ASARNSU Viður, leður og selskinn

ASARNSU
Viður, leður og selskinn


Anders Zeeb er ungur Grænlendingur sem lærði trésmíði í Danmörku og stofnaði síðan sitt eigið fyrirtæki, Mudahula. Nafni fyrirtækisins var hins vegar nýlega breytt í ASARNSU.


Hönnun og framleiðsla Zeeb hefur vakið athygli en hann hefur hannað og framleitt húsgögn og ýmislegt til heimilisins svo sem stóla, borð, skápa og skurðbretti. Þess má geta að á meðal nýjustu hlutanna sem Zeeb hefur hannað er einstakt húsgagn með innbyggðum hátölurum.


Grænlensk áhrif er að finna í stólunum hans, APU og NAYA ULU, en formið minnir á fornan, grænlenskan hníf og er setan klædd leðri eða selskinni. Zeeb segist leggja áherslu á sígildan en jafnframt nútímalegan og einfaldan stíl þegar kemur að hönnuninni. Sum húsgögnin eru næstum því eins og úr öðrum heimi eða allvega eins
og frá fjarlægum löndum en Zeeb notar við frá FSC (The Forst Stewardship Council) sem þýðir að viður í húsgögnunum er frá aðilum víðs vegar um heiminn sem leggja áherslu á ábyrga framleiðslu.


„Ég hef áhuga á að selja húsgögnin mín í útöndum og koma Grænlandi á kortið í tengslum við húsgagnaframleiðslu,“ segir Zeeb sem hefur m.a. horft til Íslands, Þýskalands og Ítalíu. „Markmið mitt er að selja stólana APU og NAYA ULU m.a. til Íslands og fleiri landa.“