BÚNINGANA Í BRÚK!

Þjóðhátíðardagurinn á Árbæjarsafn verður tileinkaður þjóðbúningum og gestir eru hvattir til að mæta í eigin búningum sama hverrar þjóðar búningarnir tilheyra. Fjallkonu safnsins verður skautað kl. 14 og geta gestir fylgst með því hvernig faldur, faldblæja og spöng eru sett upp og borin við skautbúning. Kl.15 spilar þjóðlagasveitin Þula sem er skipuð tónlistarnemum frá Tónlistarskóla Kópavogs undir handleiðslu Eydísar Franzdóttur.

BÚNINGANA Í BRÚK! er yfirskrift nýrrar þjóðbúningasýningar á vegum Heimilisiðnarfélagsins sem búið er að koma fyrir í einu húsi safnhúsi sem kallað er Lækjargata 4 og eru gestir hvattir til að skoða sýninguna á sjálfan þjóðhátíðardaginn.

Meðlimir Fornbílaklúbbsins verða á svæðinu með eðalvagna sína til sýnis á safninu frá kl. 13-16. Harmonikkutónar munu hljóma um svæðið í bland við lokkandi lummuilminn úr eldhúsinu í gamla Árbænum.

Í safnhúsunum má sjá fjölmargar sýningar eins og Neyzlan – Reykjavík á 20. öld (Lækjargata 4) og Hjáverkin (Kornhúsið). Fyrir yngstu kynslóðina er tilvalið að heimsækja sýninguna Komdu að leika! Þar sem gefst tækifæri til að leika með leikföng frá ýmsum tímum. Auk þess er fjölbreytt úrval af útileikföngum til staðar sem gestum býðst að nota að vild, svo sem kassabílar, húla-hringir, snú-snú, kubb og stultur.

Að vanda verður heitt á könnunni í Dillonshúsi.

Ókeypis aðgangur fyrir börn, eldri borgara, öryrkja, og þá sem mæta í eigin þjóðbúningi.