Birtan sem skapar umhverfið okkar – Verkís með opið málþing um sjálfbærni í lýsingarhönnun

Birtan sem skapar umhverfið okkar – Verkís með opið málþing um sjálfbærni í lýsingarhönnun
-Verkís með opið málþing um sjálfbærni í lýsingarhönnun

Ráðgjafarfyrirtækið Verkís mun standa fyrir opnu málþingi þann 13. október næstkomandi, um sjálfbærni í lýsingarhönnun þar sem virtir erlendir fyrirlesarar munu miðla nýjum rannsóknum og þeim möguleikum sem fólk hefur á að bæta umhverfi sitt og vellíðan með birtunni í umhverfi sínu. En sjálfbær lýsingarhönnun, einsog sjálfbær hönnun, er þegar að í hönnunarferlinu eru skilgreindir þættir við hönnunina sem samræmast eiginleikum til sjálfbærni. Þórdís Rós Harðardóttir, iðn- og ljósahönnuður hjá Verkís, segir að forsendur ljósahönnunar hafi tekið miklum breytingum og rannsóknir sýni að aðgengi fólks að dagsbirtu sé manneskjum líffræðileg nauðsyn.

Verkís hefur sinnt ráðgjafar- og umsjónarhlutverki í Bleika boðinu, sem er í þágu átaks Krabbameinsfélagsins, í fjögur ár, en hér má sjá verk nemenda í lýsingarhönnun í Tækniskólanum veturinn 2008-2009.

Áhrifavaldar í ákvarðanatöku við hönnun bygginga eru margþættir og segir Þórdís að hönnun lýsingar hafi gjarnan verið flokkuð sem ill nauðsyn sem þurfi fyrst og fremst að uppfylla kröfur reglugerða um birtustig á láréttum fleti. „Sannleikurinn er þó sá, að ef ekki er birta í umhverfi okkar, þá getum við illa athafnað okkur. En það liggur fleira að baki birtu í rýmum bygginga en hin einfalda aðgerð að draga gluggatjöldin frá eða teygja sig í rofann og kveikja. Við hönnun lýsingar eru rými skilgreind af arkitektum og þeim mun ítarlegar sem rýmin eru skilgreind í þáttum notkunar og efnisáferða, þeim mun auðveldar er fyrir lýsingarhönnuð að taka ákvarðanir um ljósgjafa sem samræmast notkun rýma til daglegra og eða árlegra athafna.

R‡hœsi - Bleika ly«singinLíffræðileg nauðsyn
Hingað til hefur venjan verið sú að lagt hefur verið fyrir lömpum í byggingar án þess að tekið sé tillit til þess að dagsbirta hafi veruleg áhrif á birtu innan bygginga. Dagsbirtan er tekin sem sjálfgefin og á tímabili í sögu arkitektúrs 20. aldarinnar voru skrifstofubyggingar jafnvel hannaðar sérstaklega aflokaðar frá áhrifum umhverfisþátta svo manngerð lýsing væri undir fullkomnu eftirliti birtustigs á vinnusvæðum. Í dag er öldin önnur og rannsóknir sýna að mikilvægi dagsbirtu, aðgengi að upplýsingum um umhverfið og skynjun okkar á breytileika birtunnar með tilliti til tímaskyns eru okkur líffræðilega nauðsynleg. Til dæmis þarf hönnun lýsingar í spítala sérstaka aðgæslu þar sem þarfir sjúklingsins til notkunar birtu eru mjög ólíkar þörfum hjúkrunarfólksins, en slæm hönnun lýsingar getur hreinlega hamlað öryggi og batahorfum sjúklings,“ segir Þórdís.

Rannsóknir sýna að mikilvægi dagsbirtu, aðgengi að upplýsingum um umhverfið og skynjun okkar á breytileika birtunnar með tilliti til tímaskyns eru okkur líffræðilega nauðsynleg.

Binder1_img_56Ending og aðlögun til framtíðar
Þórdís segir að umræðan í dag varðandi þróun samfélaga sé gjarnan sett í samhengi við sjálfbærni, en það hugtak var innleitt í nefnd Sameinuðu Þjóðanna um þróun umhverfis árið 1983 að frumkvæði Brundtland nefndarinnar. Sjálfbærni manngerðra samfélaga er skilgreind með hæfni þeirra til endingar og aðlögunar til framtíðar. „Ef stefnumótun í hönnun mannvirkja fyrir komandi kynslóðir verður skilgreind undir merkjum sjálfbærni þá fellur lýsing mannvirkjanna einnig undir þá skilgreiningu. Grunn undirstöður sjálfbærni manngerðra samfélaga eru þrjár og felst í innleiðingu hagkvæmni, félagslegra og umhverfisvænna gilda, svo hægt sé að uppfylla þarfir nútímans en hamli ekki samfélögum framtíðarinnar til að uppfylla sínar þarfir.

Guðjón L. Sigurðsson, Lýsingarhönnuður PLDA, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Lýsingarhönnuður / Innanhússarkitekt fhi og Þórdís Rós Harðardóttir, Iðnhönnuður / Lýsingarhönnuður MSc. Ljósm. Villi.

Stór þáttur í rekstri bygginga
Þegar hönnun lýsingar er skilgreind, þá þarf hún að samræmast mörgum þáttum. Fyrst og fremst þarf lýsingin að uppfylla þarfir þeirra sem nota rýmin og tilgangi notkunar þeirra. En tilgangur með rýmunum getur verið breytilegur miðað við daglegar þarfir og er einnig árstíðabundinn. Lýsingin þarf einnig að vinna með formum arkitektúrsins sem þrívídd og leiðbeina á umferðasvæðum. Lýsing er stór þáttur í rekstri bygginga og geta ákvarðanir við kaup á lýsingarbúnaði og stýringum haft mikil áhrif á rekstrartölur til lengri tíma. Þegar lýsingarhönnun er sett í samhengi við sjálfbærni eru gjarnan sett samasem merki á orkusparnað og umhverfisáhrif, innkaup á lömpum og hagkvæmni meðan félagslegi þátturinn gleymist gjarnan,“ segir Þórdís.

Kevan Shaw, forsvarsmaður sjálfbærni í lýsingarhönnun hjá alþjóðlegum samtökum lýsingarhönnuða PLDA og einn af fyrirlesurum málþings Verkís, leggur ríka áherslu á að þegar lampar eru valdir, þurfi að skoða þá í samhengi við heildarmyndina. Það eru: tegund birtunnar og tilgangur með henni, kerfið sem knýr hana, samræming kerfanna og líftími þeirra. Engan veginn dugi að taka einn þessara þátta án þess að skilja áhrif þáttanna í heild.

 Binder1_img_54
Birtan hefur áhrif á líkama og sál
Þórdís segir að í ljósi breyttra aðstæðna í mannvirkjagerð hér á Íslandi, séu þó tækifæri til endurmats og uppbyggingar fyrir nýja tíma og nýjar stefnur. „Raunhæft er að ætla að áherslur í framtíðinni verði á hönnun lýsingar með tilliti til orkusparnaðar og vellíðunar þeirra sem innan bygginganna eru. Fram eru að koma rannsóknir sem undirstrika nauðsyn þess að menn fái aðgengi að dagsbirtu og breytileikanum sem henni fylgir. Dr. George C. Brainard, taugafræðingur, er með kenningar um hversu áhrifamikil birtan, í okkar næsta umhverfi, er á okkur og vísar í rannsóknir sem hann hefur í áraraðir unnið með Geimferðastofnun Bandaríkjanna. En sannanir eru fyrir því að birta hefur áhrif á líkamsstarfsemi og tilfinningar okkar auk þess að hjálpa okkur við sjónrænar athafnir okkar.

Binder1_img_53Samtímis er þróun að eiga sér stað við greiningu á dagsbirtu í arkitektúr með það að markmiði að ná fram orkusparnaði bygginga. Almenna greiningin tekur fyrst og fremst mið af dagsbirtu með skýjafari og tilgreinir dagsbirtustuðul í rýmum. Óbeisluð getur dagsbirtan þó valdið óþægindum. En með greiningu á dagsbirtunni geta hönnuðir tekið meðvitaðar ákvarðanir um hvar í byggingunni þurfi að gera varúðarráðstafanir og hvers konar stýringar og búnaður geti nýtt dagsbirtuna en hamlað óþægindum sem glýjuvaldandi sólargeislar geta valdið á vissum tímum dags og árs. Merete Madsen, PhD Lýsingararkitekt, hefur starfað við greiningu dagsbirtu í fjölda ára og bendir á nauðsyn þess að við dagsbirtuhönnun sé ekki nóg að skilgreina birtustig á láréttum fleti, einsog reglugerðin um lýsingu vinnustaða fer fram á, heldur þurfi einnig að koma til móts við upplifun manna á umhverfinu, sem er fyrst og fremst á lóðréttum flötum rýmisins,“ segir Þórdís.