Gatan hans Tryggva

Reykvíkingar hafa eignast nýtt almenningsrými með endurgerð Tryggvagötu sem nú var að ljúka. Hefur orðið til nýtt torg fyrir framan mósaíklistaverk Gerðar Helgadóttir (1928-1975) á Tollhúsinu. Verkið sem er eitt af stássum höfuðborgarinnar er 44 m langt og 4,5 m á hæð. Tók það Gerði tvö ár að vinna verkið, árin 1972 og 1973 í samvinnu við þýska fyrirtækið Oidtmann. Verkið sem er að verða hálfrar aldar gamalt, er enn eins og nýtt. Í Tollhúsinu er skrifstofur skattsins á efri hæðum, en í götuhæð er Kolaportið, þekktasti nytjamarkaður á Íslandi. Hugmyndir eru nú að innan fárra ára yfirtaki Listaháskóli Íslands alla bygginginguna. Ef þau plön ganga eftir verður Tryggvagata aðal menningargata Reykjavíkur, því vestan við Tollhúsið er Listasafn Reykjavíkur til húsa. Við hliðina á Listasafninu er síðan Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Borgarbókasafnið. 

Tryggvagata er nefnd eftir Tryggva Gunnarssyni (1835-1917) alþingismanni og bankastjóra, og varð til á uppfyllingu sem gerð var við hafnargerð Reykjavíkurhafnar 1913 til 1917.

Reykjavík  17/12/2021 10:58 – A7R III : FE 1.4/24mm GM

Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson