Ævintýralegt umhverfi

Vesturbyggð

Það er margt hægt að skoða og upplifa í Vesturbyggð og má þar nefna Látrabjarg, Rauðasand, Dynjanda og Selárdal í Arnarfirði.
Látrabjarg státar af elstu jarðlögum á landinu og þar er vestasti tangi landsins, Bjargtangar. Látrabjarg er hvað þekktast sem fuglabjarg og þar er að finna stærstu álkubyggð í heimi en þarna verpa um tíu sjófuglategundir. Nefna má langvíu, stuttnefju, ritu og fýl. Fuglalífið er frábær uppspretta fyrir ljósmyndara. Þess má geta að lundinn er í bjarginu yfir hásumarið en fer yfirleitt um miðjan júlí.

5202398ea8bf0-Vestfirir2013181

Fara þarf varlega á brúnum Látrabjargs og má þar sérstaklega nefna lundaholurnar sem geta verið varasamar. Lundinn grefur holur inn í jarðveginn sem er á brúnum bjargsins og geta þær verið hálfur metri að lengd. Yfir þessum holum er síðan jafnvel einungis nokkurra sentimetra lag af mold og grasi sem sést ekki þegar gengið er fram á brúnina. Þess vegna gæti fólk óvart stigið ofan í holu rétt hjá brúninni þar sem einungis sést gras á yfirborðinu.
Rauðisandur liggur frá Skorarhlíðum út að Látrabjargi. Ekið er niður brattan og mjóan fjallveg til að komast að sandinum og þegar niður á undirlendið er komið blasa við brattar hlíðar og háir fjallhamrar og rauður sandurinn sem teygir sig í átt til sjávar. Um er að ræða rauðgulan skeljasand sem gerir umhverfið ævintýralegt. Á svæðinu er rekið fallegt kaffihús yfir hásumarið. Hægt er að ganga að eyðibýlinu Sjöundá með leiðsögumanni.
Í Arnarfirði eru há fjöll, djúpir dalir, fallegar ár og grasið teygir víða úr sér.
Mesti foss Vestfjarða, Dynjandi, er fyrir botni Arnarfjarðar og er fossinn og umhverfið í kring friðlýst sem náttúruvætti. Þarna er hægt að njóta umhverfisins með myndavél eður ei en um 100 metra hár fossinn er tilvalinn til myndatöku vetur, sumar, vor og haust.
Selárdalur í Arnarfirði er líka tilvalinn staður til að heimsækja. Þar er bær Gísla á Uppsölum sem er verið að gera upp og einnig Brautarholt þar sem listamaðurinn Samúel Jónsson bjó. Byggingar hans og höggmyndir setja sterkan svip á svæðið. Samúel var listamaður frá náttúrunnar hendi og þarna er náttúran eins og listasafn.