Enginn gleymir Hvalfirðinum

Hvalfjarðarsveit býr yfir stórbrotinni náttúru í formi stórskorinna fjalla, vogskorinna stranda og kjarri vaxna dala sem hafa veitt stórmennum á borð við Hallgrím Pétursson og Halldór Laxness inblástur í gegnum tíðina. Sveitastjóri Hvalfjarðarsveitar Laufey Jóhannsdóttir segir að líf og fjör sé í Hvalfjarðarsveit um þessar mundir og mikill fjöldi ferðamanna leggi leið sína um sveitina, enda sé þar að finna eitthvað við allra hæfi. Hvalfjardarsveit 097„Ég held að Hvalfjörðurinn sé aftur kominn á landakort landsmanna. Náttúrufegurðin, friðsældin og fjölbreytileiki umhverfisins gerir það að verkum að enginn gleymir Hvalfirðinum. Það er alveg ljóst að Íslendingar ætla að ferðast um eigið land og jafnframt ferðast styttra en eyða þess í stað lengri tíma á hverjum stað. Þetta finnum við glögglega hér, aukin aðsókn að útivistarsvæðunum við Þórisstaði, Bjareyjarsand , Hlaðir og í Botni svo fátt eitt sé nefnt. Það er líf og fjör á planinu við Hvalstöðina og leggja margir leið sína um svæðið þar í kring,“ segir Laufey. Gönguleiðir um Hvalfjörðinn Þá er Hvalfjarðarsveit um þessar mundir að kynna ný gönguleiðakort sem sýna gönguleiðir og innihalda ítarlegar upplýsingar um svæðið. Kortin má nálgast á ferðamannastöðum og á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar. Kortin eru tvö talsins, annað heitir Skarðsheiðarhringurinn og með kortinu eru skráðar göngu- og reiðleiðir og víddir Skarðsheiðar, Hafnarfjalls, Skorradals og Svínadals opnaðar til allra átta. Seinna kortið heitir Hvalfjarðarhringurinn og eru minjastaðir í kring um Hvalfjörðinn dregnir fram. Laufey segir að náttúrufegurð Hvalfjarðarsveitar eigi vart sinn líka og tækifærin fjölmörg. „Hér geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Lífríkið í fjörunni er heillandi, fuglaskoðendur geta skriðið um kjarrið, mýrlendi og upp í fjallshlíðar til þess að virða fyrir sér fuglalífið. Fjallgöngumenn geta þá fundið snarbrött glæsifjöll eða styttri veglalengdir allt eftir getu og áhugasviði hvers og eins,“ segir Laufey. Hún segir ferðaþjónustu vera í vexti í Hvalfjarðarsveit, en þar eru rekin ferðaþjónustufyrirtæki á borð við Hótel Glym, Bjarteyjarsand, Mótel Venus, Ferstiklu og Móa svo aðeins fátt eitt sé nefnd. Þá er um þessar mundir verið að lagfæra gömlu sláturhúsin að Laxárbakka og er þar nú rekinn sveitamarkaður, veitingasala og verið er að breyta húsunum í íbúðir. Laufey segir þó að Hvalfjarðarsveit hafi orðið fyrir sömu búsifjum og flest sveitarfélög er varðar atvinnumál undanfarin misseri. „Við erum þó mjög lánsöm að hafa mjög öflug fyrirtæki eins og Elkem, Norðurál, Faxaflóahafnir og Olíufélögin að ógleymdum Hval hf.,“ segir Laufey.