Grænland býður upp á svo margt

13562573773_8811bf5e02_o

Ingibjörg Gísladóttir kom fyrst til Grænlands árið 1980, heillaðist af landi og þjóð, bjó þar síðar með hléum en samfellt undanfarin sex ár. Hún talar m.a. um náttúruna, Grænlendinga og hvað ferðamenn geta upplifað á þessari stóru eyju sem er að mestu leyti hulin jökli og þar sem hitinn getur farið upp í 20 stig á sumrin.

ingibjorg-gislasottir-greenland

Ingibjörg Gísladóttir. „Það er mjög jákvæð og sterk orka á Grænlandi, þar er náttúrutenging en á sama tíma mjög sterk tenging við nútímann.“

„Ég ætlaði að verða geimfari þegar ég var barn. Ferðir til tunglsins voru mikið í umræðunni og mér fannst geimferðir vera svo spennandi. Ég vildi fara í geimferðir og lenda í ævintýrum.“
Ingibjörg Gísladóttir varð aldrei geimfari en hún hefur upplifað annars konar ævintýri síðastliðna áratugi í landinu í vestri þar sem jökullinn og ísjakarnir sveipa umhverfið ævintýrablæ.
„Ég fór fyrst til Grænlands vorið 1980 þegar ég var 18 ára og vann á sumarhóteli í Narsarsuaq. Þetta var ofboðsleg upplifun. Ég vissi ekkert um Grænland áður en ég fór þangað. Þegar ég var í barnaskóla sá ég svarthvíta mynd frá Grænlandi sem var tekin sennilega í kringum 1950 og sýndi innpakkaða hnoðra í loðskinnum úti á ísnum. Það var hugmyndin sem ég hafði um Grænland.“
Ingibjörg segir að það hafi verið yndislegt að dvelja þetta sumar á Grænlandi. „Einhvern veginn varð einhver hluti af mér eftir á Grænlandi. Ég er búin að vera síðan svolítið viðloðandi á Grænlandi en þegar ég fór þangað 18 ára gömul þá komst ég að því að grænlenskt þjóðfélag er líkt íslensku þjóðfélagi en Grænlendingar eru kannski nær náttúrunni og nær þessu upprunalega í sjálfum sér og umhverfi sínu. Þegar ég fór þangað fyrst komst ég líka að því að Grænlendingar hlustuðu á sömu hljómsveitir og ég hlustaði á og þeir gengu líka í útvíðum buxum. Allt var eins og hér. Það var hægt að fá hvað sem var í búðinni og ef það var ekki til þá var hægt að panta það.“

Sagnaþulur
Ingibjörg fór aftur til Grænlands árið 1987 og bjó þar í tvö ár, aðallega í bænum Qaqortoq á Suður-Grænlandi og svo í litlu þorpi ennþá sunnar sem heitir Allu, og vann við ýmislegt svo sem á hóteli, hún afgreiddi í verslun og vann í fjölskylduathvarfi. Hún flutti til Íslands árið 1989 og árið 1992 flutti hún til Danmerkur þar sem hún bjó til ársins 2010 þegar hún flutti aftur til Grænlands. Hún vann við ýmis störf í Danmörku þar til hún hóf nám í félagsráðgjöf og vann síðan sem félagsráðgjafi í 10 ár.
Edda Lyberth, sem hefur búið á Grænlandi í áratugi, hafði samband við Ingibjörgu árið 2005 og spurði hvort hún hefði tök á að vinna með henni að verkefni þá um sumarið. „Edda var með veitingastað í Qaqortoq og var með hugmyndir að kvöldum þar sem við myndum segja sögur úr norrænni goðafræði og Íslendingasögunum en ég hafði um tíma atvinnu af því í Danmörku að segja íslenskar þjóðsögur og ævintýri; þetta heitir sagnaþulir á íslensku.“
Ingibjörg vann með Eddu í fjögur sumur, 2005-2008, en fyrir utan að vinna sem sagnaþulur vann hún líka sem leiðsögumaður á Suður-Grænlandi. „Ég var fyrsta sumarið með Eddu í Qaqortoq og næstu þrjú sumurin vorum við Edda saman í Brattahlíð. Þetta voru yndisleg sumur, ofboðslega mikil vinna og langir vinnudagar en mjög gefandi.“

Annar heimur
Ingibjörg segist hafa verið orðin þreytt á að vera í Danmörku og vinnu sinni þar og segir að hún hafi verið heppin þegar starfsmaður hjá flugmálayfirvöldum á Grænlandi hafði samband við hana árið 2010 og spurði hvort hún hefði áhuga á að sækja um nám í flugumsjón.
„Mér leist ekki á það strax. Mér fannst ég vera orðin svo gömul,“ segir Ingibjörg sem var þá 48 ára. „Hann sannfærði mig um að þetta væri ekkert mál; sagði að þeir hjá flugmálayfirvöldum hefðu fylgst með mér á sumrin þegar ég var að vinna á Grænlandi og að ég væri með það sem þyrfti.“
Ingibjörg fór í inntökuprófið og náði því.
Hún flutti síðan til Grænlands haustið 2010, stundaði námið í Narsarsuaq en var í  starfsþjálfun í Nuuk.
„Flugmálayfirvöld höfðu sagst ætla að borga fyrir mig námið, húsnæði og fæði á meðan ég væri í náminu gegn því að ég ynni hjá þeim allavega í tvö ár. Þeir sendu mig eftir útskrift til eyjarinnar Upernavik sem er á 72. breiddargráðu norðlægrar á vesturströnd Grænlands og er þetta næst síðasta stopp fyrir norðurpól. Upernavik er lítil eyja sem er um 2×4 kílómetrar og 130 metrar á hæð. Þetta er eins og lítið fjall og það er eins og einhver hafi tekið fjallið og sleppt því út í Baffinflóa.“
Ingibjörg kom til Upernavik í janúar 2011. „Þetta er draumaheimur. Þetta er annar heimur.“
Íbúar tóku vel á móti Ingibjörgu sem segir að Grænlendingar séu almennt mjög elskulegt og gestrisið fólk.
„Þegar einhver á eyjunni veiddi hval eða ísbjörn var alltaf haft samband við mig og ég spurð hvort ég væri búin að fá kjöt eða spik. Ég var tekin inn í samfélagið.“
Ingibjörg bjó í Upernavik í tvö ár. Hún flutti þá til Sisimiut sem er einnig á vesturströnd Grænlands og vann þar sem ferðamálafulltrúi í tæpt ár og vann síðan við sérverkefni hjá atvinnumálaráðuneyti Grænlands í um hálft ár. Hún flutti síðan til Nuuk og vinnur þar á Aðalræðismannsskrifstofu Íslands.15279606565_0d3f90756a_o

Náttúran
Það er einfaldlega eitthvað á Grænlandi sem dregur Ingibjörgu til sín.
„Það er margt á Grænlandi sem minnir mig á ýmislegt þegar ég var að alast upp. Það er mjög jákvæð og sterk orka á Grænlandi, þar er náttúrutenging en á sama tíma mjög sterk tenging við nútímann. Mér finnst þessi blanda vera skemmtileg og þetta er eitthvað sem mér finnst margir Íslendingar vera búnir að týna.“
Ingibjörg segir að náttúran á Suður-Grænlandi sé svolítið lík íslenskri náttúru en að fjölbreyttara gróðurfar sé á Grænlandi. „Þar eru fleiri tegundir af blómum og lyngi; þar eru bláber og krækiber en þar eru líka einiber út um allt og svo eru þar ýmsar plöntur sem eru ekki á Íslandi en þetta er miklu sunnar heldur en Ísland.“ Eyrarrós er þjóðarblóm Grænlands.
„Svo eru sumrin svo ofboðslega góð; þar er oft sólskin og um 20 stiga hiti meira og minna frá byrjun júní til ágústloka. Þetta er landbúnaðarsvæði og bændur eru ekki ánægðir með þetta þar sem það rignir ekki nógu mikið og grasið sprettur þess vegna síður.“
Ingibjörg segir að við fyrstu sýn virki grænlensk náttúra kannski harkaleg og kaldranaleg en svo sé ekki í raun og veru. „Á sumum svæðum eru há og hrikaleg fjöll og er t.d. Tasermiut fjörðurinn á Suður-Grænlandi að verða æ vinsælli á meðal klettaklifrara. Grænlensk náttúra er hins vegar almennt ofboðslega lifandi og hlý. Þar eru dalir með grasi og kjarrskógi og breiður af hvönn.“
Ingibjörg nýtur þess að vera úti í náttúrunni. „Ég fer í gönguferðir og áður fyrr fór ég jafnvel í nokkurra daga gönguferðir. Ég fer mikið upp í fjallgöngur og í stuttar siglingar og útilegur.“

Nútímaþjóðfélag
Íslendingar fara frekar í frí til meginlands Evrópu heldur en til Grænlands sem er næsti nágranni í vestri og vita margir ekki í raun hvernig grænlenskt þjóðfélag er og stundum heyrast neikvæðar sögur.
„Flestir Grænlendingar lifa í nútímasamfélagi,“ segir Ingibjörg. „Þeir eru með öll þessi tæki, tól og tengingar sem við þekkjum og ég held að níu af hverjum 10 Grænlendingum séu á Facebook og Twitter. Grænlendingar fara í utanlandsferðir og fá heimsóknir að utan og vöruúrval er orðið allt annað og betra. Þeim hefur samt á sama tíma tekist að halda í þessa náttúrutengingu og ákveðin heilindi í sjálfum sér. Það eru ekki umbúðirnar sem skipta máli heldur innihaldið eða mannleg samskipti á fallegum fleti.“
Ingibjörg segir að Grænlendingar í stærri bæjum séu orðnir svolítið slæmir í lífsgæðakapphlaupinu og sækist eftir að eiga stóra jeppa, flotta hraðbáta og nýjustu dúnúlpurnar.
„Miðstöð valdsins og stjórnsýslan er í Nuuk. Þar er háskólinn, þar eru embættismennirnir og þar safnast menntafólkið saman, þar er kvikmyndahús, sundlaug, veitingastaðir og kaffihús.“
Ingibjörg talar um fjölbreytni í grænlenskri matargerð en fyrir utan hefðbundna rétti eins og sel, hval og hreindýr nefnir hún loðnu sem er gjarnan heilsteikt eftir að hafa verið velt upp úr eggi og raspi auk þess sem hún er stundum maríneruð í ólífuolíu og hvítlaukschili og síðan er hún hert. „Heimskautasushi er algjört sælgæti en þá er blandað saman hráum fiski, hráu kjöti af t.d. sel og hval, og þá gjarnan hert eða þurrkað, og hráu spiki og menn borða þetta með sojasósu og wasabi. Grænlendingar skera líka sel í litla bita, krydda hann og djúpsteikja hann. Svo er ofnbakaður selshryggur algjört sælgæti.“

Ferðamaðurinn
Ingibjörg segir að eitt af því sem sé svo heillandi við Grænland sé hvað landið er stórt og fjölbreytilegt. Fyrir utan stórkostlega náttúruna eru þar lítil þorp með húsum í mörgum litum og svo er það höfuðstaðurinn, Nuuk, þar sem er að finna nútímaleg háhýsi og byggingar.
Grænland er ævintýraland sem sífellt fleiri ferðamenn heimsækja. Ingibjörg segir að ef fólk hefur áhuga á inúítamenningu og lífsháttum inúíta þá sé annaðhvort austurströndin eða bærinn Ilulissat á vesturströndinni tilvaldir áfangastaðir því þar hafa fleiri haldið í veiðimannahefðirnar heldur en annars staðar í landinu. Svo geta ferðamenn farið í hundasleðaferðir á þessum slóðum. Þá má nefna að Ilulissat stendur við stórkostlegan ísfjörð sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
„Ef fólk vill sjá nútíma uppbyggingu og mismunandi byggingastíla þá er það Nuuk þar sem er vestræn nútímamenning og svo er líka hægt að fara þaðan t.d. í stangveiði. Suður-Grænland er svo ákjósanlegur staður ef fólk hefur áhuga á norrænni sögu og þar eru mjög skemmtilegar gönguleiðir auk þess sem hægt er að fara á hreindýraveiðar. Svæðið í kringum Narsaq og Qaqortoq er ákjósanlegt fyrir gönguferðir og eins svæðið í kringum Kangerlussuaq þar sem einnig er boðið upp á sauðnautasafarí og hreindýraveiðar. Þá má nefna skemmtilegar íþróttakeppnir svo sem Arctic Circle Race sem er skíðagöngukeppni sem haldin er í kringum Sisimiut í apríl á hverju ári. Þetta er þriggja daga ganga, 160 kílómetrar, þar sem menn eru á eigin vegum.
Grænland býður upp á svo margt. Það er svo svo stórt og tilveran og mannlífið þar er svo fjölbreytt. Það er reyndar dálítið erfitt að vera í þröngu pilsi og á háum hælum á sumum stöðunum en annars getur næstum því hver sem er fundið eitthvað við sitt hæfi.“