GUÐJÓN SAMÚELSSON HÚSAMEISTARI RÍKISINS

Óhætt er að segja að enginn einstaklingur hafi haft jafn afgerandi áhrif á ásýnd Reykjavíkur og Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins. Hann hafði ekki enn lokið prófi í arkítektúr árið 1915 þegar hann fenginn til að teikna stórhýsi Nathan og Olsen við Austurstræti, þar sem Reykjavíkurapótek var lengst af staðsett. Slíkt stórhýsi hafði ekki verið byggt hér á landi um aldir og það gerbreytti ásýnd gamla miðbæjarins.

Ýmsar bygginga Guðjóns voru feiknaumdeildar á sínum tíma, ekki hvað síst Hallgrímskirkja, en eftir því sem turn hennar hóf að rísa á Skólavörðuholtinu urðu borgarbúar sífellt hrifnari af mannvirkinu. Hún er nú meðal allra fjölmennstu áfangastaða erlendra ferðamanna og helsta kennileiti Reykjavíkur. Kirkjan sem áður var svo hart deilt um er nú að margra áliti fegursta guðshús landsins.

Guðjón Samúelsson var fæddur á Hlunkubökkum í Vestur-Skaftafellssýslu 1887 en fluttist ungur til Reykjavíkur með foreldrum sínum, Samúel Jónssyni trésmíðameistara og konu hans, Margréti Jónsdóttur húsfreyju. Þau reistu hús við Skólavörðustíg 35 og þar var Guðjón lengst af síðar búsettur. Hann nam trésmíði í Reykjavík og síðar byggingarlist við Kunstakademiets Arkitektskole, þaðan sem hann brautskráðist 1919, fyrstur Íslendinga til að ljúka háskólanámi í arkítektúr. Heim kominn var hann strax settur í embætti húsameistara ríkisins og því gegndi hann til dauðadags 1950. Hann kom til starfa á tímum þegar Íslendingar voru að byrja að eignast varanleg stórhýsi úr steinsteypu og var því í aðstöðu til að hafa gríðarleg áhrif á þróun borgarinnar.

Guðjón var ekki einasta arkítekt heldur mikill áhugamaður um skipulag og sat í fyrstu skipulagsnefnd ríkins sem komið var á laggirnar árið 1921. Hann var maður háleitra hugmynda og árið 1924 hóf hann að vinna að heildarskipulagi Reykjavíkur. Í því var gert ráð fyrir „háborg íslenskrar menningar“ á Skólavörðuholtinu, þar sem helstu menningarstofnanir þjóðarinnar yrðu staðsettar, háskóli, stúdentagarður, listasafn, þjóðminjasafn og fleira. Þær hugmyndir rættust aldrei, nema hvað Listasafn Einars Jónssonar var reist eftir þessu skipulagi. Svo fór að ríkissjóði var boðið land undir Háskólann vestur á Melum, en það kom einmitt í hlut Guðjóns að skipuleggja það svæði og teikna aðalbyggingu Háskólans.

Guðjón lifði mikla umbrotatíma í húsagerðarlist þegar klassískar stíltegundir viku fyrir módernismanum. Hann þróaði með sér séríslenskan stíl sem sækir form til íslenskrar byggingarsögu og íslenskrar náttúru. Stuðlabergsformið var honum ekki hvað síst hugleikið og þess sér stað á ýmsum byggingum hans, ekki hvað síst Hallgrímskirkju, en líka Þjóðleikhúsinu. Hann kom líka fyrstur manna fram með þær hugmyndir að nýta hrafntinnu, kvars og silfurberg til að húða yfirborð steinsteyptra veggja sem hefur haft mikil áhrif á útlit íbúðahverfa sem risu á fjórða, fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Hér er ekki rúm til að rekja sögu Guðjóns Samúelssonar frekar, en látum myndirnar og teikningarnar tala sínu máli. – Björn Jón Bragason