Eyja í Ölfusi

Ljósmyndasafn Reykjavíkur – Borgarsögusafn

Eyja í Ölfusi, sýning eftir Valdimar Thorlacius í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

Eyja í Ölfusi er nafn nýrrar sýningar sem opnuð verður Kubbnum í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á laugardag 21. maí. Myndirnar á sýningunni tók Valdimar Thorlacius í Hveragerði og er umfjöllunarefnið manneskjurnar sem þar er að finna innan um hverina, gufuna og gróðurhúsin.

Eyja_i_Olfusi_KYNNINGARMYNDIR-3icelandic timesÁ einum stað á Suður-Íslandi byggðist lítill bær í kringum virkt hverasvæði. Hann fékk nafnið Hveragerði. Hveragerði var og er í þjóðleið og á ýmsum tímum hefur fólki þótt staðurinn áhugaverður. Heitt vatn vellur upp úr jörðinni ýmist í fyrirsjánlegum rólegheitum eða með óvæntum hávaða og látum. Jarðsvæðið einkennist af litskrúðugum bergmyndunum, brennisteinsútfellingum, gufustrókum sem og áhugaverðum og í senn dularfullum holum. Virknin eykst og dvínar á víxl og engin leið er að segja fyrir um þá þróun. Hverasvæðið sem lúrir í miðju Hveragerðis er slík lifandi skepna. Með henni lifir fólkið frá degi til dags.

Fram til 1902 höfðu hverirnir og heita vatnið í Hveragerði verið nýtt til þvotta, baða og suðu. Um það leyti fór áhugi manna á jarðvarmanýtingu til atvinnusköpunar vaxandi. Húsin risu eitt af öðru í kringum ylinn í jörðinni. Í dag er appelsínugulur bjarmi frá upplýstum gróðurhúsum ásamt hverabólstrum einkenni bæjarins.

Valdimar Thorlacius útskrifaðist frá Ljósmyndaskólanum árið 2014. Sama ár hlaut hann styrk úr Minningarsjóði Magnúsar Ólafssonar og gaf út ljósmyndabók. Árið 2015 tók hann þátt í samsýningunni Warsaw Festival of Art Photography, Galeria Obok ZPAF í Varsjá, Póllandi ásamt því að vera með einkasýningu Þjóðminjasafn Íslands.

Sýningarstaðir Borgarsögusafns eru:
Árbæjarsafn, Landnámssýningin Aðalstræti,
Ljósmyndasafn Reykjavíkur Grófarhúsi,
Sjóminjasafnið í Reykjavík Grandagarði auk Viðeyjar.