Hádegistónleikum í Hafnarborg

Hádegistónleikum í Hafnarborg
þriðjudaginn 7. nóvember kl. 12
 

Þriðjudaginn 7. nóvember kl. 12 kemur fram söngkonan Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir á hádegistónleikum í Hafnarborg. Antonía Hevesi leikur undir að vanda og munu þær Ingibjörg flytja dramatískar aríur eftir G. Verdi og G. Puccini fyrir tónleikagesti en yfirskrift tónleikanna er Dauði og dramatík.

Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir sópransöngkona stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk burtfararprófi þaðan árið 2000. Hennar aðalkennari við Söngskólann var Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Að námi loknu í Reykjavík lá leiðin til Þýskalands þar sem Ingibjörg stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Nürnberg undir handleiðslu Prof.Arno Leicht, og lauk hún mastersnámi þaðan með láði í óperu og ljóðasöng sumarið 2005. Ingibjörg hefur komið fram á tónleikum sem einsöngvari við ýmis tækifæri og kirkjulegar athafnir, haldið fjölda tónleika, sungið á óperusviðum og einsöng með kórum og sinfóníuhljómsveitum m.a. í Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Tékklandi og á Íslandi. Á árunum 2005-2012 starfaði Ingibjörg hjá Kleine Oper í Nürnberg og söng leiðandi sópranhlutverk í fjölda óperusýninga.  Meðal hlutverka Ingibjargar eru Pamina í Töfraflautunni, Mimi í La bohéme, 1. Dama í Töfraflautunni, Rosalinda í Leðurblökunni, Michaela í Carmen, Greifafrúin í Brúðkaupi Fígarós, auk ýmissa annarra hlutverka. Árið 2014 kom út fyrsti einsöngsdiskur Ingibjargar Aldísar ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara. Ingibjörg starfar sem söngkona, og er tónlistar- og umsjónarkennari við Klettaskóla í Reykjavík.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.