Ingólfur og Hallveig

Goðin höfðu hönd í bagga við landnám Íslands.

Fyrstir norrænna landnámsmanna á Íslandi, sem sagan greinir frá, voru fóstbræðurnir Ingólfur  Arnarson og Hjörleifur Hróðmarsson. Auk þess að vera fóstbræður var Hjörleifur kvæntur systur Ingólfs. Árið 969 lentu þeir fóstbræður í orrustu við syni Atla jarls, sem hafði ætlað að drepa Hjörleif en leikar fóru á annan veg. Atli var handgenginn Haraldi hárfagra sem þá hafði ríkt í nokkur ár og var þeim fóstbræðrum því nauðugur kostur að semja um afhendingu landareigna sinna til sátta. Mörgum höfðingjum sveið ofríki Haralds konungs og því myndaðist stemning fyrir að kanna landkosti á Íslandi. Það varð úr að þeir lögðu í könnunarleiðangur úr Firðafylki á stóru skipi og námu land í Syðri-Álftarfirði. Rétt utan við Álftarfjörð er Papey og eins og nafnið vísar til má búast við að Papar hafi búið þar. En hvort sem Írar bjuggu þar eða ekki voru drekahöfuð skipanna tekin niður áður en komið var að landi, ekki vegna ótta við íbúa landsins, hafi þeir á annað borð verið til staðar, heldur af óttablandinni virðingu við landvættirnar. Þeir könnuðu Austfirðina og þóttu landið byggilegra sunnan til og tóku sér vetursetu í Álftarfirði. Að ári liðnu fóru þeir aftur til Noregs margs fróðari um landið. Hjörleifur var víkingur og lítið gefinn fyrir trúariðkun og beið ekki boðanna að fara strax í hernað til Írlands, þar sem hann aflaði sér umtalsverðs fjár þ.m.t.  5 röska þræla. Ingólfur taldi mikilvægara að rækta sinn innri mann eins og sagt er nú til dags.

Blótað fyrir forlögunum

Þennan vetur stóð Ingólfur fyrir miklu blóti (líklega jólablóti) eins og títt var og þar leitaði hann sér heilla um forlög sín. Fréttin vísaði Ingólfi til Íslands. Eftir það var Íslandsferðin ákveðin. Þá útbjuggu þeir fóstbræður sitt hvort skipið til Íslandsferðar. Í skipi Hjörleifs var herfang það sem honum hafði hlotnast á Írlandi en í skipi Ingólfs var sameiginlegt félagsfé þeirra.

Ferðin til Íslands gekk að mestu áfallalaust fram að því að þeir fengu landsýn en þá skildu leiðir. Þá kastaði Ingólfur öndvegissúlum fyrir borð sér til heilla og hét því að taka þar búsetu sem þær rækju að landi en fram að því námu þeir staðar við Ingólfshöfða. Hjörleifi gekk ekki eins vel því hann rak vestur með landinu og fékk vatnfátt (afleitan þorsta). Þrælarnir þóttust kunna ráð við þorstanum og bjuggu til minkþak sem búið var til úr smjöri og méli, sem þeir sögðu vera meðal við þorsta. En þegar það blotnaði myglaði það svo af varð óþefur og köstuð þeir því fyrir borð og þar sem það rak að landi er kallaður Minkþaksreyr.

Hjörleifur veginn

Hjörleifur tók land á Hjörleifshöfða og sat þar um veturinn en um vorið vildi hann sá. Hann átti einn uxa og lét þrælana draga arðinn. Sjálfur var Hjörleifur við skálasmíði en þrælarnir brugguðu honum launráð. Úr varð að þeir drápu uxann og sögðu að skógarbjörn hefði framið verknaðinn. Þegar menn Hjörleifs leituðu bjarnarins sátu þrælarnir fyrir þeim einum og einum og myrtu. Að loknu ódæðinu tóku þeir konur hinna myrtu ásamt öllu lausafé og héldu til eyjar sem sást í útsuðri (Vestmannaeyjar) og bjuggust þar um hríð. Ingólfur sendi þræla sína, þá Vífil og Karla, til að leita Hjörleifs. Þeir voru ólíkt húsbóndahollari en þrælar Hjörleifs. Þegar þá bar að Hjörleifshöfða fundu þeir Hjörleif allan og fóru til baka og sögðu Ingólfi. „Ok lét hann illa yfir.“ (Tók mjög nærri sér). Þegar hann sá lík Hjörleifs mælti hann: „Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng að ljótir þrælar skyldu að bana verða. Mér sýnist að slík verði örlög allra þeirra sem ekki vilja blóta. Að svo búnu gerði hann veglega útför og gróf mág sinn ásamt skipi og eigum. Þar sem báturinn var horfinn flaug Ingólfi í hug að þrælarnir hefðu flúið til Vestmannaeyja. Ingólfur kom þrælunum að óvörum þar sem þeir voru að matast á stað sem nefnist Eið. Þeir urðu svo skelfdir að þeir hlupu hver í sína átt, ýmist í skorur eða fyrir björg sem tóku þeirra nöfn. Við þá eru allar eyjarnar kenndar því þeir voru Vestmenn. Þannig björguðu Ingólfur og hans menn konum hinna myrtu og fluttu til Hjörleifshöfða. Þar var Ingólfur tvo vetur og hinn þriðja við Ingólfsfell austan við Hveragerði.  

Upphaf byggðar í Reykjavík

Meðfram búskapnum leituðu þrælarnir góðu þeir Vífill og Karli að öndvegissúlunum og fundu þær reknar í Reykjavík, sem var á hrjóstrugu svæði. En Ingólfur skeytti því engu og byggði sér hús í Reykjavík. Þá voru liðin fimm ár frá því að þeir komu fyrst til Álftarfjarðar. Margir telja að fyrsti landnámsbærinn hafi verið byggður þar sem nú er Aðalstræti og fjölmargar heimildir greina frá að áðurnefndar öndvegissúlurnar Ingólfs hafi verið í eldhúsinu. Þrælarnir góðu, Karli og Vífill, voru Vestmenn og því nær örugglega kristnir og því líklegt að þeim hafi þótt Ingólfur hjátrúarfullur. Til marks um það er haft eftir Karli: „Til ills fórum við um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“ Hætti hann í vistinni og tók með sér ambátt og settust þau að í Ölfusinu. Ingólfur gaf Vífli frelsi og land á Vífilsstöðum.

Fjölskylda og merkir niðjar

Ingólfur er frægastur landnámsmanna. Hann er talinn fyrstur  norrænna landnámsmanna til að koma hér að óbyggðu landi og setjast hér að til frambúðar. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir, sonur þeirra var Þorsteinn Ingólfsson, sá er setti á fót Kjalarnesþing, áður en Alþingi var stofnað. Sonur Þorsteins og barnabarn Ingólfs var Þorkell máni lögsögumaður. Hann var talinn einn best siðaður (trúaður) heiðinna manna eftir því sem menn vissu dæmi til. Á banalegunni lét hann bera sig út í sólina og fól sig þeim guði sem sólina hefði skapað. Þar andaðist hann og var það mál manna að hann hefði lifað svo hreinlyndu lífi sem þeir kristnu menn sem best voru siðaðir.  Sonur Þorsteins mána var Þormóður. Hann var allsherjargoði þegar kristni var lögtekin á Íslandi.

Texti: Sigurður Þórðarson

Ljósmynd: Friðþjófur Helgason