Handbók EM í Króatíu 2018

Lesið EM handbókina hér

Handbók EM 2018 í Króatíu

 

Hvernig skyldu strákunum okkar ganga á EM í ár? Ekki laust við að þessi spurning hafi bankað á huga margra þessa fyrstu daga ársins þegar undirbúningurinn er á fullu og EM í Króatíu rétt að fara að byrja. Það er bara þannig að þegar íslenska handboltalandslið karla er um að ræða þá virðist þetta koma langflestum landsmönnum að einhverju leyti við og allir finnast þeir eiga svolítið í þessu liði. Enda hefur það oftar en ekki verið sagt að ef að það er eitthvað sem virkilega sameinar landsmenn þá eru það strákarnir okkar í handboltanum.

Knattspyrnuliðið okkar er heldur betur að gera það gott og bíður þjóðin í eftirvæntingu eftir sumrinu þegar Ísland tekur þátt í HM í knattspyrnu karla í fyrsta skipti. En handboltaliðið er alltaf í eldlínunni og hefur farið á næstum hvert stórmót í mörg ár, hvort sem það er HM, EM eða Ólympíuleikar. Íslenska handboltaliðið telst til þeirra bestu í heiminum og hefur verið það lengi.

Það eru viss kynslóðaskipti sem liðið er að ganga í gegnum um þessar mundir, en þetta lítur bara mjög vel út og er ekki annað að sjá en að góð samblanda af eldri og reynslumeiri mönnum með þeim yngri sem hafa verið að koma inn í hópinn upp á síðkastið, virki bara mætavel. Reynslan og getan í þeim eldri í bland við eldmóðinn og kraftinn í þeim yngri. Menn eru alltaf bjartsýnir fyrir svona stórmót þegar Ísland er að spila og innst inni leynast oft væntingar og kröfur um verulegan góðan árangur, já, vera með þeim bestu og ekkert nema verðlaunasæti kemur til greina.

Hvað sem því öllu líður þá vantar það ekki hjá landsliðshópnum að hafa eldmóðinn á hreinu og kalla fram gamla góða keppnisskapið og gefa sig alla í það. Það fengum við svo sannarlega að kynnast þegar við hittum á strákana hér á landi þegar allt var á fullu að undirbúa sig sem best fyrir mótið. Það er eitthvað við þetta að vera í íslenska landsliðinu í handbolta og vera fulltrúar þjóðarinnar í stærstu handboltamótum heims. Menn gefa sig alla í þetta, baráttuandinn, fórnfýsin, liðsheildin, krafturinn og fullt af jákvæðu hugarfari og bjartsýni, kveikja neistann í mönnum og eru allir staðráðnir í að gera allt sem allra best fyrir hönd íslensku þjóðarinnar þegar á
hólminn er komið. Þetta hefur mjög mikið að segja og hjálpar mikið við að yfirstíga hindranir og takast á við nýjar áskoranir hverju sinni þegar þær koma fram.

Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig til tekst í Króatíu og hvernig strákarnir ná að höndla þessa áskorun. Við erum í hörku riðli þar sem mikil barátta verður við heimamenn í Króatíu, Svíþjóð og Serbíu um þrjú efstu sætin riðlinum til að komast upp úr riðlinum. Ætla mætti að Króatarnir séu svolítið sér á báti og að mikil barátta verði á milli hinna þriggja að fylgja þeim eftir í milliriðilinn.

Þetta getur orðið erfitt og ekkert hægt að bóka. En það þýðir ekkert annað en að vera kokhraustur og fara á þetta mót með sigurviljann á hreinu, með það að megin markmiði að vinna næsta leik sem er spilaður. Nú er bara að berjast og vonandi gengur allt upp og við stöndum uppi sem sigurvegarar í mörgum tvísýnum viðureignum.

EIRÍKUR EINARSSON

Áfram Ísland!

Eiríkur Einarsson, ritstjóri 

Lesið EM handbókina hér