391 001

Fjallamjólk eftir Jóhannes S. Kjarval, 1941.

Fjallamjólk eftir Jóhannes S. Kjarval, 1941.

Fjallamjólk eftir Jóhannes S. Kjarval til sýnis á Kjarvalsstöðum

Eitt kunnasta verk Jóhannesar S. Kjarvals, Fjallamjólk, er nú sýnt á Kjarvalsstöðum. Verkið er í eigu Listasafns ASÍ sem hefur góðfúslega lánað það á sýningu á Kjarvalsstöðum. Verkinu hefur verið komið fyrir á yfirstandandi sýningu á lykilverkum meistarans og er mikilvægt innlegg í þá viðleitni að sýna náttúruskynjun Kjarvals og það næma auga sem hann hafði fyrir landinu og eigindum þess.

Fjallamjólk

Verkið var málað á Þingvöllum þar sem listamaðurinn leitaði oft fanga og sýnir Flosagjá með Ármannsfell í bakgrunni. Kjarval gerði svartkrítaruppkast af verkinu á Þingvöllum en vann síðan málverkið á vinnustofu sinni við Austurstræti.

Verkið var upphaflega í eigu systursonar Kjarvals en Ragnar Jónsson í Smára eignaðist það síðar. Hann færði svo Alþýðusambandi Íslands listaverkasafn sitt að gjöf árið 1961 og lagði þar með grunninn að Listasafni ASÍ. Sagan hermir að fyrsti stjórnandi MoMA-safnsins í New York, Alfred H. Barr, hafi í heimsókn sinni til Íslands hrifist mjög af Fjallamjólk og falast eftir verkinu til kaupa fyrir safnið. Ragnar í Smára gat ekki hugsað sér að selja verkið og senda það úr landi og hafnaði því boði Barrs.

Opið er á Kjarvalsstöðum alla páskana að undanskildum páskadegi, sunnudeginum 16.apríl.