Burstafell

Erlendir ferðamenn tveir þriðju safnagesta árið 2019

Rúmlega 2,8 milljónir gesta heimsóttu söfn og sýningar á Íslandi á árinu 2019. Gestum hafði fjölgað um 1,2 milljónir frá árinu 2010, um 74,9%. Sé aðeins horft til safna sem veittu upplýsingar um skiptingu gesta eftir heimalandi voru heimsóknirnar alls 2,15 milljónir og þar af voru 38,8% af hálfu innlendra gesta en 61,2% milljónir erlendra.1Fæstir erlendir gestir hemsóttu dýragarða, bæði hvað varðar fjölda og hlutfallslega skiptingu. Þannig sóttu aðeins tæplega 15 þúsund erlendir gestir dýragarða árið 2019 en 216 þúsund innlendir gestir. Innlendir gestir voru einnig í meirihluta á listasöfnum og voru þannig 66,8% af heildarfjölda gesta eða rúmlega 291 þúsund á móti tæplega 145 þúsund erlendum gestum.

Á náttúrusöfnum og sögusöfnum voru erlendir gestir í meirihluta en aðeins tæplega 29 þúsund innlendir gestir sóttu náttúrusöfn á móti tæplega 340 þúsund erlendum gestum. Erlendir gestir voru þannig 92,2% af heildarfjölda gesta á náttúrusöfnum. Á sögusöfnum var hlutfallið jafnara en slík söfn sóttu 279 þúsund innlendir gestir og 640 þúsund erlendir gestir eða 30,4% á móti 69,6%.

Höfuðsöfn og viðurkennd söfn vinsælli meðal innlendra gesta
Tölfræði um starfsemi safna er nú í fyrsta sinn flokkuð eftir því hvort söfn hafa viðurkenningu safnaráðs eða ekki en með viðurkenndum söfnum flokkast einnig höfuðsöfnin þrjú.2 Alls sóttu 1,36 milljónir gesta samtals 50 höfuðsöfn og viðurkennd söfn árið 2019 en 1,47 milljónir sóttu 65 önnur söfn. Að meðaltali sóttu þannig 27.259 gestir hvert safn á meðal höfuðsafna og viðurkenndra safna en 22.563 hvert annarra safna.

Sé aðeins horft til þeirra safna sem gátu veitt upplýsingar um heimaland gesta voru höfuðsöfn og viðurkennd söfn 33 talsins og gestir þeirra alls 957 þúsund eða 29.000 að meðtali á hverju safni. Önnur söfn voru 59 talsins og gestir þeirra 1,2 milljónir eða 20.285 að meðtaltali á hverju safni. Talsverður munur er á aðsókn eftir heimalandi gesta. Að meðaltali heimsóttu 14.731 innlendir gestir hvert safn á meðal höfuðsafna og viðurkenndra safna en aðeins 5.917 hvert annarra safna. Hlutfallið var jafnara á meðal erlendra gesta þar sem um 14.300 gestir sóttu að meðaltali hvert safn, bæði á meðal viðurkenndra og höfuðsafna og annarra safna.

Starfsfólki safna fækkaði milli 2018 og 2019
Starfsfólki safna fjölgaði á milli 2010 og 2018 en fækkaði lítillega á milli 2018 og 2019. Í árslok 2019 störfuðu 547 manns hjá söfnum en 825 yfir sumartímann. Árið 2018 var starfsfólk 566 í árslok og 901 yfir sumartímann samanborið við 428 og 760 árið 2010. Aðeins launafólk er í talningum en ekki er gerður greinarmunur á starfsmönnum í fullu starfi og hlutastarfi.

Starfsfólk safna er nú í fyrsta sinn flokkað eftir kyni. Konur eru í meirihluta á meðal starfsfólks á söfnum. Á það við hvort sem um sumar eða árslok er að ræða og hvort sem um er að ræða viðurkennd og höfuðsöfn eða önnur söfn. Hlutfall karlmanna er þó ívið hærra á öðrum söfnum eða 38% að sumri og 45% í árslok í samanburði við 32% að sumri og 33% í árslok á viðurkenndum og höfuðsöfnum.

Um gögnin
Tölur Hagstofunnar um starfsemi safna og skyldrar starfsemi taka til safna, setra, safnvísa, fiskasafna og dýragarða sem og skyldra sýninga opnum almenningi sem veita upplýsingar um árlegan fjölda gesta. Gagnasöfnun fer fram á hverju hausti og er upplýsingum þá safnað um árið á undan, þ.e. að gögn fyrir 2019 bárust okkur að hausti 2020.

Árið 2020 var fyrirkomulagi á gagnasöfnun breytt á þá leið að upplýsingar um viðurkennd söfn voru fengin frá safnaráði þar sem skýrslu með sömu upplýsingum og Hagstofa Íslands nýtir í tölfræði um starfsemi safna er skilað inn til ráðsins lögum samkvæmt. Upplýsingum um höfuðsöfn og önnur söfn var safnað af Hagstofunni frá hverju safni fyrir sig.

Gagnasöfnunin nær til starfandi safna á Íslandi eftir lista sem Hagstofa Íslands uppfærir á ári hverju. Listinn nær til viðurkenndra safna samkvæmt skilgreiningu safnalaga að viðbættum setrum og sýningum um menningar- og náttúruminjar sem opnar eru almenningi til sýnis. Frekari upplýsingar má finna í lýsigögnum.

1 80% safna gátu veitt upplýsingar um skiptingu gesta eftir uppruna fyrir árið 2018. Gestafjöldi þeirra safna var 76% af heildargestafjölda allra safna.
2 Höfuðsöfnin eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Höfuðsöfnin eru miðstöðvar safnastarfsemi hvert á sínu sviði, sjá nánar á vefsíðu safnaráðs. Viðurkennd söfn voru 47 talsins árið 2019. Til að fá viðurkenningu safnaráðs þurfa söfn að uppfylla ýmis skilyrði, sjá nánar á vefsíðu safnaráðs.