Bjartsýni

Samkvæmt vef Isavia, sem sér um rekstur íslenskra flugvalla, eru 77 erlendir áfangastaðir í Norður-Ameríku og Evrópu í boði frá Keflavíkurflugvelli. Búist er við met fjölda erlendra ferðamanna til Íslands í sumar, svipaður fjöldi og var fyrir heimsfaraldurinn. Yfir háannatímann í júlí og ágúst er þegar orðið erfitt bæði að finna gistingu á vinsælum stöðum, og bílaleigubíla. Sá erlendur áfangastaður sem er með besta tengingu við Ísland er London, en hvorki fleiri né færri en sex flugfélög fljúga milli höfuðborgar Stóra-Bretlands og Keflavíkur, Easy Jet, Icelandair, British Airways, Wizz Air, Fly Play og Jet2.com. Flogið er til níu borga í Stóra-Bretlandi frá Keflavík, til Belfast, Bristol, Birmingham, Edinburgh, Glasgow, Leeds, London, Manchester, og Newcastle. Flestir áfangastaðir frá Keflavík eru til Bandaríkjanna, en það er flogið til 13 borga þar.

 

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Þotuhreiður Magnúsar Tómassonar fyrir framan bygginguna. Vinstra megin á myndinni má sjá byggingarkrana, en það er verið að byggja við, stækka flugstöðvarbygginguna um 30%, og verður framkvæmdum lokið eftir tvö ár. 

Brottfararsalurinn í flugstöðinni. Frá Keflavíkurflugvelli er flogið til 77 áfangastaða, vestastur er Anchorage í Alaska, nyrstur er Nuuk höfuðborg Grænlands, syðst er flogið til Orlando í Florida, og austast til Vilnius höfuðborgar Litháens. 

 

Keflavík 08/05/2022 14:04-14:49 : A7R III : FE 1.8/14mm GM

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson