Austurvöllur

Teikning Aage Nielsen-Edwinaf Austurvelli og nágrenni árið 1801.

Fyrr á öldum, þegar Austurvöllur var besta tún Víkurbóndans, var hann mun stærri en nú. Völlurinn náði frá Aðalstræti austur að Lækjargötu og frá malarkambinum við Hafnarstræti að Tjörninni og var syðsti hluti hans nefndur Tjarnarvöllur.

7. júlí 1915, hátíðarstemming á Austurvelli í tilefni að nýfengnum kosningarétti kvenna sem staðfestur var af konungi 19. júní sama ár.     Pósthússtræti 11, Pósthússtræti 13.

Þegar Dómkirkjan var byggð 1788-1790 var grjótið sem nota átti til byggingarinnar geymt á Austurvelli, en það kom úr Grjótaþorpinu.

19. júní 1919, Kvenfrelsisdagurinn á Austurvelli í Reykjavík. Skrúðganga, Austurvöllur, fólk.  Landsbankinn, Austurstræti 11. Bygging Nathans og Olsens, Austurstræti 16, Pósthússtræti 9.

Uppúr aldamótunum 1800 var Austurvöllur svo illa farinn, vegna átroðnings og torfskurðar að það var kært. Í kjölfarið bannaði  Frydensberg bæjarfógeti torfskurð þar í leyfisleysi. Hann lýsti vellinum svo 1806 að hann hafi áður verið til gagns og prýði en sé nú orðinn sem vanhirt mómýri. Lítið var gert fyrir þetta svæði framan af utan þess að formlegt bann við ösku- og sorplosun þar var sett árið 1806. Völlurinn var votlendur og dældóttur og kom það í veg fyrir að byggt væri á honum.

Sennilega 17. júní 1912, reiptog eða reipdráttur óþekktan góðviðrisdag á Austurvelli. Hópur áhorfenda fylgist með úr fjarlægð fyrir utan járngirðinguna við Thorvaldsensstræti og Vallarstræti. Í húsinu lengst til vinstri bjó Steingrímur Thorsteinsson sitt æviskeið en hægra megin við það er gamli Kvennaskólinn. Hægra megin við miðju er Ísafold, en þar voru skrifstofur Morgunblaðsins lengi til húsa. Ísafoldarhúsið stendur nú við Aðalstræti 12. Lengst til hægri sést gaflinn á Hótel Reykjavík þar sem bruninn mikli kom upp árið 1915.       Ljósm. Magnús Ólafsson

Eftir því sem byggðin þéttist fór Austurvöllur minnkandi og varð síðar tjaldstæði sveitamanna í kaupstaðarferðum á 19. öld. Ýmsir útlendingar sem heimsóttu bæinn tjölduðu líka á vellinum.

30. mars 1949, mótmæli á Austurvelli. Hópur manna mótmælir inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalaðið, NATO. Í baksýn eru Alþingishúsið og Dómkirkjan. Hópur manna mótmælir inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið, NATO á Austurvell 30. mars 1949.  Ljósm. óþekktur

Árið 1874 færði bæjarstjórn Kaupmannahafnar Reykvíkingum höggmynd að gjöf og var það sjálfsmynd eftir Bertel Thorvaldsen myndhöggvara. Bæjarstjórnin ákvað  að hún myndi sóma sér best á miðjum Austurvelli. Sumarið 1875 var völlurinn girtur, sléttaður og tyrfður og gerðir um hann gangstígar. Höggmyndin var afhjúpuð með viðhöfn  19. nóvember 1875, á afmælisdegi listamannsins, og var fyrsta stytta sem sett var upp í Reykjavík.

1. maí 1924, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins haldinn í annað sinn í Reykjavík. Hér er hópurinn komin inn á Austurvöll með alvöruþrunga sinn og kröfuspjöld, en gangan hófst við Bárubúð í Vonarstræti. “Lifi heimsbyltinginn”, “burt með íhaldsbraskið” hrópa göngumenn á meðan allnokkur hópur karlmanna og kvenna halda sig til hlés utan við girðinguna. Í bakgrunni er Landsbankahúsið nýrisið upp úr öskustó miðbæjarbrunans, endurbyggður og töluvert stærri en áður.
Alþjóðlegur hátíðsdagur verkamanna. Mótmælafundur á Austurvelli. Reykjavíkurapótek, Landsbankinn, mótmælaspjöld, Pósthúsið. 1. maí haldinn hátíðlegur í annað skipti. Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins haldinn í annað sinn í Reykjavík 1. maí 1924. Ljósm. Ingimundur Sveinsson.
1905, Austurvöllur. Stytta af Bertel Thorvaldsen, Thorvaldsensstræti 6, apótekið Kirkjustræti 4, Aðalstræti 16. Austurvöllur árið 1905. Stytta af Bertel Thorvaldsen, sem seinna var flutt í Hljómskálagarðinn.  Ljósm. Magnús Ólafsson.

Árið 1930 var girðingin tekin niður og völlurinn opnaður. Árið 1931 var sjálfsmynd  Bertels færð í Hljómskálagarðinn en styttan af Jóni Sigurðssyni forseta kom í staðinn. Einar Jónsson myndhöggvari gerði hana og Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, gerði stöpulinn.

Desember 1983, verið að kveikja ljósin á jólatréinu á Austurvelli. Dómkirkjan, Hótel Borg og Alþingi í baksýn. Mikill mannfjöldi fylgist með skemmtiatriðum. Ljósin tendruð á Oslóartrénu árið 1983. Ljósm. Jim Smart
Teikning Aage Nielsen-Edwin af Austurvelli og nágreni árið 1820.

Á fyrstu áratugum 20. aldar var oft búið til skautasvell á vellinum að vetralagi og var þar þá líf og fjör.

Margs konar skemmtanir hafa farið fram á Austurvelli í áranna rás og  Reykjavíkingar hafa iðulega safnast þar saman ýmist til hátíðahalda eða mótmælafunda. Ein fyrstu mótmæli  sem þar áttu sér stað voru vegna símamálsins svonefnda árið 1905 en þá komu þúsundir manna saman við Austurvöll. Inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið var mótmælt hér 30. mars 1949. Þá kom til átaka og beitti lögreglan kylfum og táragasi gegn mannfjöldanum. Árlega fjölmenna Reykvíkingar  á Austurvöll á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, þegar blómsveigur er lagður að styttu Jóns Sigurðssonar og á jólaföstu þegar kveikt er á jólatrénu frá Óslóarbúum. Eftir efnahagshrunið haustið 2008 varð Austurvöllur vettvangur mótmælafunda. Fólk safnaðist þar saman, hlýddi á ræður og barði á potta og pönnur til þessa að láta í ljós reiði sína yfir ástandinu. Gengu þessar aðgerðir undir nafninu Búsáhaldabyltingin.

19. september 1932, skoskt sauðfé bítur gras á Austurvelli einn septemberdag árið 1932. Féð, sem var af Border Leicester kyni, vakti talsverða athygli í höfuðstaðnum og lögðu margir leið sína niður í bæ til að sjá þessa framandlegu gesti. Daginn eftir var fénu skipað um borð í skip sem flutti það norður í Þingeyjarsýslu. Innfluttningur fjárstofnsins var liður í landbúnaðartilraun á vegum íslenska ríkisins og hafði féð verið í einangrun úti í Þerney allt frá því að það kom til landsins, rúmlega þremur mánuðum áður. Kona sem ber í inngang Hótel Borgar er Þórdís Dagbjört Davíðsdóttir fædd í Stöðlakoti í Reykjavík (1903-1998), við hlið hennar er dóttir hennar Guðrún Dagný Ágústsdóttir f. 10.12.1929.

Núverandi skipulag Austurvallar er frá árinu 1962 og var mótað af Sigurði Alberti Jónssyni, þáverandi forstöðumanni Grasagarðsins í Reykjavík og lagt fyrir borgarráð af Hafliða Jónssyni garðyrkjustjóra. Árið 1999 var skipulagið einfaldað samkvæmt teikningum Þórólfs Jónssonar landslagsarkitekts.