Valin bygging ársins í Noregi árið 2017
Arkitektastofan Arkís hannaði sundhöll í bæjarfélaginu Asker í Noregi sem var fyrr á þessu ári valin bygging ársins í Noregi árið 2017. Arkís vann ásamt Verkís að byggingunni.
„Við höfum verið að taka að okkur verkefni í Noregi frá því árið 2013,“ segir Aðalsteinn Snorrason, arkitekt hjá Arkís og einn eigenda teiknistofunnar, „og sagði norski verkefnastjórinn í upphafi verksins að við værum að fara að teikna sundlaug á flottustu lóð í Noregi; það er svolítið til í því. Það þekkja flestir heimamenn ströndina í Asker.
Stýring á öllu verkefninu gekk mjög vel og okkur hugnaðist vel áherslur sveitarfélagsins sem væri sjálfbær bygging. Það þýðir að byggingin er einangruð sérstaklega vel. Borað var fyrir 15 orkubrunnum og varminn tekinn úr jörðinni og síðan eru 650 fermetra sólarsellur á húsinu.“ Við þetta má bæta að sundlaugarbyggingin þykir leggja ný viðmið í vistvænni hönnun og orkunotkun.
Þakið hluti af útivistarsvæðinu
Aðalsteinn segir að arkitektarnir og fleiri hafi viljað að þak byggingarinnar yrði hluti af útivistarsvæðinu. „Þakið er bara grasflöt. Það er gönguleið í kringum hana og eru handrið í sömu hæð og grasflötin þannig að þegar lagst er í grasið á þakinu þá hefur fólk algjörlega óhindrað útsýni yfir Oslóarfjörðinn.“
Útsýnið yfir fjörðinn var einnig haft í huga við hönnun glugganna á byggingunni sem snúa út að firðinum en þeir sem eru ofan í sundlauginni hafa óhindrað útsýni út á fjörðinn. „Við lögðum mikið upp úr því að gluggapósturinn væri aldrei hærri heldur en vatnið í lauginni.“
Byggingin er klædd með lerki að utan. „Það var mjög gaman að vinna að því vegna þess að þar reis handverkið hæst hjá Norðmönnunum vegna þess að fyrirtækið sem sá um klæðingu hússins átti sinn upphaflega bakgrunn í skipasmíði þannig að þeir voru mjög færir í allri samsetningu á timbri. Þetta eru miklir fagmenn.“
Fyrirmynd
Aðalsteinn segir að sundlaugin í Asker sé sú fyrsta í Noregi þar sem lögð er áhersla á sjálfbærni með viðmið orkusparandi húss í huga. „Þessi sundhöll mun verða að mörgu leyti fyrirmynd fyrir aðrar sundhallir næstu árin vegna þess að við fórum þessa leið. Og líka þetta að vera með lifandi þak – það breytti öllu. Auðvitað er Óperuhúsið í Osló eldra og þar getur fólk gengið upp á þak sem og á þak jöklasafnsins sem Sverre Fehn hannaði fyrir um 30 árum. Það er bara þannig að ef maður er með spennandi hús og fólk kemst upp á þak þá fara allir upp á þak.“
Fleiri verkefni
Aðalsteinn segir að það skipti miklu máli fyrir Arkís að sundhöllin hafi verið valin bygging ársins í Noregi árið 2017. „Við teljum að þessi verðlaun þýði að það verði engar efasemdir um okkar faglegu getu þegar við sækjum um verkefni í Noregi. Það er öruggt að við eigum eftir að vinna fleiri verkefni í Noregi. Íslenskir aðilar hafa í kjölfarið leitað meira til okkar með sundlaugarverkefni en um leið og maður er búinn að brjóta ísinn almennilega erlendis þá opnast margar dyr hérna heima. Við erum að byrja á einu sundlaugarverkefni á Íslandi sem er algerlega í frummótun og er auk þess búið að hafa samband við okkur vegna annars slíks verkefnis.“