Guðshúsin í Garðabæ
Garðabær er sjötti fjölmennasti bær á landsins, og hefur íbúum fjölgað þar hraðast undanfarin ár af öllum sveitarfélögum á landinu. Íbúatala bæjarins er nú 17.693, en þeir voru 7.711 árið 2008. Í bænum er mjög öflugt íþróttastarf, en Íþróttafélagið Stjarnan, stofnað árið 1960 af séra Bjarna Friðrikssyni, spilar í efstu deild, bæði hjá konum og körlum í stærstu deildunum, fótbolta, handbolta og körfubolta. Auk þess er Stjarnan með mjög öflugar sund- og fimleikadeildir. Í bænum, sem liggur milli Hafnarfjarðar í suðri og Kópavogs í norðri, eru þrjár kirkjur, hver annarri ólíkri. Bærinn er ungur, fékk kaupstaðarréttindi árið 1976.

Vídalínskirkja er stærsta kirkja Garðabæjar, vígð árið 1995, og kennd við Jón Biskup Vídalín í Görðum, en þar fæddist hann og þar þjónaði hann sem prestur árin 1696 til 1698 er hann var vígður biskup að Skálholti. Kirkjan og áfast safnaðarheimili er hannað af Skúla H Norðdahl arkitekt.

Bessastaðakirkja á Álftanesi, stendur nokkra metra frá forsetasetrinu á Bessastöðum. Bygging kirkjunnar hófst 1773 og var lokið 1823. Perluna á Öskjuhlíð má greina vinstra megin við Bessastaði. Kópavogur blasir við hægra megin við Bessastaði.

Núverandi kirkja á Görðum, en Garðabær er kenndur við jörðina, var vígð árið 1880. Þar hefur verið kirkja frá kristnitöku árið 1000. Horft er yfir Hafnarfjörð, og Keilir og Fagradalsfjall má glitta í bakgrunni. Garðar er landnámsjörð, Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar var þar fyrsti ábúandi, hann bjó ekki langt frá frænda sínum, sem bjó í Kvosinni í Reykjavík, hinu megin við Skerjafjörð.
Garðabær 21/03/2022 09:01 -09:57 : A7R IV – RX1R II : FE 1.8/135mm GM – 2.0/35mm Z
Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson