Bjartar nætur

Bjartar nætur

Á þessum árstíma, þegar bjart er allan sólahringin, er hvergi betra að vera á Íslandi en á Norðurlandi. Akureyri í botni Eyjafjarðar, er lang stærsti bærinn á landsbyggðinni, mennta og háskólabær, þjónustumiðstöð fyrir stóran hluta landsins, og auðvitað lykil staður í ferðaþjónustu fyrir norður og norðausturhluta landsins. Í bænum er fjöldi góðra veitingastaða, frábær söfn, eins og Listasafnið á Akureyri, og Safnasafnið gegnt bænum, hinu megin við fjörðin. Frá Akureyri er stutt í Mývatnssveit að Goða- og Dettifossi, í Ásbyrgi, og til Siglufjarðar og Húsavíkur, bæja sem eru vinsælir áfangastaðir allt árið. Nú í júní, hóf nýtt flugfélag Niceair, að fljúga beint til fjögurra áfangastaða, Manchester og London á Englandi, Kaupmannahafnar í Danmörku og til Tenerife suður á Kanaríeyjum. Með þessum tengingum, hefst vonandi gott og spennandi tímabil, sem tengir höfuðstað norðurlands, til hagsbóta fyrir norðlendinga og ferðafólk sem hyggst koma og upplifa norðurlandið í allri sinni dýrð.

Icelandic Times / Land og Saga fór í myndatökuleiðangur um miðnætti í miðbæ Akureyrar til að fanga stemninguna, birtuna sem varir allan sólarhringinn.

Hof menningarhús Akureyrar og alls norðurlands.
Sara ferðamaður frá norður Ítalíu var með vinkonu sinni að dást að miðnæturbirtunni
Hafnarstræti um nótt, aðalverslunargata Akureyrar
Akureyrarkirkja, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og vígð árið 1940 er eitt af þekktustu kennileitum bæjarins

Akureyri 01/06/2022  23:10 – 01:38 : A7R IV : FE 1.2/50mm GM

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson