Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti er stór dagur á Íslandi, og dagurinn hefur verið almennur frídagur í hálfa öld í ár. Daginn ber alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu 19. til 25. apríl. Í íslenskri þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en þá er átt við að hiti fari undir frostmark aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Óvenju hlýr loftmassi var yfir landinu í nótt, svo samkvæmt þessari aldagömlu þjóðtrú verður afleitt sumar á Íslandi í ár. Dagurinn er hluti af misseristalinu sem tíðkast hér, síðan á Víkingaöld, en þá var árinu skipt í tvo nærri jafnlanga helminga: Sumarhelming og vetrarhelming. Það er gott að geta fagnað sumrinu hér á Íslandi eftir þessari eldgömlu hefð, hefð sem gerir hvorki ráð fyrir vori eða hausti.

Víðavangshlaup ÍR hefur farið farið fram á sumardaginn fyrsta í 107 ár. Hlaupið er eitt fjölmennasta 5 km hlaup landsins, og fer það fram í hjarta Reykjavíkur. Í ár voru yfir 500 keppendur. Hér er Stefán Pálsson að koma í mark, á sínum besta tíma í Pósthússtræti. 
Stór tónlistarhátíð fyrir yngstu borgara landsins fór fram í Hörpu, í dag sumardaginn fyrsta. 
Hoppukastali vestur í Vesturbæ, en Skátarnir hafa haft veg og vanda af skrúðgöngum og leikjum fyrir börn á sumardaginn fyrsta í Reykjavík í meira en hálfa öld. 

Reykjavík 21/04/2022 12:14 – 13:33 : A7C – A7R IV : FE 1.8/14mm GM – FE 2.5/40mm G

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson