Aldís Snorradóttir og Ingibjörg Hannesdóttir

Aldís Snorradóttir og Ingibjörg Hannesdóttir.

Nýir starfsmenn ráðnir til Listasafns Reykjavíkur
Aldís Snorradóttir og Ingibjörg Hannesdóttir hafa verið ráðnar verkefnastjórar í deild sýninga og miðlunar í Listasafni Reykjavíkur.

Aldís Snorradóttir og Ingibjörg Hannesdóttir

Aldís er með meistaragráðu í listasögu frá Leiden háskóla í Hollandi og BFA í sama fagi frá Concordia háskóla í Montréal í Kanada. Hún hefur víðtæka reynslu af miðlunarstörfum í tengslum við myndlist, ýmist úr gallerírekstri, safnastarfi, sem og við textagerð, skipulag viðburða og önnur verkefni. Aldís hefur mikla þekkingu og innsýn í íslenska og alþjóðlega samtímalist ásamt yfirgripsmikilli þekkingu á listasögunni. Í meistararitgerð sinni greindi hún safneignir einkastofnana hér á landi út frá listasögulegu vægi og menningarlegu hlutverki. Aldís var stofnandi og framkvæmdastjóri Þoku gallerís, gegndi stöðu framkvæmdastjóra Hverfisgallerís og hefur starfað sem verkefnastjóri hjá Listasafni Reykjavíkur. Hún hefur að auki BSc gráðu í viðskiptafræði og starfaði um tíma í fjármálageiranum.

Ingibjörg er með meistaragráðu í mennta- og menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst auk kennsluréttinda B.ed. frá myndlistarkennaradeild Kennaraháskóla Íslands. Hún hefur mikla reynslu af kennslu, bæði sem listgreinakennari og umsjónakennari í grunnskólum til margra ára auk reynslu sem verkefnastjóri á ýmsum skólastigum. Í meistararitgerð sinni greindi Ingibjörg samstarfslíkön skólakerfis og liststofnana með hliðsjón af umhverfi þeirra og stjórnun. Hún hefur stýrt þróunarverkefni um myndlistarsmáforrit í samstarfi Kópavogsbæjar, Menntamálastofnunar og Listasafns Íslands, unnið að spjaldtölvuinnleiðingu innan skólakerfis Kópavogsbæjar og stýrt verkefnum á Barnamenningarhátíð og Vetrarhátíð. Ingibjörg hefur að auki ástundað nám í stjórnun og forystu sem og menntun og upplýsingatækni við Háskólann á Akureyri.
Alls bárust fjörutíu umsóknir um störfin.