Fógetagarðurinn frá 1893

Þegar Schierbeck landlæknir fór af landi brott árið 1893 seldi hann Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta húsið sitt og afnot af gamla kirkjugarðinum fylgdu með í kaupunum. Anna, kona Halldórs, annaðist garðinn af mikilli alúð næstu áratugina. Frá þessum tíma er komið nafnið Bæjarfógetagarðurinn, eða Fógetagarðurinn, sem enn loðir við hann. Frú Anna Daníelsson var mjög virk í félagsmálum og átti meðal annars sæti í stjórn líknarfélagsins Hringsins og skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík. Hún tók einnig virkan þátt í starfsemi Garðyrkjufélags Íslands og átti sæti í sýningarnefnd vegna garðyrkjusýningar í tilefni 50 ára afmælis þess árið 1935. Anna lést árið 1940. Faðir Reykjavíkur Árið 1954 var komið fyrir í garðinum styttu af Skúla Magnússyni landfógeta (1711-94), sem kallaður hefur verið „faðir Reykjavíkur“. Þegar grafið var fyrir stöpli styttunnar komu í ljós leifar af suðurvegg kirkjunnar sem stóð þar áður. Skúli stofnaði ásamt fleirum ullarverksmiðjur við Aðalstræti um miðja 18. öld, svokallaðar Innréttingar, og áttu þær mikinn þátt í því að Reykjavík óx og dafnaði sem kaupstaður. Enn stendur eitt húsa Innréttinganna, Aðalstræti 10, en það er elsta húsið í miðbæ Reykjavíkur, reist 1762. Þar er nú sýning á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Schierbeck landlæknir, fjölskylda hans og vinnufólk í garðinum um 1893 (Ljósmynd: Daníel B. Daníelsson)

Skrúðgarður frá 1883

Georg Schierbeck fæddist árið 1847 í Óðinsvéum á Fjóni og kom hingað sem landlæknir árið 1882. Schierbeck stundaði nám í garðyrkju áður en hann helgaði sig læknisfræði og hafði mikinn áhuga á henni. Eftir að hann reisti sér hús við norðurenda gamla kirkjugarðsins í Aðalstræti fór hann fram á að fá að stunda þar garðrækt. Hann fékk leyfi til þess að rækta tré og blóm í kirkjugarðinum, sem þá var aflagður, en var gert að reisa timburvegg umhverfis garðinn og greiða 25 kr. á ári fyrir afnotin. Hann mátti þó hvorki flytja neitt burt úr garðinum né reisa þar ný mannvirki. Schierbeck gróðursetti meðal annars silfurreyninn sem enn stendur og er talinn elsta tréð í Reykjavík. Georg Schierbeck var einn af helstu hvatamönnum að stofnun Hins íslenzka garðyrkjufélags árið 1885 og var fyrsti forseti þess.

Fjölskylda Halldórs Daníelssonar bæjarfógeta og frú Önnu Daníelsson í garðinum um 1895 (Ljósmynd: Daníel B. Daníelsson)

Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is