HRB-4-6-6 001

Hjálmar R. Bárðarson

 

Hjálmar R. Bárðarson fyrrverandi siglingamálastjóri var afkastamikill áhugaljósmyndari og gaf út fjölda bóka með myndum af landi og þjóð. Hér getur að líta svarthvítar myndir úr safni hans, bæði landslagsmyndir og listrænar myndir.

HRB-4-6-6 001
HRB-4-6-6 001

Ljósmyndaferill Hjálmars (1918-2009) spannaði tæp áttatíu ár. Hann lifði þrjú skeið í ljósmyndatækni; svarthvítar myndir, litmyndir og stafrænar myndir. Í safni hans eru um 70 þúsund svarthvítar myndir frá tímabilinu 1932 til 1988 en nýjar eftirtökur hafa nú verið gerðar eftir úrvali þessara mynda. Hjálmar átti fjölbreyttan feril miðað við aðra íslenska áhugaljósmyndara. Hann fór til náms í Danmörku og starfaði þar í félagasamtökum áhugaljósmyndara. Hann sýndi víða um heim og fékk birtar myndir í erlendum ljósmyndablöðum. Enginn annar Íslendingur var jafn virkur á því sviði. Hjálmar gerði tilraunir með listræna ljósmyndun og sótti sér innblástur víða, meðal annars til súrrealista á borð við Man Ray og Angus Mc Bean.
Á sýningunni í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands getur að líta myndir frá því snemma á ferli Hjálmars og fram á 8. áratuginn. Hann myndaði í borg og sveit. Myndir hans úr Hornstrandaferð árið 1939 eru einstakar þar sem hann fór um og myndaði áður ómyndaðar slóðir og samfélag sem var að líða undir lok. Áratugum síðar var hann aftur á ferð um sömu slóðir og sést vel í þeim myndum hvernig mannvirkin hafa hrörnað og náttúran er að ná yfirhöndinni. Hjálmar myndaði eldgosin í Surtsey og Vestmannaeyjum, síldina á Siglufirði og listamenn að störfum. Þó hann væri embættismaður í fullu starfi fann hann tíma til að sinna þessari ástríðu sinni.
Árið 1953 gaf Hjálmar út Ísland farsælda frón, fyrstu ljósmyndabókina eftir íslenskan ljósmyndara sem er heildstætt höfundarverk. Hjálmar gaf síðan út fjölda bóka um náttúru Íslands með eigin myndum og textum, til dæmis bók um Vestfirði, Hvítá, eldvirkni og fugla. Ljósmyndir hans og ritverk áttu þátt í því að vekja athygli á sérstakri náttúru landsins.
Eftir andlát Hjálmars kom fram að hann hafði ráðstafað öllum eigum sínum til sex félaga og stofnana. Það eru Landgræðsla ríkisins, Landgræðslusjóður, Byggðasafn Vestfjarða, Fuglaverndarfélag Íslands, Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni og Víkin – Sjóminjasafnið í Reykjavík. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni erfði einnig myndasafn Hjálmars bæði filmusafn og pappírsmyndir.
Hjálmar arfleiddi Þjóðminjasafnið að auki að miklu magni skjala og gagna og er hluti þeirra til sýnis sem nokkurskonar klippimynd af lífsferli þessa atorkusama manns. Það er von safnsins að arfur Hjálmars megi nýtast fræðimönnum og öðrum áhugasömum til rannsókna á ferli Hjálmars og íslenskri ljósmyndun um ókomin ár.
Í sýningarbókinni Hjálmar R. Bárðarson í svarthvítu er úrval mynda af sýningunni auk greinar um Hjálmar eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur. Þjóðminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir, ritar formála en ritstjóri er Bryndís Sverrisdóttir. Samhliða sýningunni verður úrval bóka Hjálmars fáanlegt í safnbúð á ýmsum tungumálum.

Hjálmar R. Bárðarson was a productiv amateur photographer and published a number of books with photographs of Iceland and the Icelandic people. This exhibition shows a variation of black and white photos from his collection, both landscape and artistic pieces.