlinum af einstökum krafti og frumleika. Í fjölfeldi notaði hann ýmiss konar efnivið eins og pylsur, ávaxtasafa, eggjahræru, bráðinn ost og súkkulaði. Meðal verka eftir Dieter er bókverk með lausum handskornum örkum sem raða má saman með mismunandi hætti; þannig getur sá sem flettir gert sína eigin útgáfu af verkinu. Verkið er forveri svokallaðra breytiverka sem margir listamenn hafa síðan kosið að vinna með. Meðal þeirra eru Eygló Harðardóttir, Rúna Þorkelsdóttir og Þóra Sigurðardóttir en verk þeirra á sýningunni má setja fram með margs konar hætti.

Á sýningunni getur einnig að líta grafíkverk eftir mikilvæga íslenska myndlistarmenn sem hafa fallið frá á síðasta áratug, þá Georg Guðna Hauksson, Kristján Davíðsson og Birgi Andrésson.

Þrír listamenn vinna verk sérstaklega fyrir þessa sýningu. Hrafnkell Sigurðsson mun skapa tímabundið verk á súlu á safninu. Og Leifur Ýmir Eyjólfsson og Sigurður Atli Sigurðsson munu skapa innsetningu í formi verkstæðis þar sem grafíkverk verða framleidd af miklum móð og munu óvæntir gestir heimsækja þá á sýningartímabilinu og vinna verk í samvinnu við þá.

Sýningin var upphaflega skipulögð af og sett upp í Alþjóðlegu prentmiðstöðinni í New York (IPCNY) vorið 2017 undir heitinu Other Hats: Icelandic Printmaking. Sýningunni hefur verið breytt nokkuð og hún þróuð frekar, til uppsetningar í Listasafni Íslands.

Logo
Sýningarstjórar: Ingibjörg Jóhannsdóttir og Pari Stave

Sýnendur:
Arnar Herbertsson
Birgir Andrésson
Björk Guðmundsdóttir
Dieter Roth
Eygló Harðardóttir
Georg Guðni
Guðjón Ketilsson
Hallgrímur Helgason
Helgi Þorgils Friðjónsson
Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter
Hrafnkell Sigurðsson
Katrín Sigurðardóttir
Kristján Daviðsson
Leifur Ýmir Eyjólfsson
Magnús Þór Jónsson (Megas)
Per Kirkeby
Richard Serra
Roni Horn
Sara Riel
Rúna Þorkelsdóttir
Rúrí
Sigurður Árni Sigurðsson
Sigurður Atli Sigurðsson
Sigurður Guðmundsson
Sólveig Aðalsteinsdóttir
Þóra Sigurðardóttir
Valgerður Guðlaugsdóttir

Mynd: Helgi Þorgils Friðjónsson, Samferðarmenn (Fellow Travelers), 1986.
Æting / Etching. Prentað af / Printed by Norbert Weber, Eckernförde. Í eigu listamannsins / Courtesy of the artist.