Norðurslóðir

Ari Trausti Guðmundsson

Gríðarlega mikið áhyggjuefni

Hlýskeiðið, sem nú stendur yfir, hefur haft mikil áhrif á veðurfar. Náttúrufarsbreytingar á norðurslóðum – þar sem jöklar, hafís, pólsjór, kaldir hafstraumar og jarðklaki skipta miklu máli varðandi veðurfar á jörðinni almennt – geta haft mikil áhrif á allt mannkyn. Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður segir að í óefni geti stefnt.

ariT

Ari Trausti Guðmundsson. „Nú sýnist manni hins vegar stefna í fjögurra stiga hækkun fyrir aldalok sem er tvöföldun á því sem menn telja viðráðanlegt.“ (Mynd: Luis Turi.)

Ari Trausti Guðmundsson segir að annars vegar verði að líta til náttúrunnar og hins vegar til mannlífsins á norðurslóðum í þessu sambandi.
„Hvað náttúruna varðar þá má líta á það sem gerist staðbundið og svo er hægt að líta á þetta í hnattrænu samhengi. Sjávaríssbreytingarnar eru einna alvarlegastar; hafísinn minnkar í norðri. Þessi stóri, hvíti skjöldur skiptir veðurfar á jörðinni gríðarlega miklu máli vegna þess að hann endurvarpar 80-90% af sólgeisluninni til baka. Hann er þegar farinn að rýrna mjög mikið eða um þriðjung á 10-20 ára tímabili. Hlýnun hafsins verður þess vegna enn hraðari en nú er. Þá geta hafstraumar breyst og afleiðingarnar eru ófyrirsjáanlegar. Það er ekki hægt að spá neinu en þetta er gríðarlega mikið áhyggjuefni.“
Um fjórar milljónir manna búa á norðurslóðum og segir Ari Trausti að ef litið sé á félagslegu hliðina þá sé hröð og harkaleg breyting á stöðu þjóðfélaga þar afdrifarík fyrir þau. „Það getur vissulega verið til góðs en það getur líka verið neikvætt. Þannig að ef menn fara ekki varlega í auðlindanýtingu getur þetta farið mjög illa.“

fjallÓleysanleg mótsögn
Mikil auðæfi er að finna á norðurslóðum – svo sem gas, olíu og náttúruauðlindir í jörðu – og segir Ari Trausti að mótsögnin í þessu sé fólgin í að við vinnslu og notkun þeirra herðir á loftslagsbreytingum þar sem þá yrði enn meira af kolefnisgösum sleppt. „Fyrir mér er þetta óleysanleg mótsögn. Svo er þetta meira umfang og margfalt stærri aðgerðir en þessi samfélög hafa nokkurn tímann séð.“
Ari Trausti segir að það sé spurning hvaða stefnu ríkisstjórnir viðkomandi landa hafi og hvernig hægt sé að hafa áhrif á þær innanlands og á alþjóðlegum vettvangi.
„Þeir sem búa þarna eru að hluta til frumbyggjar og rödd þeirra er óskaplega veik. Vandamálið er tvíþætt; hagstjórnin plús pólitíska andrúmsloftið og svo þessi ákveðna þöggun sem segja má að frumbyggjarnir verði fyrir.
Svo er líka um að ræða utanaðkomandi áhrif; þrýstingur stórfyrirtækja, hvort sem þau eru í olíu- eða einhverjum námarekstri, í að komast inn á þessi svæði. Það gerist þrátt fyrir að vísindamenn og ýmsar alþjóðastofnanir og jafnvel fyrirtæki hafa sýnt býsna kyrfilega fram á að það má ekki einu sinni klára að vinna þær olíulindir sem eru þekktar ef það á að halda hlýnun þokkalega í skefjum.“

ari trausta joklar

Jöklar rýrna næstum alls staðar í heiminum. (Mynd: Ari Trausti.)

ari trausta jokullYrði þjóðum dýrt
Ari Trausti segir að óttast sé að hlýnun á alheimsvísu verði allt of mikil.
„Menn hafa sett sem viðráðanlegt mark að meðalhiti jarðar hækki um tvö stig vegna mannlegra áhrifa og þátta. Manngerði hlutinn má hins vegar ekki leiða til meiri hækkunar en það ef þetta á að ganga nokkurn veginn upp. Engu að síður verða mótvægisaðgerðir og aðlögun þjóðfélaga mjög víðtæk verkefni og stór baggi á þeim. Nú sýnist manni hins vegar stefna í fjögurra stiga hækkun fyrir aldalok sem er tvöföldun á því sem menn telja viðráðanlegt. Því myndi fylgja veruleg sjávarborðshækkun, mikil jökulbráðnun sem myndi leiða til vatnsskorts víða í heiminum og hungurs við miðbik jarðarinnar. Þar eru jöklar aðalvatnsforðabúr hundruð milljóna manna. Súrnun hafsins eykst eftir því sem hitastigið hækkar sem leiðir til þess að kalk fer að leysast upp.
Það yrði þjóðum óskaplega dýrt ef allar helstu breytingar í náttúrunni fá að ganga mjög langt vegna mistaka og kæruleysis. Þær kosta miklar fórnir, mikla fólksflutninga og breytingar, sem menn eru ekki vissir um að myndu endilega ganga friðsamlega fyrir sig.“