Georg Guðni, Án titils, 1989, olía á striga, 190 x 440 cm. Ljósmynd: Vigfús Birgisson

Georg Guðni,

Næstkomandi laugardag opnar einkasýning á verkum Georgs Guðna á tveimur stöðum; í (kl.17) við Hverfisgötu 4 og Gallery GAMMA (kl.18) í Garðastræti 37.

Þegar Georg Guðni varð bráðkvaddur aðeins fimmtugur að aldri sumarið 2011 hafði hann á gifturíkum og frjóum þriggja áratuga ferli náð að enduruppgötva íslenska landslagsmálverkið og tengja persónulega sýn sína á íslenska náttúru á afar áhugaverðan hátt við samtímann og íslenska samtímalist. Georg Guðni mat og skildi náttúru landsins á sinn hátt, mótaði hana og túlkaði á sinn einstaka hátt, undir áhrifum af verkum ólíkra myndlistarmanna, rithöfunda og ljósmyndara frá ýmsum tímum. Fólk hefur hrifist af myndheimi Georgs Guðna, skynjun hans og túlkun, á fegurðinni, dýptinni og einlægninni. Þegar ferli hans lauk, svo alltof snemma, var hann fyrir löngu orðinn einn dáðasti listamaður þjóðarinnar – listamaður sem tengdi á einstakan hátt við kjarnann í landinu og samfélaginu.

Úrdráttur úr viðtölum Einar Fals Ingólfssonar við Georg Guðna

Framan af ferlinum gat Georg Guðni sér orð fyrir túlkun sína á ýmsum nafngreindum fjöllum. Með tímanum leystust fjöllin upp í geómetrísk form, þá komu fram dalir og svo tók landið að fletjast út í ónafngreint landslag sem er frekar skynjað en skilið; óræðari verk sem hverfðust iðulega um óljósan sjóndeildarhring fyrir miðju. „Það heillar mig hvað þetta er orðið óskilgreinanlegt, “ sagði hann um myndefnið, gekk að einu verkinu og sagði það hafa byrjað „sem einskonar hálendisöldur en getur nú verið hvort sem er, öldur á hafi eða á jörð.

Ég set skynjunina ekki fram heldur býr fólk hana til eftir því hvað það hefur upplifað, eða einfaldlega eftir því sem það ímyndar sér. Augað leitar að einhverju þekkjanlegu en ef það festir ekki við neitt fyllir hugurinn í eyðurnar. Það er ekki mitt að segja fólki hvað það á að sjá í verkunum.“

„Hvert er þá þitt hlutverk?“ spurði ég.

Georg Guðni brosti og svaraði: „Áhorfandinn er í sömu sporum og ég, nema hann málar ekki verkið. Ég bý til sjónrænar aðstæður, þær mynda ákveðinn tíma sem fólk staldrar við. Þegar þú staldrar við þessi verk geturðu lent í svipuðum aðstæðum og þegar þú starir út um glugga. Ert að horfa en samt hættur að horfa á eitthvað ákveðið. Þá snýr sjónin við, fer inná við.

Þegar ég minntist þá á að það væri alltaf náttúrutenging í verkum hans, þótt þau væru allt að því óhlutbundin, samþykkti hann það. „Náttúran kemur alltaf upp í þeim en á ákveðnum tímapunkti öðlast málverkið sjálfstæði. Þá skiptir meira máli sjálf glíman við málverkið en að fjalla um einhver náttúrufyrirbrigði, ljós, veður eða slíkt.

Í öðru samtali okkar tveimur árum síðar, 2005, sagði Georg Guðni að vinna hans í hina ýmsu miðla; teikningar, skrif, vatnslitamyndir og olíumálverk, væri allt hluti af sömu deiglu. „Ef maður lítur á málverkin sem einhvern enda á ferli,” sagði hann, „eru teikningar og textar hluti af verkinu, af einu stóru samhangandi ferli sem lýkur ekki fyrr en manni er sjálfum öllum lokið.“

Georg Guðni (1961 – 2011) var fumkvöðull meðal ungra listamanna á níunda áratug síðust aldar með áherslu sinni á landslagsmálverk. Í stað þess að gera tilvist mannsins að umfjöllunarefni í verkum sínum eins og algengt var á þeim tíma, þá málaði hann náttúruna. Með þessari nálgun sinni gæddi hann landslagsmálverkið nýjum krafti hér á landi og tók þátt í að endurvekja áhuga á málverkinu sem miðli listamanna. Landslagsmálverk Georgs Guðna eru oft á tíðum byggð upp á geómetrískan hátt, en á sama tíma eru þau ákaflega persónuleg. Málverk Georgs Guðna eiga sér líka sterka samfélagslega tengingu. Náttúran, eins og Georg Guðni sýnir hana, er oft á tíðum einfölduð og hlutgerð upp að vissu marki, en ekki skálduð. Verkin gefa frá sér sterkt og ákveðið andrúmsloft og þekkjast á sínum fágaða einfaldleika.

Verk Georgs Guðna hafa verið sýnd víða bæði á einkasýningum og samsýningum, á Norðurlöndunum og Evrópu, en einnig í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Kína. Verk Georgs Guðna er að finna á öllum helstu söfnum Íslands og fjölda safna erlendis sem og í einkasöfnum. Georg Guðni fæddist í Reykjavík árið 1961. Hann stundaði nám við Myndlista – og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi við Jan van Eyck Akademie árið 1987. Hann lést árið 2011 einungis 50 ára að aldri.

Frekari upplýsingar veitir Sigríður L. Gunnarsdóttir í síma +354 864-9692 eða í tölvupósti [email protected] og Tommaso Gonzo í síma +354 764-5798 eða í tölvupósti [email protected]