Guðni Pálsson hefur um árabil starfrækt eigin teiknistofu og fyrstu árin með Dagnýju Helgadóttur arkitekt.Á meðal verkefna sem þau unnu að, er skipulag Kvosarinnar miðbæ Reykjavíkur og Rimahverfis í Grafarvogi. Helstu byggingar teiknistofunnar eru hin svokölluðu „hvítu“ íbúðarhús á Völundarlóð og skrifstofubygging við Lágmúla 4, betur þekkt sem Úrval-Útsýn-húsið.

Eftir að því samstarfi lauk hefur Guðni rekið teiknistofuna GP Arkitektar. Hann hefur meðal annars hannað þrjú hús sem standa í röð við Borgartún, hús Nýherja, nú Origo, hús Samtaka atvinnulífsins og KPMG. Einnig Top-Shop-húsið við Lækjargötu þar sem Hard Rock Cafe er núna til húsa, Plaza Hotel við Aðalstræti, húsnæði Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð. Íbúðarhús í Bryggju- og Sjálandshverfi og glæsilegt fjölbýlishús við Eddufell 8, þar sem eldra verslunarhúsi var breytt í íbúðarhús. Einnig mjög sérstök parhús í Hafraþingi í Kópavogi.

Hótel South Coast við Eyraveg á Selfossi opnaði 2019. Kynnt hafa verið drög að nýjum máta við byggingu fjölbýlis við sömu götu. Við Hamranes í Hafnarfirði mun rísa hverfi með um 100-130 íbúðum byggðar á sömu hugmyndafræði og við Eyraveg.

ANDSTÆÐUR

„Ég get ekki sagt að ég sé með neinn sérstakan stíl, tíðarandinn breytist hratt og maður breytist ósjálfrátt með. Verð þó að hafa mína meiningu. Kannski best lýst með því að ég á erfitt með að dansa tangó ef ég má ekki taka hliðarspor. Ég er ekki mikið fyrir ýkta formgjöf en hef gaman að dansa á ystu nöf eins t.d. við Lágmúla 4, þar var ég að vísu beðinn um að gera það.

Ég held mig við nútímann í þeim skilningi að hús eiga að líta út eins og þau séu hönnuð í dag, þó taka eigi mið af umhverfinu hverju sinni. Byggingalist á að vera skapandi eins og aðrar listgreinar og því sé það hlutverk arkitekta að vera það.

Þetta er öfugt við það að spila eftir nótum í hljómsveit, þar sem maður reynir að spila sama lagið betur og betur. Í byggingarlist er endurtekningin eiginlega af hinu vonda.

Það getur varla verið rétt að maður teikni sama húsið aftur og aftur í þeirri von að það verði loksins gott. Ég tel því ekki að það sé hlutverk okkar arkitekta að endurtaka það sem þegar hefur verið byggt heldur nota það sem grunn fyrir nýja hönnun. Seinni árin hefur hönnun mín orðið meira skúlptúrel. Ég sleppi meira fram af mér beislinu sem hélt mér áður fyrr. Ég legg áherslu á andstæður – þetta hráa og hlýja eins og steypu og við. Leikur með efnin skapar alltaf möguleika.

BYLTINGARKENND HUGMYND

Á teiknistofunni höfum við unnið að hönnun nýstárlegs fjölbýlishúss sem verður byggt á Selfossi.

Ég hef alltaf verið opinn fyrir nýstárlegri hönnun bygginga eins og t.d. íbúðarhúsin sem arkitektinn Moshe Safdie teiknaði fyrir heimssýninguna í Montreal í Kanada 1967, kölluð Habitat 67. Þetta eru enn, 50 árum seinna, langeftirsóttustu íbúðirnar þar í borg.

Eyrarvegur

Umrædd bygging er fræg fyrir sérkennilegan byggingarmáta þar sem sérbýlum er staflað upp hvort ofan annað þannig að úr verður margra hæða fjölbýlishús einbýla.

Má segja að þetta sé grunnurinn að húsinu við Eyraveg. Lóðin er ekki stór og ekki er pláss fyrir mörg hliðarspor.„Ég fékk þá hugmynd að nota vinkilhús og leggja nokkur hús ofan á hvort annað sitt hvoru megin við aðkomugang. Á Selfossi verður þetta fjögurra hæða hús með átta íbúðir á hverri hæð. Íbúðirnar snúast innbyrðis. Við það verða aðkomugangarnir uppbrotnir, því allir veggir verða innbyrðis skakkir. Þakinu á efstu hæðinni er lyft yfir stofuálmunni en við það breyttist útlit byggingarinnar mikið – það kemur meiri léttleiki yfir hana. Heildin snarbreyttist,“ segir Guðni. Útskotsgluggar setja einnig mikinn svip á bygginguna.

Íbúðirnar verða um 60-90 fermetrar að stærð. Íverurými snúa öll að svölunum og er hægt að ganga út á þær frá þeim öllum. Svalirnar verða stórar – um 18-23 m2 og tveggja metra djúpar. Þær verða því garður hverrar íbúð. „Það verður skilyrði að fólk rækti gróður í steyptum gróðurkössum sem verða á svölunum.“

Búið er að kynna hugmyndina fyrir skipulags- og bygginganefnd Árborgar á Selfossi. Það á eftir að klára bygginganefndar-teikningar og segir Guðni að vonandi verði hægt að byrja að byggja í upphafi næsta árs.

Í apríl fengum við úthlutaða lóð fyrir um 110-130 íbúðum í nýju íbúðahverfi við Hamranes í Hafnarfirði. Þar höfum við þróað þessar hugmyndir áfram. Hér verður byggðin allt öðruvísi. Í Hamranesi erum við að byggja í opnu landi en við Eyraveg á lítilli lóð við götu inni í bæ.

Hamranes

Því verður form húsanna allt annað. Húsunum er deilt upp í þrjár íbúðaeiningar með um 40 íbúðum í hverri einingu sem hver um sig er byggð utan um lítinn garð. Íbúðirnar eru vinkilformaðar eins og við Eyraveg. Landið er mosavaxið hraun. Það verður kappkostað að halda því eins mikið óhreyfðu og mögulegt er. Við erum að byrja deiliskipulagningu á reitnum, sem verður vonandi tilbúinn til byggingar núna í haust.

Guðni segir að þessar byggingar skipti hann miklu máli. „Þetta er á vissan hátt bylting í hönnun fjölbýlishúsa og því mikilvægt að vel takist til.“

NÚTÍMALEGT HÓTEL Á SELFOSSI

Í júní í fyrra kláraði teiknistofan hönnun á glæsilegu hóteli, Hótel South Coast við Eyraveg á Selfossi. Byggingin er á fjórum hæðum með 72 hótelherbergjum. Herbergin eru rúmgóð, frá 24 fermetra upp í 34 fermetra. Á fyrstu hæð er móttaka og veitingastaður. Í kjallara er stórt spa með heitum og köldu pottum, gufubað, sauna og rúmgóð hvíldaraðstaða.

„Það var heilmikil vinna að klára þetta hótel, þar sem við teiknum líka allar innréttingar,“ segir Guðni. Hótelið er nútímalegt í útliti eins og öll hans hönnun. Útveggir eru klæddir með ljós- og dökkgráum steinplötum sem og Cortein stáli, sem er ryðgað stál. Brúni litur stálsins skapar hlýleika á móti gráu steinplötunum.

Stiginn á milli hæðanna er nýstárlegur, smíðaður úr Cortein stáli, hertu gleri og harðviði.

Herbergin eru hin glæsilegustu. „Stór gluggi blasir við þegar gengið er inn í herbergin en minni gluggar, annað hvort lóðréttir eða láréttir, eru til hliðar þar sem rúmin eru.“ Lengsti veggurinn í herbergjunum verður svartmálaður en aðrir veggir eru hvítir, fyrir utan veggina sem rúmin munu standa við en þeir eru málaðir í mismunandi litum.

Baðherbergin eru í gráleitum og svörtum tónum og eru vaskarnir sérhannaðir sem hluti af borðplötu.

Veggir hótelganganna eru hrá steypa varin með glæru varnarefni.

Öll lýsing bæði úti og inni er Ledd-lýsing sem er sparneytin og viðhaldsminni en venjulegar ljósaperur.

Fyrir nokkrum mánuðum var opnuð lítil gestaálma við Hlið á Álftanesi. Húsið tekur nútímalegt mið af eldra íbúðahúsi sem er byggt í torfbæjarstíl. Við Selhellu í Hafnarfirði er teiknistofan að hanna tvær byggingar. Annars vegar nýbyggingu fyrir HS Veitur, sem er verið að leggja lokahönd á. Húsið er um 1600 m2 og samanstendur af lager, verkstæði, skrifstofum og matsal. Húsið verður tekið í notkun innan tveggja mánaða. Hinsvegar 1700 m2 nýbyggingu fyrir Icetransport, sem samastendur á sama hátt af lagerhúsnæði, skrifstofum og matsal, þó byggingarnar séu mjög ólíkar.

Hótel við Skipholt 29 í Reykjavík er svo til tilbúið. Þar er opnun háð Koronavírusnum.

-SJ