Listaverk eftir Ernu Guðmarsdóttur verður til sýnis á Naglanum í Borgarbókasafninu Sólheimum í janúar og febrúar. Verkið er fengið að láni úr Artóteki Borgarbókasafnsins, sem er til húsa í Grófinni.

Naglinn er heitið á nýrri sýningaröð á Borgarbókasafninu Sólheimum og er þetta önnur sýningin í röðinni. Áætlunin er að hafa þar ávallt eitt listaverk til sýnis. Hægt er að leigja eða kaupa listaverkin. Jafnframt er hægt að eignast listaverkin með því að leigja þar til þau eru að fullu greidd. Sá sem ákveður að kaupa eða leigja listaverk sem er á Naglanum má velja næsta verk úr Artótekinu sem verður til sýnis.

Erna Guðmarsdóttir er fædd árið 1940 og stundaði nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur á árunum 1955-1959 og í kennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981-1985. Erna hefur unnið að ýmsum þáttum myndlistar, m.a. leikbrúðugerð, tauþrykk, pappamassa, vatnslitun, olíumálun, unnið með leir og málað á silki. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum og haldið einkasýningar á verkum sínum.

Listaverkið sem verður núna til sýnis á Naglanum er málverkið „Krummapar“ frá árinu 2016 og er málað með olíu á striga. Freyja Rein, starfsmaður á Sólheimasafni, valdi verkið að þessu sinni. „Það ríkir viss melankólía yfir myndinni… en það er hreyfingin í verkinu sem grípur mig: Vindurinn sem blæs á móti, æstir krummarnir og fölnaður himininn. Finnst ég bæði heyra og finna fyrir vindinum og tilraun hans að mýkja raddir þeirra sem fara um landslagið.

“Verkið er hægt að leigja á 4.000 kr. á mánuði eða kaupa á 130.000 kr.Nánari upplýsingar um Artótekið, listamanninn og verkið á https://artotek.is