Aðalvík
Aðalvík liggur í vestur, yst á kjálkanum sem tilheyrir Hornstrandafriðlandi. Víkin er allbreið, um það bil 7 kílómetrar eru á milli fjalla. Norðan hennar er Straumnes og yst á nesinu er Straumnesfjall og innar tekur Látrafjall við. Undir því er sérkennileg hvilft sem kallast Kvíin. Slíkar hvilftir eða skálar má finna víða á Vestfjörðum. Hún hefur myndast undan svokölluðum skálarjökli sem hreyfist stöðugt í hringi. Þar sem þetta gerist við ströndina líkjast skálarnar helst stuttum dölum. Hinum megin við Straumnes er Rekavík.

0688bjornrur_adalvik_nordur-vestfirdir-landogsaga
Suðurströndin er stórbrotið fjalllendi. Yst er Ritur sem nær 482 metra hæð, en að ofanverðu er fjallið slétt eins og skorið hafi verið ofan af því. Undir hlíðinni gengur berggangurinn Stapi fram í sjóinn og státar af fjörugu fuglalífi líkt og Ritur sjálfur. Inn frá Rit gengur annar dalur, Skáladalur, þar sem fyrr á tímum var mikil verstöð. Upp af dalnum eru Ritaskörð þar sem dranginn Darra er að finna. Milli Víkurbotna og Skáladals stendur Tindafjall og undir því er básinn Kirfi. Hinu megin, milli Rits og Jökulfjarða, er snarbrött hlíð, Grænahlíð.0788bjornrur_straumnesviti-straumnesfjall-til-adalvikur-vesfirdir-landogsaga

Darri var talinn bústaður góðra vætta sem vernduðu sjófarendur. Þar er einnig að finna rústir radarstöðvar sem Bretar byggðu árið 1942 og notuðu í síðari heimsstyrjöld. Strengbraut var lögð neðan úr byggðinni upp á fjallsbrúnina og voru öll aðföng flutt eftir henni. Þaðan lá síðan góður vegur upp að varðstöðinni. Strengbrautin var rifin í lok stríðsins en undirstöður hennar standa enn og er góð göngubraut eftir þeim upp fjallshlíðina. Ennþá má sjá rústir hernaðarmannvirkja uppi á fjallinu, m.a. rústir skála, ratsjárhús og vélbyssustæði.
0698bjornrur_adalvik_mannfjall-icelandic-times
Í botni Aðalvíkur er talsvert undirlendi beggja vegna Hvarfnúps sem gengur sæbrattur í sjó fram. Upp af undirlendinu ganga margir dalir, m.a. Staðardalur, Þverdalur og Skáladalur. Þar eru víða grösugar og góðar engjar, enda hefur allur gróður fengið að vaxa óáreittur síðan byggðin lagðist í eyði. Í Skáladal stóð áður mikil verstöð þar sem nú er grænn blettur á sjávarbakkanum. Reru þaðan nærsveitamenn og jafnvel lengra að komnir. Þar var talið reimt og jafnvel illvært á stundum. Var sagt að margir hefðu farið illa út úr næturgistingu í Skáladal. Í Stakkadal var áður bær, þar skammt frá er Skjónuhylur í Stakkadalsós. Þar féll Skjóna, hryssa Jóns bónda, niður um ís og drukknaði. Jón varð seinna sjálfur úti á Látramel þar sem kallað er Jónsklakkur. Sagan segir að draugurinn Móri hafi verið vakinn upp gegn Stakkadalsbónda um miðja 19. öld, fylgdi hann síðan niðjum hans og gerði þeim ýmsa skráveifu. Nokkuð dró úr krafti draugsins eftir að Staðarprestur hafði átt við hann. Það var þó ekki fyrr en bóndinn í Miðvík, sem talinn var fjölkunnugur, kvað drauginn niður að hann hætti að láta á sér kræla. Í Þverdal stendur reisulegt hús sem er vel við haldið.

Í Staðardal er Staðarvatn. Í því á að vera nykur sem gerir fólki í grenndinni glennur. Sagt er að hann leitist við að hlaupa með menn í vatnið og drekkja þeim. Kirkjustaður var að Stað þar til jörðin fór í eyði árið 1945. Kirkjan og prestssetrið standa enn.

Miðvík er norðan Hvarfnúps, þar stóð bærinn Efri-Miðvík sunnarlega undir fjallsrótunum. Bærinn fór í eyði árið 1946. Þar bjó um miðja 18. öld Ebenezer Jónsson sem síðar bjó á Dynjanda í Leirufirði. Hann var talinn fjölkunnugur. Ekki var vinskapur mikill með Ebenezer og nágranna hans á næsta bæ. Eins má þar sjá hálffallin bæjarhús Neðri-Miðvíkur á kafi í hvönn, þar sem Jón Guðlaugsson bjó á síðari hluta 18. aldar. Hann var frægur kraftakarl, mikill íþróttamaður og vel hagmæltur þó ekki hafi varðveist mikið eftir hann.

0687bjornrur_adalvik_sudur_saebolssvaedid
Í Aðalvík var stunduð bæði sjósókn og búskapur. Víkin stendur fyrir opnu hafi og hefur lending báta verið erfið, en á móti kemur að stutt er til fiskimiða. Þar sem höfnin var engin þurfti að draga alla báta á land þegar veður skipuðust í lofti. Skammt frá Staðardal, sunnan Hvarfnúps, er Sæból, sjávarþorp sem allt að 80 manns byggðu í kringum aldamótin 1900. Um 1920 bjuggu þar 60 manns en 40-50 manns í nærliggjandi bæjum. Um miðja 20. öld lagðist byggðin í eyði. Nú hefur hvönnin náð yfirhöndinni og þekur gömlu túnin, sums staðar mannhæðarhá. Einn íbúi Sæbóls var Finnur Gestsson sem oft var nefndur Galdra-Finnur. Frá Sæbóli og upp á fjallsbrún má sjá rústir strengbrautar sem lögð var til að flytja sjóföng að varðstöðinni í Skáladal.

Látrar er annað eyðiþorp í Aðalvík norðanverðri, milli Bjarnadals og Látrafjalls í svonefndu Látralægi. Þar bjuggu um 120 manns árið 1920 og var það stærsta byggð í Ísafjarðarsýslu norðan Djúps. Skömmu fyrir aldamót byggðu sjálfboðaliðar þar skóla og 1905 varð þorpið löggiltur verslunarstaður. Upp úr því var þar allmikil útgerð mótorbáta. Einna kunnastur útgerðarmanna var Gunnar Friðriksson, fyrrverandi forseti Slysavarnarfélags Íslands. Vestan við Látra er að finna leifar hernaðarmannvirkja á Straumnesfjalli sem byrjað var að reisa 1953, en ameríski herinn var með eftirlitsstöð að Skorum til ársins 1960. Þá var akfær vegur lagður frá Látrum upp á fjallið og flugvöllur byggður innan við þorpið.

Sem minnisvarði um þennan gróskutíma stendur grunnur gamla skólans enn í brekkunni og þar markar fyrir grjóthleðslum. Einhverjar leifar af bryggjunni sem styrkt var með grjótgarði bandaríska hersins skömmu eftir brottflutning íbúanna. Einnig má sjá rústir gömlu íbúðarhúsanna í tveimur röðum út með hlíð Látrafjalls. Önnur röðin stendur fremst á sjávarbakkanum og hin ofar í hlíðinni. Hvert húsanna hefur sitt nafn. Vegur liggur frá bryggjunni inn að Naustbala, þar sem sjávarhús Látrabænda stóðu. Þar er nú skýli Slysavarnarfélagsins.

Frá Látrum er hægt að ganga bak við fjallið og um Grasadal að Rekavík bak Látur eða um Bjarnadal í austurátt að Glúmsstöðum við Fljótavatn. Ef haldið er í norður um Tunguheiði er komið niður í Tungudal ofan við Tungu í Fljótavík. Þá er einnig hægt að ganga gamla herveginn upp að Skorum. Vanir fjallgöngumenn geta síðan reynt að komast niður í Straumnesdal og að vitanum. Skammt þar frá í stórgrýtisurðinni má sjá leifar af Goðafossi eldri sem strandaði þarna árið 1916 í jómfrúarferðinni.

Síðast var búið í Aðalvík 1952. Mörg húsin standa enn, sérstaklega að Látrum, og er mörgum ágætlega við haldið af afkomendum Aðalvíkinga sem dvelja þar langdvölum á sumrin. Þegar gengið er á milli byggðarlaganna þarf að komast fyrir Hvarfnúp. Núpurinn torveldaði allar samgöngur fyrrum og því var göngustígur, Hyrningsgata, ruddur í skriðurunna hlíðina. Hún er nú ófær og því verður að ganga fjöruna og klifra yfir klettana.

Frá Sæbóli er hægt að ganga á fjöru meðfram ströndinni út í Skáladal og þaðan upp á Rit, það tekur 4-5 tíma báðar leiðir. Frá Sæbóli er einnig hægt að ganga til Hesteyrarfjarðar. Þá er ýmist farið um Staðardal að Sléttu á Sléttunesi og þaðan inn með Hesteyrarfirði eða um Þverdal á milli Hvarfnúps og Nasa. Þá er komið niður að Hesteyri ef sveigt er fyrir Litlafell og gengið milli þess og Nóngilsfjalls. Frá Miðvík er greið gönguleið um Hesteyrardal eða Þverdalsdrög til Hesteyrar. Þriðji valkosturinn er að ganga til Hesteyrar frá Látrum um Stakkadal og Hesteyrardal. Upp frá Látrum er einnig gönguleið yfir til Fljótavíkur um Tunguheiði eða Tröllaskarð.